Engar athugasemdir gerðar við rekstur Lindarhvols

Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisendurskoðun hefur lokið eftirliti með framkvæmd Lindarhvols ehf. á samningi sem fjármála- og efnahagsráðherra gerði við félagið um umsýslu, fullnustu og sölu á stöðugleikaframlagseignum. 

Þetta kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar þar sem skýrslan er birt í heild sinni. Lindahvoll ehf. var stofnað í apríl árið 2016 og var tilgangur félagsins að annast umsýslu, ráðstöfun og sölu stöðugleikaframlagseigna. 

Tíu þing­menn lögðu á síðasta ári fram á beiðni á Alþingi um að embætti rík­is­end­ur­skoðanda myndi taka út starfsemi Lindarhvols og skila af sér skýrslu. Var það meðal annars gert vegna ásak­an­a sem fram höfðu komið um leynd­ar­hyggju í stað gagn­sæ­is í starfsemi félagsins.

Ríkisendurskoðun gerir engar athugasemdir við störf stjórnar félagsins eða rekstur þess en í skýrslunni kemur fram að álitamál sé hvort starfstími félagsins hafi verið nægilega rúmur.  Mögulega hefði verið hægt að fá hærri tekjur fyrir einstaka eignir hefði sölu- og umsýslutíminn verið annar og lengri.

„Óhjákvæmilegt er þó að taka tillit til þess að vaxtakjör íslenska ríkisins bötnuðu vegna þess hversu greiðlega gekk að koma stöðugleikaframlagseignunum í verð. Þannig kunna að vegast á annars vegar hagsmunir þess að hraða sölu og fá þannig betri vaxtakjör og hins vegar möguleikar þess að fá hærra söluverð fyrir einstaka eignir á lengri tíma,“ segir á vef embættisins.

Stöðugleikaframlagið hefur skilað 460 milljörðum króna í ríkissjóð en upphaflega var reiknað með því að tekjur íslenska ríkisins yrðu 384 milljarðar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK