Ríkisendurskoðun hefur lokið eftirliti með framkvæmd Lindarhvols ehf. á samningi sem fjármála- og efnahagsráðherra gerði við félagið um umsýslu, fullnustu og sölu á stöðugleikaframlagseignum.
Þetta kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar þar sem skýrslan er birt í heild sinni. Lindahvoll ehf. var stofnað í apríl árið 2016 og var tilgangur félagsins að annast umsýslu, ráðstöfun og sölu stöðugleikaframlagseigna.
Tíu þingmenn lögðu á síðasta ári fram á beiðni á Alþingi um að embætti ríkisendurskoðanda myndi taka út starfsemi Lindarhvols og skila af sér skýrslu. Var það meðal annars gert vegna ásakana sem fram höfðu komið um leyndarhyggju í stað gagnsæis í starfsemi félagsins.
Ríkisendurskoðun gerir engar athugasemdir við störf stjórnar félagsins eða rekstur þess en í skýrslunni kemur fram að álitamál sé hvort starfstími félagsins hafi verið nægilega rúmur. Mögulega hefði verið hægt að fá hærri tekjur fyrir einstaka eignir hefði sölu- og umsýslutíminn verið annar og lengri.
„Óhjákvæmilegt er þó að taka tillit til þess að vaxtakjör íslenska ríkisins bötnuðu vegna þess hversu greiðlega gekk að koma stöðugleikaframlagseignunum í verð. Þannig kunna að vegast á annars vegar hagsmunir þess að hraða sölu og fá þannig betri vaxtakjör og hins vegar möguleikar þess að fá hærra söluverð fyrir einstaka eignir á lengri tíma,“ segir á vef embættisins.
Stöðugleikaframlagið hefur skilað 460 milljörðum króna í ríkissjóð en upphaflega var reiknað með því að tekjur íslenska ríkisins yrðu 384 milljarðar króna.