Rio Tinto ætlar að loka álverum sínum í Nýja-Sjálandi á næsta ári vegna þess hve hár orkukostnaðurinn er og vegna þess hversu erfiðar aðstæður eru í áliðnaði framundan.
Álframleiðslu Rio Tinto, Tiwai Point og New Zealand Aluminium Smelters (NZAS) verður lokað 31. ágúst 2021 og er þetta í samræmi við endurskoðun á rekstri álvera fyrirtækisins sem hófst í október í fyrra. Árið 2014 var greint frá því að árið á undan hafi nýsjálenskir skattgreiðendur neyðst til að reiða fram þrjátíu milljónir dala til dótturfélags Rio Tinto í Nýja-Sjálandi. Fram kom í nýsjálenskum fjölmiðlum að félagið hafi hótað því að loka álverinu Tiwai Point í suðurhluta landsins ef það fengi ekki orku á lægra verði.
„Þrátt fyrir ábendingar fjármálaráðuneytisins um að það væri ekki skynsamlegt að niðurgreiða orkuna til álversins var það að lokum samþykkt. Benti fjármálaráðuneytið meðal annars á að niðurgreiðslan fæli í sér mikla tilfærslu á fjármagni frá Ný-Sjálendingum til hluthafa Rio Tinto,“ sagði í frétt Morgunblaðsins árið 2014 af málinu.
Í tilkynningu frá Rio Tinto nú kemur fram að helstu ástæður ákvörðunarinnar um að hætta álframleiðslu á Nýja-Sjálandi sé hár rafmagnskostnaður og horfur til skemmri tíma á álmarkaði.
Rio Tinto á og rekur álverið í Straumsvík og tilkynnti í febrúar að félagið ætlaði að hefja sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík (ISAL) til að meta rekstrarhæfi þess til framtíðar og leita leiða til þess að bæta samkeppnisstöðu þess.
Í fyrirhugaðri endurskoðun verða allar leiðir skoðaðar, þar á meðal frekari framleiðsluminnkun og mögulega lokun. Endurskoðunarferlinu verður lokið á fyrri helmingi árs 2020. Vegna taprekstrar hefur framleiðsla ISAL þegar verið minnkuð í 85 prósent af afkastagetu álversins. ISAL er að fullu í eigu Rio Tinto. Í Straumsvík starfa um 500 manns.
Rio Tinto á 79,36% hlut í NZAS og japanska fyrirtækið Sumitomo Chemical á 20,64%. Á fyrstu þremur mánuðum ársins voru þar framleidd 67 þúsund tonn og 279 þúsund tonn í fyrra. NZAS var rekið með tapi í fyrra.
Álverið í Straumsvík framleiddi 45 þúsund tonn á fyrstu þremur mánuðum ársins og í fyrra voru þar framleidd 184 þúsund tonn af súráli.