Tvískinnungur í alþjóðapólitík

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

Fjármálaráðherra gerir ekki athugasemdir við að Rio Tinto láti reyna á rétt sinn gagnvart Landsvirkjun.  Hann telur að ákveðins tvískinnungs gæti í alþjóðaviðskiptum með ál þar sem engin umbun er fyrir umhverfisvænni iðnað. Um opnun raforkusamninga segir hann þar stranda á Rio Tinto.

Sjálfsagt að beita reglum réttarríkisins

Um viðbrögð við kæru Rio Tinto til Samkeppniseftirlitsins segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is: „Við búum í landi þar sem menn geta látið reyna á rétt sinn, það er lítið við því að segja þegar menn gera það.“ Hann segir að hér séu eftirlitsstofnanir og dómstólar sem þessir aðilar vilji leita til og hann sé „mjög tregur til að gera athugasemdir við það“.

„Það verður bara að koma í ljós hvað kemur út úr þessu.“

Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Álver Rio Tinto í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkeppnisumhverfi orkufreks iðnaðar

Hvað varðar orkufrekan iðnað á Íslandi segir Bjarni sér þar vera efst í huga samkeppnisstöðu Evrópuríkja gagnvart öðrum heimshlutum, sérstaklega gagnvart Asíu og Kína. Hann bendir á að fjöldanum öllum af álverum hafi verið lokað í Evrópu á undanförnum árum og ekkert nýtt álver hafi verið reist í álfunni síðan síðustu stórframkvæmdir áttu sér stað hér á landi. „Kína hefur tekið til sín æ stærri hluta heimsframleiðslunnar, sem brýst út í því að fyrirtæki sem eru í rekstrarvanda út af breyttri heimsmynd láta reyna á sína stöðu.“

Tvískinnungur í alþjóðapólitík

Bjarni segist telja að ákveðinn tvískinnungur ríki í alþjóðapólitík. Birtingarmyndin sé sú að annars vegar verði öll ríki að standa saman í því að draga saman í losun gróðurhúsalofttegunda en hins vegar ríki krafa um viðskiptafrelsi með vörur óháð kolefnisspori. Þetta segir Bjarni að kristallist að vissum hætti í áliðnaðinum. Hann segir það tímabært „að fara fram á það t.d. í Evrópusamvinnu að það verði staðinn vörður um iðnaðarvöru innan evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en ýmis sú framleiðsla sem er seld inn á svæðið“.

Engin umbun fyrir minni losun

Spurður hvort Evrópuríki eigi að beina viðskiptum inn á við segir Bjarni það skjóta skökku við að standa á alþjóðlegum ráðstefnum með þjóðum sem lýsi árangri í aðgerðum gegn losun gróðurhúsaloftegunda sem einum af mikilvægari málefnum samtímans en á sama tíma kaupi stórir bílaframleiðendur ESB óhikað vörur frá framleiðendum sem virði markmiðin að vettugi. Hann segir þar geta munað tugum prósenta í losun, en þrátt fyrir það fái framleiðendur á íslensku áli ekki eina evru umfram aðra framleiðendur fyrir sína afurð. „Það er eitthvað rangt í þessari mynd,“ segir Bjarni.

Opnun raforkusamninga við Rio Tinto

Spurður hvort kæra Rio Tinto kalli á opnun raforkusamninga segir Bjarni: „Nú verður Rio Tinto að svara sjálft fyrir það, en ég hef skilið það þannig að það strandi á þeim sjálfum að opna samninginn og gera skilmála hans alla opinbera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK