Fara yfir stöðuna þegar faraldurinn gengur yfir

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Árni Sæberg

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir ekki tímabært að ræða stöðu fyrirtækisins ef svo fari að starfsemi stórnotenda raforku hér á landi láti af starfsemi. 

Talsverðir rekstarörðugleikar hafa verið hjá stóriðjunni að undanförnu, meðal annars hjá álframleiðandanum Rio Tinto og kísilverksmiðjunni PCC á Bakka. Rio Tinto tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði kært Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins og sagði í yfirlýsingu Rio Tinto að léti Landsvirkjun „ekki af skaðlegri hátt­semi sinni“ hefði það ekki ann­an kost en að íhuga að segja upp orku­samn­ingi sín­um og virkja áætl­un um lok­un. 

Þá hefur framleiðsla PCC verið stöðvuð tímabundið og starfsfólki sagt upp. 

Hörður segir ekki tímabært að ræða stöðu Landsvirkjunar fari svo að stórnotendur neyðist til að segja upp raforkusamningum. 

„Við erum bara með langtímasamninga við þessi fyrirtæki svo þetta er ekki komið á það stig. Það eru núna tímabundin vandræði útaf kórónuveirunni sem öll framleiðslufyrirtæki í heiminum eru að kljást við. Við gerum bara ráð fyrir að þegar við sjáum fyrir endann á faraldrinum komist á meira jafnvægi á markaðnum,“ segir Hörður í samtali við mbl.is. 

Hvað varðar samkeppnishæfni framleiðslufyrirtækja í Evrópu segir Hörður að þrátt fyrir aukin umsvif Kínverja á markaði sé eftir sem áður talsverð fjárfesting í gangi hér á landi. 

„Kína hefur náttúrulega verið að auka umsvif sín á markaðinum til muna. Við sjáum það eins og að í áliðnaðinum var Kína með 10% markaðshlutdeild árið 2000 en er núna með um 60%. Það hefur verið að breyta markaðinum, það eru undirliggjandi erfiðleikar líka. En það er náttúrulega búið að fjárfesta heilmikið hérna að undanförnu, bæði hjá PCC og Rio Tinto og hjá Norðuráli líka. Þannig að ég held að flest þessi fyrirtæki hafi fyrir stuttu litið á þetta sem góðan markað,“ segir Hörður.

„Við reynum bara að bregðast við eins og við getum við þessum tímabundnu aðstæðum og líka þessum langtímamálum.“

Svo það er ekki ástæða fyrir ykkur hjá Landsvirkjun að vera óróleg? 

„Ég myndi ekki segja það. Við þurfum bara að sjá hvernig markaðir taka við sér þegar faraldurinn er genginn yfir og taka stöðuna þá,“ segir Hörður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK