Norðmenn mala gull á olíu og gasi

Olíuborpallur í Norður-Atlantshafi.
Olíuborpallur í Norður-Atlantshafi. Ljósmynd/Øyvind Hagen

Útflutningstekjur Norðmanna eru í methæðum um þessar mundir. Í ágúst voru slegin met í útflutningstekjum og september verður enn betri, að sögn Gunnars Torgersen, sjóðsstjóra norska Holberg-sjóðsins, sem er nú um 400 milljarða íslenskra króna virði.

Ástæða þessa óvenjulega góða gengis Norðmanna er fyrst og fremst hátt verð á jarðgasi, sem er svo hátt að það selst á tvöföldu verði á við hráolíu, að því er segir í frétt norska ríkissjónvarpsins (NRK) um málið.

Jarðgaseldsneyti er um helmingur allrar eldsneytisframleiðslu í Noregi og hráolíuframleiðsla hinn helmingurinn.

Tölur sem hafa ekki sést áður

Eldsneytisverð á heimsvísu er ansi hátt í dag og stendur heimsmarkaðsverð á hráolíu í um 80 dollurum á tunnu, eitthvað sem ekki hefur sést í ein þrjú ár. Þetta er sagt vera vegna aukinnar eftirspurnar nú þegar heimsfaraldrinum slotar og vegna fellibylsins Ídu, sem setti strik í eldsneytisframleiðslu Bandaríkjamanna fyrr á árinu.

Á sama tíma selst tunnan af jarðgasi á um 150 dollara og er talið að heimsmarkaðsverðið muni hækka enn frekar í dag.

Í ágústmánuði nam heildarvirði útflutnings Norðmanna um 70 milljörðum norskra króna, eða um 1.036 milljörðum íslenskra króna.

„Við erum hér að tala um stórar tölur. Í september er útlit fyrir að talan verði í kringum 80 milljarða króna [1.184 milljarðar íslenskra króna]. Þetta eru tölur sem við höfum bara ekki séð áður,“ segir fyrrnefndur Torgersen við NRK.

Um 80% af öllum olíutekjum norskra olíufyrirtækja í einkaeigu renna til norska olíusjóðsins, sem er í eigu hins opinbera. Allar tekjur ríkisfyrirtækisins Petoro renna beinustu leið í norska olíusjóðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK