Sjóvá svarar gagnrýni FÍB

Í yfirlýsingu frjá Sjóvá segir að undanfarna daga og vikur …
Í yfirlýsingu frjá Sjóvá segir að undanfarna daga og vikur hafa borið á endurteknum og villandi fullyrðingum um rekstur vátryggingafélaga. mbl.is

Stjórn Sjóvár sendi í dag frá sér yfirlýsingu í kjölfar yfirlýsingar frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, vegna áforma Sjóvár um að greiða hluthöfum 2,5 milljarða króna í tengslum við hlutafjárhækkun félagsins.

Í yfirlýsingu frjá Sjóvá segir að undanfarna daga og vikur hafa borið á endurteknum og villandi fullyrðingum um rekstur vátryggingafélaga, meðferð iðgjalda ökutækjatrygginga og meðferð eigin fjár tryggingafélaga þeirra.

„Rekstur vátryggingafélaga kallar á langtímahugsun. Þeim er ætlað að bæta tjón vátryggingarhafa og til að geta staðið við skuldbindingar sínar verða félögin að hafa fjárhagslega burði til þess. Tryggingafélög reyna að gæta þess að iðgjöld standi undir því tjóni sem verður á venjulegu ári. Stundum tekst það og stundum ekki, en markmiðið er að yfir lengri tíma litið sé jafnvægi þarna á milli,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá er tekið fram að iðgjöld hafi vissulega hækkað en að sömuleiðis hafi greiðslur vegna tjóna gert það.

„Síðustu 18 mánuði hefur Sjóvá greitt rúma 20 milljarða vegna tjóna viðskiptavina sinna. Það er því rangt að iðgjöld séu, eða hafi verið oftekin. Það er mjög villandi að horfa eingöngu á afkomu tryggingafélaganna árið 2020, þegar tjón voru í sögulegu lágmarki vegna Covid-19 faraldursins.“

Segjast lengi hafa endurgreitt iðgjöld þeirra sem ekki lenda í tjóni

Sjóvá segist hafa lengi verðlaunað þá tryggingataka sem ekki lenda í tjóni með endurgreiðslu iðgjalda og á síðustu átján mánuðum hefur Sjóvá endurgreitt sínum viðskiptavinum 2,1 milljarða í gegnum stofnendurgreiðslu og með niðurfellingu iðgjalda í maí 2020, þegar fyrirséð að tjónum á ökutækjum myndi fækka verulega vegna samdráttar í umferð.

„Hvað varðar tillögu stjórnar Sjóvár um hlutafjárlækkun er það að segja að ástæða hlutafjárlækkunarinnar er meðal annars sú að ekki var greiddur út arður til hluthafa á árinu 2020 í ljósi tilmæla eftirlitsaðila á þeim tíma. Þeir fjármunir sem lagt er til að ráðstafa til hluthafa nú eru hluti af eigin fé félagsins – þ.e. eignir sem eru umfram skuldbindingar félagsins, þar með talin tjónaskuld sem ætlað er að greiða tjónakostnað viðskiptavina félagsins og hefur ráðstöfunin engin áhrif á getu félagsins til að standast þær skuldbindingar.“

„Ólíkt því sem haldið hefur verið fram er það skylda tryggingafélaga að búa yfir umframfjármagni til að hafa bolmagn til að standast lögbundnar kröfur um getu til að mæta áföllum í rekstri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK