„Það er rétt að benda á að ástandið á leigubílamarkaðnum er ekki gott. Það hefur skapast ákveðið neyðarástand á álagstímum,“ segir Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs.
Innviðaráðherra hefur lagt fram breytt frumvarp um akstur leigubifreiða þar sem fyrra frumvarp fór ekki í gegn á vorþingi.
Lagt er til að þjónustan verði sveigjanlegri en að sama skapi þurfa þeir sem vilja keyra leigubíl að uppfylla skilyrði sem geta verið kostnaðarsöm og tímafrek, að mati Viðskiptaráðs.
„Þetta er á meðal þeirra atriða sem OECD benti á í ítarlegri samkeppnisúttekt um leigubílamarkaðinn. Það má taka undir með OECD og ítreka að það sé ekki æskilegt sem skilyrði fyrir atvinnuleyfi að tilvonandi bílstjórar þurfi áfram að standast próf í hreinlæti, framkomu og góðri sjálfsmynd,“ segir Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs. OECD lagði þess í stað áherslu á öryggi og hæfni við akstur.
Gildandi fyrirkomulag útilokar erlenda ríkisborgara frá leigubílaakstri að mati umhverfis- og samgöngunefndar, þar sem námskeið eru eingöngu í boði á íslensku.
„Við tökum undir þessa ábendingu en það færi betur á því að koma þessu atriði að í lögunum. Að þessu sögðu skiptir máli að áfram verði hægt að fá þjónustu íslenskumælandi bílstjóra, þótt það þurfi ekki að vera skilyrði í öllum tilfellum,“ segir Jóhannes.
„Hvað varðar áformaðar breytingar á málinu frá því í vor þá eru nokkrar þeirra mikilvægar,“ segir Jóhannes. Þýðingarmestu breytingarnar varða fjölda leyfa, brotthvarf frá takmörkunum á rekstrarformi og öðrum íþyngjandi skilyrðum.
Lagt er til að rekstrarleyfishafi megi reka fleiri en eina bifreið og að sama skapi er lagt til að lögaðilar geti fengið útgefin rekstrarleyfi, auk þess sem leyfishafar þurfa ekki lengur að hafa leigubílaakstur að aðalatvinnu.
Bílstjórar geti með þessu aðlagað störf sín að breyttum aðstæðum en á sama tíma þurfi þeir sem ætla inn á markaðinn að geta dekkað fastan kostnað – tryggingafélögin þurfi því mögulega að endurskoða þjónustu sína við leigubílstjóra en há iðgjöld megi ekki hindra aðgang á markaðinn.
Viðskiptaráð hyggst skila umsögn um frumvarpið sem birtist á Samráðsgátt í síðustu viku.
Einungis ein umsögn hefur borist og er hún frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Þar eru gerðar athugasemdir við kröfur um gott orðspor leigubílstjóra. Að mati sviðsins væri rétt að skoða hvort gera ætti strangari kröfur um að fylgja umferðarlögum fyrir atvinnubílstjóra en aðra, að lágmarki þegar kemur að ítrekuðum brotum.
Í 5. og 6. gr. er fjallað um gott orðspor, en það felur í sér að viðkomandi fái ekki rekstrar- eða atvinnuleyfi ef viðkomandi hafi m.a. gerst sekur um refsiverða háttsemi. Heimilt er hins vegar að veita leyfi ef brot hefur verið smávægilegt eða meira en 5 ár hafi liðið frá uppkvaðningu dóms.