Kröfu hafnað en starfsleyfi skorið niður

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu fjögurra eigenda Óttarsstaða í Hafnarfirði um ógildingu starfsleyfis Umhverfisstofnunar til Rio Tinto á Íslandi hf. að öðru leyti en því að felldur er úr gildi sá hluti starfsleyfisins sem snýr að framleiðsluheimildum umfram 212 þúsund tonn af áli á ári.

Í grein 1.2 í starfsleyfi álversins komi 212 þúsund tonn af áli í stað í stað orðanna 460 þúsund tonn af áli. Starfsleyfið hefur þar með verið skorið niður um 54%. 

Skipulagsstofnun veitti árið 2002 heimild til stækkunar álversins í tveimur áföngum til að hægt væri að framleiða þar um 460 þúsund tonnn af áli á ári. Starfsleyfi þess efnis fékkst árið 2005 sem gildi til 1. nóvember 2020. Gildistími þess var framlengdur um eitt ár, að því er kemur fram í úrskurðinum.

Önnur viðmið eigi við 

30. nóvember í fyrra kærðu eigendurnir ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. október sama ár, um að veita Rio Tinto á Íslandi starfsleyfi sem gildir til ársins 2037 til framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum af áli í álveri ISAL í Straumsvík.

Fram kemur að kærendur telji útgáfu starfsleyfisins ólöglega þar sem ekki liggi fyrir gilt og/eða fullnægjandi umhverfismat fyrir framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum á áli á ári. Nú eigi við allt önnur viðmið, lög og reglugerðir um umhverfismál og mengun en þegar mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins um tvo nýja kerskála var framkvæmt árið 2002.

„Fallið hefði verið frá þeim hugmyndum sem lýst var í því mati sem byggði m.a. á forsendum um að losun mengandi efna mætti vera yfir viðmiðunarmörkum innan þynningarsvæðis í landi sem ekki sé í eigu álversins. Á jörð kærenda hafi m.a. í skipulagsgögnum frá Hafnarfjarðarbæ verið mörkuð tvö svæði þessu tengt, annars vegar svæði takmarkaðrar ábyrgðar og hins vegar þynningarsvæði. Forsendur fyrir þessum viðmiðum, sem hafi verið ákveðnar einhliða af ríkisvaldinu, hafi breyst með breytingum á lögum,“ segir í úrskurðinum.

Álag á umhverfið vaktað

Umhverfisstofnun benti á að í starfsleyfinu sé kveðið á um að álag á umhverfið sé vaktað innan fyrrum þynningarsvæðis. Loftgæði eigi hvað varði brennisteinsdíoxíð og svifryk að uppfylla ákvæði laga og reglna og vera innan umhverfismarka. Hvað snerti staðsetningu mælistöðva til mælinga á umhverfismörkum, þá sé háð mati stjórnvaldsins hvernig þeim verði best fyrir komið þannig að þær geti tryggt bestu mælingar.

Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Álver Rio Tinto í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innihald starfsleyfis ásættanlegt

Nefndin segir í úrskurði sínum að með vísan til umfjöllunar um skilyrði starfsleyfisins og þrátt fyrir það hve langt sé frá gerð mæliáætlunar verði að telja að efnislegt innihald hins kærða starfsleyfis sé ásættanlegt, þ. á m. varðandi mengunarvarnir og vöktun.

„Verður að álíta á þeim grundvelli og að öðru leyti með vísan til sjónarmiða sem Umhverfisstofnun hefur fært fram fyrir nefndinni, að stofnunin hafi lagt nægilegan grundvöll að hinu útgefna starfsleyfi hvað snerti óbreytta starfsemi álversins. Stofnunin hafi með viðeigandi hætti sett þau viðmið sem fyrirfinnast í gildandi lögum og reglugerðum, tekið tillit til aðstæðna og reynt að tryggja gagnsæi líkt og kostur var að teknu tilliti til þess að starfsleyfið tekur til margra mismunandi og sérhæfðra þátta, s.s. áskilið er í lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 550/2018.

Verulegir annmarkar

Í séráliti Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors, sem situr í nefndinni, segist hún telja ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita starfsleyfið halda verulegum annmörkum sem leiða eigi til ógildingar.

„Um er að ræða umfangsmikla mengandi starfsemi í nágrenni þéttbýlis sem hefur staðið í meira en hálfa öld og mun að öllu óbreyttu halda áfram. Einnig ber að hafa í huga að þótt ekki hafi orðið af þeirri framleiðsluaukningu sem stefnt var að árið 2002 er starfræksla álvera áfram sem hingað til starfsemi sem hefur í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Framangreind afstaða Skipulagsstofnunar leiðir til þess að rekstur álversins getur á grundvelli úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum frá 2002 haldið áfram endalaust, þ.e.a.s. ef framleiðslan er innan þeirra 460 þúsund tonna á ári sem þá voru viðfangsefni matsins. Afleiðingar framangreinds eru m.a. þær að sniðgenginn er tilgangur mats á umhverfisáhrifum og meginreglan um að slíkt mat fari fram áður en leyfi er veitt,“ segir meðal annars í áliti hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK