Strand bátsins Jónínu Brynju við Straumnes 25. nóvember 2012 fékk Hörð Þór Benediktsson til að velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að búa til tæki sem myndi koma í veg fyrir að glænýir bátar fullhlaðnir nýjustu siglingatækjum myndu sigla í strand, en fjöldi báta strandar á ári hverju vegna þess að skipstjórnandi sofnar við stýrið eða er annars hugar.
Hófst Hörður handa og gat hann í byrjun þessa árs, ásamt syni sínum Þórarni Heiðari Harðarsyni og tengdasyninum Níelsi Adolf Guðmundssyni, hafið sölu á Strandvara og hafa fleiri bátar þegar tekið Strandvara í notkun.
Tækið er stöðugt á vakt og þekkir alla strandlengju landsins niður í smæstu smáatriði og varar skipstjórnarmenn við þegar hætta steðjar að.
Lesa má nánar um Strandvara í blaði 200 mílna sem fylgir Morgunblaðinu í dag.