Haraldur Þorleifsson er hættur hjá Twitter. Þetta kom fram í viðtali við hann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Þar er rætt við hann um veitingastaðinn Önnu Jónu sem hann opnaði á dögunum.
Haraldur starfaði sem stjórnandi hjá Twitter eftir að samfélagsmiðlarisinn keypti fyrirtæki hans Ueno árið 2021.
Eins og kunnugt er áttu Haraldur og Elon Musk, forstjóri og eigandi Twitter, hvöss orðaskipti á miðlinum í mars, skömmu eftir að búið var að loka vinnuaðgangi Haralds hjá fyrirtækinu.
Fjölda fólks hafði verið sagt upp hjá Twitter vikunum áður eftir yfirtöku Musk, og taldi Haraldur líklegt að röðin væri komin að honum. Að hans sögn hafði þó ekkert uppsagnarbréf borist og greip Haraldur því til þess ráðs að spyrja forstjórann á Twitter hvort það gæti staðist.
Musk svaraði Haraldi kaldranalega og vildi meðal annars fá að vita hvaða hlutverki hann sinnti hjá fyrirtækinu. Við tóku orðaskipti milli þeirra félaga þar sem fast var skotið. Í einu tístinu gengur Musk svo langt að halda því fram að Haraldur nota vöðvarýrnunarsjúkdóminn sem hann er með, sem afsökun fyrir því að vinna ekki.
Hann virðist þó hafa séð að sér og baðst skömmu síðar afsökunar. Ræddu þeir saman í kjölfarið í gegnum fjarfundabúnað. Seinna tísti Musk að Haraldur væri að íhuga að vera áfram hjá fyrirtækinu.
Skömmu eftir þessa atburðarás var Haraldur til viðtals í Silfrinu þar sem hann sagði það óljóst hvort hann væri enn starfsmaður fyrirtækisins.
„Það er óljóst. Ég bara veit það ekki. Ég veit ekki alveg hvernig þetta endar,“ sagði hann.