Markaðurinn brást illa við óbreyttum stýrivöxtum

Markaðirnir fóru í rússibanareið í dag.
Markaðirnir fóru í rússibanareið í dag. AFP

Hlutabréfamarkaðirnir á Wall Street fóru í nokkra rússibanareið í dag, þar sem ákvörðun bandaríska seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum virtist fara öfugt ofan í fjárfesta. 

Dow Jones-vísitalan endaði í 37.903,29, og hækkaði um 87 punkta eða 0,2% milli daga, en vísitalan stóð í um 38.300 punktum þegar greint var frá ákvörðun seðlabankans. Lækkaði hún skarpt í kjölfarið, en endaði þó ekki neðar en við upphaf viðskipta. 

NASDAQ-vísitalan endaði í 15.605,48 punktum og lækkaði um −52,34 punkta milli daga, eða um 0.33% í viðskiptum dagsins. Þá lækkaði vísitala S&P-500 um 0,34% á milli daga og endaði í 5.018,39 punktum. 

Illa gengið að halda verðbólgu niðri

Þetta var í sjötta sinn í röð sem yfirstjórn bandaríska seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum í 5,25-5,5% en þetta eru hæstu vextir sem bankinn hefur haldið úti frá árinu 2001.

Vonir stóðu til að bankinn myndi lækka vextina að þessu sinni, en hann stefnir að því að lækka þá minnst þrisvar sinnum á þessu ári. Illa hefur hins vegar gengið að halda niður verðbólgu vestanhafs.

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði hins vegar að bankinn myndi líklega ekki þurfa að hækka stýrivextina á ný, og ýtti sú yfirlýsing undir nokkurn kipp á mörkuðunum sem gekk svo fljótt til baka. 

Art B. Hogan, sérfræðingur hjá B. Riley Financial, sagði við AFP-fréttastofuna að markaðir færu oft upp og niður strax eftir að seðlabankinn kynnti vaxtaákvarðanir sínar. „Við lok dags erum við aftur þar sem við vorum áður en hann hélt vaxtafund sinn,“ sagði Riley og sagðist eiga von á því að það þýddi að stýrivextirnir yrðu áfram háir á næstu misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK