„Þegar Píratar komu fyrst fram á sjónarsviðið var hlegið að hugmyndum okkar um gagnsæi, skaðaminnkun, beint lýðræði og afglæpavæðingu þar sem þær þóttu allar með tölu fráleitar og fáránlegar en nú þykja þetta sjálfsögð stefnumál,“ skrifaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir í síðasta pistli sínum fyrir kosningar. Þetta endurtók hún þegar kosningaúrslitin lágu fyrir en hún sagði að Píratar hefðu borið þessi hugtök; gagnsæi, skaðaminnkun, beint lýðræði og afglæpavæðingu inn í íslenska stjórnmálaumræðu. Það sé arfleifðin, ef svo má segja, nú þegar flokkurinn er dottinn út af þingi. Nú má deila um hvort þessi hugtök hafi verið með öllu ókunnug í íslenskri stjórnmálaumræðu en vissulega voru Píratar um margt óvenjuleg pólitísk hreyfing. Það er ekki víst að aðrir stjórnmálaflokkar gráti fall Pírata.
Áherslur og vinnubrögð þeirra voru ekki til þess fallin að afla vinsælda hjá öðrum stjórnmálamönnum. Þingmenn flokksins voru svolítið eins og klöguskjóðan á skólalóðinni, tilbúnir að hlaupa til skólastjórans ef svo bar undir. Svo virðist sem að þegar Píratar horfðu á samferðamenn sína í þingsalnum virtust þeir líta svo á að þeir væru allir sekir um spillingu og sérgæsku. Hlutverk Pírata væri að afhjúpa það. Um leið voru þeir alveg tilbúnir að kasta venjum Alþingis fyrir róða, gengu um á sokkaleistunum og héldu uppi málþófi eða kepptust um að vera ræðukóngar Alþingis.
En það hafði afleiðingar að sætta sig ekki við hefðir og viðmið sem ætlað er að styðja við eðlileg samskipti á stað sem alla jafna byggist á átökum. Alþingi Íslendinga er eins og önnur þing pólitískur átakastaður og hefðir og venjur eru í raun til að skapa vinnufrið í umhverfi sem eðli málsins samkvæmt sækir annað. Að endingu ýttu Píratar fremur undir einhverskonar átakastjórnmál sem byggjast á sleggjudómum og stundum hálfgerðum dónaskap. Það sást glöggt þegar þeir stilltu sér upp við ræðustól Alþingis með áróðurshatta sína eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Fáheyrð framkoma.
Pólitískt nef Birgittu
Píratar buðu fyrst fram til Alþingis í kosningunum 2013, þá undir forystu Birgittu Jónsdóttur sem hafði sagt skilið við Borgarahreyfinguna, síðar Hreyfinguna. Birgitta hafði pólitískt nef og þessi illa skilgreinda hreyfing var um líkt leyti að ryðja sér til rúms erlendis og Píratar fengu 5,1% atkvæða og þrjá menn kjörna. Lengst af hafa það verið Ísland og Þýskaland sem hafa helst sýnt áhuga fyrir pólitísku óreiðuafli eins og Pírötum.
Með Birgittu settust þeir Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson á þing. Enginn efaðist um að Birgitta var á vinstri væng stjórnmálanna en þeir Helgi Hrafn og Jón Þór rugluðu myndina, ummæli þeirra minntu á frjálshyggjumenn á köflum. „Frjálshyggjumenn eru velkomnir í Pírata, allir eru velkomnir í Pírata hvort sem þeir kalla sig frjálshyggjumenn eða ekki, hvort sem þeir kalla sig femínista eða ekki. Það eina sem þeir þurfa að eiga sameiginlegt er að aðhyllast grunnstefnu Pírata,“ sagði Helgi Hrafn á Alþingi í upphafi árs 2016 við fyrirspurn frá Elínu Hirst, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Hann sat á þingi á árunum 2013 til 2016 og aftur frá 2017 til 2021.
Þegar Helgi hætti tók systir hans, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, við en hún fór ekki í ræðustól án þess að taka sér orðið mannréttindi í munn. Hún ákvað að bjóða sig ekki fram til þings nú en á kjörtímabilinu komst hún í fréttirnar vegna atviks á skemmtistaðnum Kíkí, atvik sem Píratar sjálfir hefðu vel getað hugsað sér að gera sér mat úr ef annar hefði átt í hlut. Hér var í pistli fjallað um það mál í pólitísku samhengi.
Froskurinn og sporðdrekinn
Þessi pólitík Pírata gekk ekki upp til lengdar, að hver og einn fengi að hafa sína skoðun, og eftir því sem leið á urðu vinstri áherslur flokksins augljósari. Grunnstefnan var enda dálítið á reiki og þegar kom að þeim möguleika að Píratar tækju þátt í stjórnarmyndunarviðræðum viðurkenndu talsmenn annarra flokka að það væri fremur til málamynda en af sannfæringu.
Áhöld voru um hvort Píratar væru yfirhöfuð stjórntækir og rifjuðu menn gjarnan upp söguna af frosknum og sporðdrekanum við slík tilefni. Hún er svona: Einu sinni var froskur sem var á leið yfir á. Áður en hann lagði af stað kom til hans sporðdreki sem bað froskinn um að ferja sig yfir ána. Frosknum leist ekki vel á það enda hræddur um að sporðdrekinn myndi stinga hann á leiðinni. Sporðdrekinn sagði það af og frá, froskurinn væri honum mikilvægur og ef hann myndi stinga hann þá dræpust þeir báðir. Froskurinn tók þeim rökum og lagði af stað með sporðdrekann á bakinu. Á miðri leið yfir ánna stakk sporðdrekinn froskinn dauðastungu. Í andarslitrunum spurði froskurinn sporðdrekann af hverju hann hefði gert þetta. Sporðdrekinn svaraði: „Af því að ég er sporðdreki, að stinga er mitt eðli.“
Metvinnsældir en innanmein
Framan af nutu Píratar mikils fylgis í skoðanakönnunum. Í könnun MMR í apríl 2015 fengu þeir 32% og mældust þá stærsti flokkur landsins. Í apríl 2016 höfðu Píratar mælst stærsti flokkurinn í ár og alltaf yfir 30 prósentum. Þeir náðu metfylgi, 43% í könnun eftir umræðu um Panamaskjölin og stjórnarkreppuna sem því fylgdi. Eftir því sem meira var talað um spillingu, því meiri urðu vinsældir Pírata.
Píratar lögðu upp með einhvers konar útskiptireglu sem átti að fela í sér að enginn sæti lengur en tvö kjörtímabil á þingi. Þessi regla gat virkað traustvekjandi gagnvart þeim sem tortryggðu allt vald og hefðir en þessi stefna leiddi einnig af sér ringulreið og tók í burtu þekkingu þeirra sem fyrir voru.
Á sama tíma voru innanmein að hrjá flokkinn. Segja má að innra starf Pírata og höfnun þeirra á einhvers konar skipuriti eða stjórnun hafi reynst þeim erfið. Raunveruleikinn getur leikið anarkista grátt. Í tilkynningu sem þingflokkurinn sendi frá sér í byrjun árs 2016 sagði að álag á fáa kjörna fulltrúa Pírata hafi margfaldast á sama tíma og fylgi þeirra hafi aukist ört. Því hafi verið gripið til þess ráðs að fá aðstoð vinnustaðasálfræðings til að vinna úr samstarfsörðugleikum þingmanna Pírata. Auðvitað er rétt að leita aðstoðar þegar á bjátar en pólitískum andstæðingum fannst eins og vænisýkin hitti þá fyrir sjálfa.
Þetta ástand hélt hins vegar áfram að grassera innan flokksins. Meðvirkni með eineltishrottum og aðför gegn fólki innan flokksins er meðal þess sem hefur átt sér stað innan flokksstarfs Pírata, sagði í frétt Morgunblaðsins árið 2018 og voru þau Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, og Atli Þór Fanndal, blaðamaður og fyrrverandi pólitískur ráðgjafi Pírata, borin fyrir þessa óvenjulegu lýsingu. Atli Þór átti eftir að verða í miðju átaka innan Pírataflokksins síðar. „Og það er löngum illa þokkað í þessum afbrýðissama heimi að segja þann sannleika um sjálfan sig, sem er manni til sóma,“ skrifaði meistari Þórbergur í Bréfi til Láru. Sannleikurinn um Pírata var þeim erfiður og núna þegar þessi útgáfa af endalokunum blasir við áréttar Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, að niðurstaða þingkosninganna, þar sem sex manna þingflokkur Pírata féll af þingi, endurspegli laskað innra starf flokksins.
Einhvern tímann stjórntækir?
En hafi menn haft efasemdir um hvort að Píratar væru stjórntækir þá verður að hafa í huga að þeir fengu fulltrúa í Reykjavík sem gekk inn í meirihluta Dags B. Eggertssonar sem varð að endurnýja eftir allar kosningar. Einnig áttu þeir fulltrúa í bæjarstjórnum Árborgar og Kópavogs.
Í Reykjavík birtist átakasækni Pírata, svo mjög að þeir þreyttu meira að segja sjálfa sig. Þannig fannst sumum að Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarstjórnarfulltrúi Pírata, hefði náð nýjum lægðum í umræðu um fjármál borgarinnar í maí 2021 þar sem hún eyddi nánast öllum ræðutíma sínum í að hella úr skálum reiði sinnar yfir Sjálfstæðisflokkinn sem hún sagði óábyrgan og skaðlegan, þröngsýnan og gamaldags. Svo bætti hún um betur og fullyrti: „Sjálfstæðisflokkurinn er í raun kýli á samfélaginu. Hann er hreint og beint hættulegur samfélaginu.“ Allt ætlaði um koll að keyra við ræðu borgarfulltrúa Pírata.
Meira síðar!