Voru búnar að plana ferðina í tvö ár

Bergdís og Hildur við Viktoríufossa í Simbabve.
Bergdís og Hildur við Viktoríufossa í Simbabve. Ljósmynd/Aðsend

Bergdís Gunnarsdóttir er nýkomin heim úr heimsreisu með vinkonu sinni Hildi Ósk Ólafsdottur. Heimsreisan tók óvæntan enda og náðu þær Bergdís og Hildur aðeins að ferðast í sex vikur af fimm mánuðum. Stelpurnar voru búnar að plana ferðina í tvö ár og safna fyrir ferðinni í átta mánuði. Töluvert af peningunum eru nú farnir út um gluggann en vinkonurnar þó öruggar heima á Íslandi í sóttkví. 

„Við ætluðum til Afríku, Asíu og Ástralíu. Við ætluðum að ferðast í fimm mánuði en náðum bara sex vikum. Fengum að fara til Afríku í einn mánuð og áttum svo að fara til Kína en út af augljósum aðstæðum hættum við við og fórum til Filippseyja í staðinn,“ segir Bergdís. 

„Við vorum búnar að safna í átta mánuði en við byrjuðum að plana ferðina fyrir rúmum tveimur árum siðan þannig við vorum búnar að hlakka mjög mikið til. Við fórum í gegnum Kilroy þannig að við fáum líklegast eitthvað endurgreitt en mikið af peningnum fór út um gluggann.“

Vinkonurnar voru búnar að safna lengi fyrir ferðinni. Hér eru …
Vinkonurnar voru búnar að safna lengi fyrir ferðinni. Hér eru þær í eyðimörkinni í Namibíu. Ljósmynd/Aðsend

„Þann 12.mars heyrðum við að það ætti að loka Manila þann 15. mars og borgin myndi vera lokuð í mánuð þannig við ætluðum bara að halda áfram að ferðast innan Filippseyja og fljúga út úr Cebu en daginn eftir heyrðum við að það ætti að loka öllu landinu  þann 15.mars og líka ferðalögum á milli eyjanna og þá fórum við að reyna að koma okkur heim,“ segir Bergdís og segir að stressið hafi byrjað að gera vart við sig þegar að þær fréttu að loka ætti Filippseyjum. Þangað til þá náðu þær að njóta ferðarinnar. 

Hvernig gekk að komast heim?

„Það var mjög erfitt að komast heim því það voru engar áreiðanlegar heimildir um hvenær allt ætti að loka endanlega og öll flug voru annað hvort að seljast upp eða verið að hætta við þau. Við vorum á mjög lítilli eyju sem heitir Coron og flugvöllurinn þar var nú þegar búinn að loka þannig við þurftum að taka fjögurra klukkutíma ferju yfir á stærri eyju sem heitir Palawan í borg sem heitir El Nido og þaðan þurftum við svo að taka bíl í sex klukkutíma í borg sem heitir Puerto Princesa en við náðum að fá flug þaðan 19.mars.

Það var hins vegar hætt við það flug þannig við fórum upp á flugvöll að reyna að finna flug en þeir vildu ekki hleypa okkur inn án þess að við værum með flugmiða fyrir 16.mars þannig við vorum mjög ráðlausar. Sem betur fer höfðum við komist í samband við ræðismann Íslendinga í Filippseyjum og hún hjálpaði okkur með því að gefa okkur upplýsingar varðandi ástandið. Við vorum þannig séð búnar að sætta okkur við að við myndum festast þegar við hittum strák í verslunarmiðstöð sem hafði séð okkur uppi á flugvellinum og hann sagði okkur að það væri flug að fara til Clark daginn eftir og benti okkur á að kíkja á það.

Við náðum þá að panta miða og komumst þá af Palawan yfir til Clark 16.mars. Þegar við komum þangað þurftum við að finna flug til Íslands en það fyrsta sem við fundum var 19. mars þannig við þurftum að bíða í þrjá daga í Clark.

Sólsetur í Filippseyjum
Sólsetur í Filippseyjum Ljósmynd/Aðsend

Í fyrstu var það allt í lagi en svo fór allt að loka og ekkert opið nema matvöruverslun þannig við gátum ekki borðað neinn almennilegan mat. Þegar við áttum svo loksins að fara heim 19. mars var búið að loka öllu líka leigubílum þannig að við áttum erfitt með að komast upp á flugvöll. Sem betur fer fundum við einhvern mann sem var til í að keyra okkur. Þegar við komust svo upp á flugvöll þurftum við að bíða í 10 klukkutíma eftir fluginu okkar en við þorðum ekki annað en að vera mættar tímanlega miðað við hvað það var búið að hætta við mikið af flugum og við höfðum heyrt að það ætti ekki að fljúga neitt meira út úr Filippseyjum eftir þennan dag.

Það tók okkur 44 klukkutíma að fljúga heim en fyrst flugum við í tíu tíma til Doha þar sem við þurftum að bíða í sex klukkutíma þaðan flugum við svo til Ósló í sjö tíma og þar tók við okkur herfylgd en við þurftum að bíða í Ósló í 16 tíma og vorum settar á sérstakt sottkvishótel ásamt því að fá herfylgd í gegnum allan flugvöllinn. Frá Ósló flugum við svo til Köben í einn tíma og þurftum að bíða þar í klukkutíma og flugum svo til Íslands sem tók þrjá tima.“ 

Stelpurnar fengu herfylgd í Ósló.
Stelpurnar fengu herfylgd í Ósló. Ljósmynd/Aðsend

Bergdís segist hafa það fínt í sóttkví. Henni leiðist aðeins en segist drepa tímann með því að púsla og spila á hljóðfæri. Hún er ekki með vinnu þar sem hún gerði ráð fyrir að vera erlendis fram á sumar. Hún þarf því að leita sér að vinnu núna en segir að það gæti reynst erfitt. 

Stelpurnar eru ekki að baki dottnar og stefna aftur til Asíu. Fyrst þurfa þær þó að safna peningum. „Við fengum ekki að upplifa og sjá það sem við vildum þannig ætlum að reyna aftur eftir ár,“ segir Bergdís. 

Flugvöllurinn í Kaupmannahöfn var næstum því tómur.
Flugvöllurinn í Kaupmannahöfn var næstum því tómur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert