Var spenntari fyrir barni en maka

Valgerður Tryggvadóttir með soninn Atla Fannar.
Valgerður Tryggvadóttir með soninn Atla Fannar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgerður Tryggvadóttir eignaðist soninn Atla Fannar Valgerðarson í byrjun árs. Fyrir nokkrum árum áttaði Valgerður sig á því að hún væri spenntari fyrir því að eignast barn heldur en að bíða eftir því að draumaprinsinn bankaði upp á. Það var ekki einfalt að eignast soninn en í dag gæti hún ekki verið ánægðari með lífið. 

Ég bjó erlendis og flutti heim þegar ég var 27 ára. Þá var ég búin að njóta lífsins og mennta mig og fannst ég tilbúin til að hitta mann og stofna fjölskyldu. Árin liðu og draumaprinsinn kom ekki en ég fann að ég var tilbúin í barneignir, segir Valgerður sem verður 35 ára á árinu.

„Eftir þrítugt fann ég að mig langaði ekki að bíða með drauminn um barneignir og láta makaleysið stoppa mig. Ef ég kynntist einhverjum fór ég strax að máta hvort hann yrði góður pabbi, sem er frekar brenglað. Þá hugsaði ég að líklegast væri ég spenntari fyrir barneignum en að finna mér maka. Að eignast barn ein var möguleiki. Eftir því sem maður eldist eru meiri líkur á því að maður kynnist einhverjum sem á börn og vill mögulega ekki eiga fleiri. Þá langaði mig ekki að vera í þeirri stöðu að geta ekki átt börn af því mig virkilega langaði í þau. Núna kem ég að borðinu með mín börn og hinn einstaklingurinn með sín börn.“

Valgerður fór í sitt fyrsta viðtal hjá Livio í lok árs 2019, þá 32 ára. Við skoðun hjá Livio kom í ljós að hún væri með nóg af eggjum og allt ætti að vera í lagi til barneigna. Eitt af fyrstu skrefum Valgerðar var að tala við nánustu fjölskyldu. „Ég ræddi þetta við fjölskylduna mína og þeim fannst frábært að ég skyldi vera að hugsa um þetta. Ég fékk mikinn stuðning heima fyrir. Við það fóru hjólin að snúast og ég varð enn ákveðnari að fara þessa leið,“ segir Valgerður en bætir við að það hafi tekið hana langan tíma að eignast son sinn.

Tók margar tilraunir

„Ég fór í það sem er kallað tæknisæðing. Það var mælt með þeirri aðferð fyrir mig af því ég var undir 35 ára og ekkert sem benti til þess að það ætti ekki að ganga upp. Í rauninni gekk þetta ágætlega fyrir sig en það má segja að allt árið 2020 með kórónuveirunni og öllu hafi farið í þetta. Ég náði að verða ófrísk einu sinni um sumarið en missti fóstrið eftir sjö vikur. Það var auðvitað sárt þar sem ég var byrjuð að vera spennt en að sama skapi var ég stutt gengin. Ég fann meira fyrir missinum þegar ég varð aftur ófrísk,“ segir Valgerður sem fann fyrir kvíða þegar hún gekk með son sinn.

„Ég varð ofsalega kvíðin um að missa aftur og fannst fyrra skiptið hafa verið mér að kenna svo ég pakkaði mér inn í bómull og hreinlega þorði ekki að gera neitt. Ég stundaði litla sem enga hreyfingu og sagði engum nema allra nánasta fólki frá meðgöngunni fyrr en á 16. viku. Mér leið betur þegar ég náði áföngum eins og að ganga lengra heldur en síðast, ná 12 vikum og í sónar og svo framvegis. Smám saman lét kvíðinn undan síga og spennan tók við. Sérstaklega þegar ég fór að finna hreyfingar þá fór þetta að verða raunverulegt og ég gat andað léttar,“ segir Valgerður um áhrif þess að missa fóstrið.

Atli Fannar er æðislegur sonur.
Atli Fannar er æðislegur sonur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgerður segir að árið 2020 hafa einkennst af vonbrigðum og fjárhagsáhyggjum. „Ég er ein og var svo sem ekki búin að safna sérstaklega fyrir þessu en átti smá sparifé. Í hvert skipti sem tæknisæðingin heppnaðist ekki fann ég fyrir meiri vonbrigðum og meiri fjárhagsáhyggjum. Það er leiðinlega hliðin á þessu öllu saman. Ef þú ert mjög heppin og þetta tekst í fyrsta skipti þá þarf þetta ekki að kosta voða mikið en maður veit það ekki fyrir fram. Það eru ekki margir styrkir tengdir tæknifrjóvgun. Eftir þessa reynslu finnst mér skrítið að tæknifrjóvgun sé ekki styrkt meira af ríkinu og þá er ég meira að tala fyrir hönd fólks sem á í vandræðum með að eiga börn. Núna get ég sett mig í þeirra spor að einhverju leyti hvað kostnaðinn varðar, segir Valgerður en sonur hennar varð til í sjöttu tilraun.

Það kom ekki í ljós af hverju Valgerður missti fóstur og gekk illa að verða ófrísk í tæknisæðingu. Hún fékk þau skilaboð frá Livio að það jákvæða við missinn væri að hún gæti orðið ófrísk. Að lokum var ákveðið að prófa glasafrjóvgun í mars 2021 og þá varð draumurinn að veruleika. „Það gekk allt rosalega vel en það er meira inngrip og lengra ferli. Það reynir á þolinmæðina þegar maður er búin að vera í þessu svona lengi.“

Opin fyrir stærri fjölskyldu

Valgerður segist aldrei hafa verið við það að gefast upp. „Ég hélt alltaf í vonina því mig langaði þetta svo rosalega mikið, en vissulega var ég orðin svolítið þreytt. Eftir fimm tæknisæðingar ákvað ég að breyta um meðferð og prófa glasafrjóvgun. Þá kom smá pása því það þarf að panta tíma í glasafrjóvgun og oft er nokkra mánaða bið en það má ekki prófa tæknisæðingu á meðan. Það liðu fjórir, fimm mánuðir þarna á milli. Ég var ótrúlega jákvæð í gegnum allt ferlið þótt þetta hafi reynt á þolinmæðina en ég hugsaði alltaf að nú hlyti þetta að fara að koma,“ segir Valgerður.

Eggheimtan gekk mjög vel og á Valgerður börn í frysti eins og hún kallar fósturvísana sína. Hún segist sjá fyrir sér að gefa syni sínum systkini í framtíðinni. „Ég sé alveg fyrir mér að gera það. Ef ég verð ein þá geri ég það ein en ef ég hitti einhvern þá breytast þær forsendur. Möguleikinn er fyrir hendi. Það er alveg klárlega eitthvað sem mig langar til að gera eftir einhver ár, ekki alveg strax.“

Valgerður segir að meðgangan hafi gengið mjög vel fyrir utan kvíðann í upphafi. „Mér leið vel og ég fékk nánast enga meðgöngukvilla, smá brjóstsviða undir lokin. Ég var hjá kírópraktor sem sá til þess að líkaminn væri í jafnvægi og mér liði vel. Hins vegar lenti ég í síðbúinni oförvun eftir frjósemismeðferðina. Það er fylgst vel með örvun eggja í meðferðinni, að þau verði ekki of stór eða of mörg og allt var í lagi svo ég fór í eggheimtu og síðar uppsetningu sem leiddi til þungunar. Þegar ég var komin um fjórar vikur á leið þá fór mig að verkja og hélt þá að ég væri að missa aftur en þá varð ég fyrir oförvun í öðrum eggjastokknum eftir á sem er víst óalgengt. Ef ég man rétt þá lýsti þetta sér þannig að það var vatn í leginu og stór eggbú í öðrum eggjastokknum. Þetta var mjög óþægilegt en því miður ekkert hægt að gera annað en að taka því rólega í nokkra daga og bíða eftir að þetta jafnaði sig. Ég var í mjög góðu eftirliti hjá Livio á meðan þetta gekk yfir. Þetta hafði sem betur fer ekki áhrif á þungunina. Gerist þetta fyrir eggheimtu eða uppsetningu þá er meðferð frestað.“

Valgerður hefur fengið góða hjálp frá foreldrum sínum í öllu …
Valgerður hefur fengið góða hjálp frá foreldrum sínum í öllu ferlinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flutti aftur í foreldrahús

Hvernig gekk fæðingin?

„Fæðingin gekk eins og í sögu. Ég fékk seyðing á nýársdag og óþægindi sem jukust eftir sem leið á daginn svo ég ákvað að fara upp á spítala rétt eftir miðnætti 2. janúar. Drengurinn kom svo í heiminn um morguninn. Þetta gekk ótrúlega vel og ég fékk enga verkjastillingu nema glaðloftið. Það er nú meira draumaloftið. Ég var það ánægð með það að ég gleymdi öllu sem ég hafði hugsað mér að gera í fæðingunni en þetta gekk svo smurt að ég hefði engu viljað breyta. Starfsfólkið á LSH var líka allt svo dásamlegt.“

Móðir Valgerðar var með henni í fæðingunni. „Alveg frá því ég ákvað að eiga barn ein kom aldrei neitt annað til greina en að mamma yrði með mér í fæðingunni. Við erum góðar vinkonur og sjálf hefur hún átt þrjú börn svo hún þekkir þetta. Fyrir utan hvað hún er hress og skemmtileg og spjallar við alla þá er hún algjört hörkutól svo ég vissi að hún myndi hvetja mig áfram og láta í sér heyra ef þess þyrfti.“

Hvernig voru fyrstu vikurnar með ungbarn?

„Ég bý svo vel að eiga frábæra fjölskyldu, foreldra á besta aldri og yndislega tvo yngri bræður, svo það tók heill her á móti barninu í heiminn. Ég ákvað að flytja í foreldrahús fyrstu vikurnar til að fá aðstoð og svo ég gæti áttað mig á nýju lífi í traustu og góðu umhverfi. Þar af leiðandi var mjög auðvelt að fá einhvern til að stökkva út í búð eða fá einhvern til að sitja með drenginn svo ég kæmist út sjálf. Mér leið mjög vel eftir fæðinguna og fór fljótt á stjá. Það er auðvitað stór breyting að geta ekki gert sömu hluti og áður án þess að gera ráðstafanir. Ég var jú ein heima með drenginn á daginn eða þar til foreldrar mínir komu heim úr vinnu en fjölskyldan var dugleg að aðstoða mig. Um leið og ég gat farið út með drenginn þá fórum við í göngutúra í það sem þurfti. Ég hef ekki látið móðurhlutverkið stoppa mig. Litli kúturinn fylgir bara mömmu sinni í því sem þarf að gera og er vanur því. Ef hann fær að kúra í vagninum á hreyfingu þá er minn maður sáttur.“

Verðlaunin eru þess virði

Hvernig tilfinning er það að vera mamma?

„Besta tilfinning í heimi þó að stundum finnist mér enn hálfótrúlegt að ég sé loksins orðin mamma og að þetta litla kraftaverk sé sonur minn. Frá fyrstu hugsun um að fara í þetta ferli og til dagsins í dag eru allavega fimm ár þannig að ferlið var svo langt og svo núna er þetta raunveruleikinn. En þetta er alveg dásamlegt, skrítið hvað það er hægt að elska mikið. Atli Fannar er alveg ofsalega góður og glatt barn sem er alveg geggjað að fá að ala upp.“

Atli Fannar getur leitað uppruna sínst þegar hann verður 18 …
Atli Fannar getur leitað uppruna sínst þegar hann verður 18 ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hugsar þú eitthvað út í það þegar fram líða stundir að sonur þinn eigi aðeins eitt foreldri?

„Ég hugsa alveg stundum út í það en fjölskyldur í dag eru svo margs konar að mér finnst það ekki skipta máli. Við erum svo heppin að við eigum ótrúlega marga góða að, bæði vini og ættingja. Pabbi og bræður mínir eru hans karlmannsfyrirmyndir og svo eigum við nokkra vini og vinkonur sem kalla sig líka ömmu hans og afa. Ég valdi líka að hafa gjafann opinn en það þýðir að hann getur fengið upplýsingar um gjafann við 18 ára aldur, óski hann þess. Mér fannst mikilvægt að velja opinn gjafa, svo þessi möguleiki væri fyrir hendi. Það er ekki mitt að taka það af barninu, vilji það vita um uppruna sinn,“ segir hún.

Viðbrögðin sem Valgerður fékk við meðgöngunni voru miklu betri en hún gerði sér vonir um. „Fólki fannst frábært að ég væri að gera þetta núna en ég fékk að heyra sögur af konum sem fóru í þetta um eða eftir fertugt og þær sáu kannski mest eftir því að hafa ekki gert þetta fyrr. Ég átti kannski mest von á að ömmur mínar, sem sagt eldri kynslóðin, myndu ekki skilja þessa ákvörðun en það var alls ekki þannig. Stuðningurinn sem ég fékk var ómetanlegur. Ég mæli með fyrir allar konur sem eru að hugsa þetta að drífa sig allavega í viðtal og kynna sér málið. Þetta getur jú allt tekið sinn tíma. Þótt þetta hafi verið dýrt og tímafrekt hjá mér þá eru verðlaunin svo ótrúlega þess virði. Atli Fannar er æðislegt barn og ég hefði alls ekki vilja missa af því að eiga hann,“ segir Valgerður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert