Þrjú lík fundust í leit að ferðamönnunum

Loftmynd sem sýnir björgunarsveitarmenn, réttarlækna og saksóknara búa sig undir …
Loftmynd sem sýnir björgunarsveitarmenn, réttarlækna og saksóknara búa sig undir að fara ofan í vatnshol þar sem líkamsleifar fundust nálægt La Bocana-ströndinni í Santo Tomas. AFP/Guillermo Arias

Mexíkósk yfirvöld hafa fundið þrjú lík á svæði í Baja Kalifornía-ríkinu þar sem tveir ástralskir bræður og Bandaríkjamaður hurfu í lok apríl.

Haft er eftir FBI að líkin hefðu fundist í bænum Santo Tomas sem er í vesturhluta Mexíkó. Formlega hafa þó ekki enn verið borin kennsl á líkin. 

BBC greinir frá.

Handtökuskipanir gefnar út

Brimbrettakapparnir þrír, bræðurnir Jake, 30 ára, og Callum Robinson, 33 ára, frá Perth í Ástralíu og Bandaríkjamaðurinn Jack Carter Rhoad, 30 ára, voru í fríi nálægt hinum vinsæla ferðamannabæ Ensenada þegar þeir hurfu þann 27. apríl.

Mexíkóska lögreglan yfirheyrði á fimmtudag konu og tvo karlmenn í tengslum við hvarf þeirra.

Samkvæmt saksóknara Baja Kalifornía verða réttarrannsóknir framkvæmdar af rannsóknarstofu ríkisins til að bera kennsl á líkin en embættið sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem sagði að handtökuskipanir hefðu verið gefnar út vegna glæps er varðaði „þvingað hvarf“.

Áður höfðu yfirgefin tjöld, brenndur hvítur pallbíll og sími tengdur týndu ferðamönnum fundist.

Hópur manna, þar á meðal slökkviliðsmanna, hafði verið að leita að þremenningunum á afskekktu klettasvæði. 

Þremenningarnir hurfu þann 27. apríl og hefur verið leitað síðan.
Þremenningarnir hurfu þann 27. apríl og hefur verið leitað síðan. AFP/ Guillermo Arias

Eitt ofbeldisfyllsta ríki Mexíkó

Í yfirlýsingu á fréttastofu CBS er haft eftir FBI að ekki sé hægt að tjá sig um einstök atriði er varði málið. Þó sé hægt að fullyrða að verið sé að meta og skoða allar ábendingar. 

„Ef þær eru trúverðugar munum við fylgja þeim eftir af hörku. Við erum í sambandi við fjölskyldu bandaríska ríkisborgarans og erum staðföst, ásamt samstarfsaðilum okkar í alþjóðalögreglunni, að finna svör." 

Baja Kalifornía er eitt ofbeldisfyllsta ríki Mexíkó þar sem eiturlyfjagengi berjast í blóðugum stríðum. Þrátt fyrir það hafa brimbrettaaðstæður í Ensenada, 90 mínútum suður af landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, lengi laðað að sér ferðamenn frá Kaliforníu.

Þá er haft eftir talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins að þau væru meðvituð um þessar fregnir og fylgdust náið með ástandinu og talsmaður utanríkisráðuneytis Ástralíu sagði að sendiráð þeirra í Mexíkó væri í nánu samstarfi við mexíkósk yfirvöld og áströlsku alríkislögregluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert