Náði myndbandi af álft herja á hundinn sinn

„Fallegt hvernig hann breiðir út vængina og breytist í dreka í augum hundsins,“ segir Ronja Auðunsdóttir í Facebook-færslu sinni en hún náði mögnuðu myndbandi af hundinum sínum, Úlfi, verða fyrir árás álftar í gærdag.

Í myndbandinu sést hvernig svanurinn þeytist yfir vatnið í átt að Úlfi og skyndilega verða vængir að vopnum. Sjá má hvernig svanurinn herjar á Úlf þar til hann nær að koma sér í upp á bakkann. 

Myndbandið hefur vakið mikla athygli og hafa yfir 200 manns líkað við færsluna og 76 skrifað ummæli. Hefur myndbandinu þá einnig verið deilt 193 sinnum.

Fyrir slysni í vatninu

Ljóst var þó að ekki eru allir jafn heillaðir en í ummælakerfinu má finna athugasemdir sem benda á að þarna sé Úlfur á varplandi og þar sé lausaganga hunda með öllu bönnuð. Ronja virðist ekki taka gagnrýnina inn á sig en hún hefur útskýrt sitt mál inni á Facebook-síðunni Hundasamfélagið.

Segist hún þar að um er að ræða slys. Hundinum hafi einfaldlega verið heitt og hafi viljað fá sér að drekka þegar sonur hennar missti ólina og fékk því hundurinn sér vænan sundsprett. Ronja hafi þá einmitt verið með myndavélina á lofti og náð af því myndbandi þegar svanurinn lét til skarar skríða. 

Í samtali við mbl.is segir Ronja að hún og sonur hennar, Krummi séu miklir dýravinir og beri virðingu fyrir náttúrunni;

„En þarna var um óhapp að ræða að hann skyldi sleppa en ég sé ekki eftir neinu. Ég hélt ró minni í aðstæðum sem ég réði ekki við og náði þar með stórkostlegu myndbandi af náttúrunni í allri sinni dýrð.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem álftin sýnir árásargirni sína en fjölmörg dæmi eru hér á Íslandi þar sem allskyns dýr og jafnvel menn hafa orðið fyrir barðinu á álft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert