„Fundasjúkt kerfi“ sem þarf að breyta

Áslaug Arna kynnti kerfisbreytingar í Kolaportinu í vikunni.
Áslaug Arna kynnti kerfisbreytingar í Kolaportinu í vikunni. mbl.is/Eyþór

„Kerfið er fundasjúkt. Fundir eru of margir, langir og óskilvirkir. Eftir fundina er lítil eða engin niðurstaða og of margir sitja þá. Ég hef fækkað fundum og breytt fundamenningunni en slíkt er stöðug æfing, því kerfið á það til að falla aftur í sama farið,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á kynningu í Kolaportinu í vikunni þar sem hún greindi frá helstu kerfisbreytingum og nýju verklagi í ráðuneyti sínu.

Tekin hafa verið upp breytt vinnubrögð í ráðuneytinu. Ástæðan fyrir þessum breytingum að sögn Áslaugar er að hið opinbera þurfi að vera sveigjanlegra og ná meiri árangri. Á kynningunni í Kolaportinu tóku einnig til máls Sæmundur Oddsson læknir og Safa Jemai hugbúnaðarverkfræðingur.

Allir þurfa að ná árangri

Hvers vegna ákvaðstu að ráðast í þetta verkefni?

„Allir stjórnmálamenn þurfa að ná árangri. Ef stjórnsýslan í kringum ráðherrann hefur ekki undan og er kannski að sinna einhverjum öðrum verkefnum sem vel mætti setja á ís, þá ná mál ekki að klárast á þeim tíma sem hver ráðherra hefur til að koma stefnumálum sínum í gegn.

Þess vegna fór ég í þetta verkefni og ég fylgi því eftir með því að ganga um ráðuneytið eins og læknir á stofugangi til að fylgjast með hvernig verkefnum vindur fram, rétt eins og læknir fylgist með sjúklingum sínum á hverjum degi.“

Fjórðungur treystir Alþingi

Spurð hvaða verklagi hafi verið breytt segir Áslaug mörg atriði hafa verið tekin fyrir. Opinbera kerfið þurfi að vera sveigjanlegra til að ná meiri árangri. Alltof algengt sé að kerfið festist í viðbragðsstjórnun og dægurþrasi á kostnað mikilvægra mála. Hún bendir á að einungis fjórðungur landsmanna beri traust til Alþingis og skilaboðin séu þau að kerfið snúist of mikið um sjálft sig og virki ekki fyrir fólk eða fyrirtæki.

„Á ferðum mínum um landið heyri ég reglulega dæmi þess hvernig stjórnkerfið flæki líf fólks og fyrirtækja í stað þess að einfalda það og greiða fyrir ýmiss konar tækifærum. Í kjölfarið myndast skortur á trausti á stjórnmálum og kerfinu sem taka ber alvarlega. Þess vegna vildi ég innleiða nýtt verklag þar sem rauði þráðurinn væri sá að kerfið þurfi að vera hugsað út frá fólki, en ekki út frá kerfinu sjálfu,“ segir Áslaug Arna.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert