Telur kappræður hafa skipt sköpum fyrir fylgið

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi hefur tæplega tvöfaldað fylgi sitt milli kappræðna.
Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi hefur tæplega tvöfaldað fylgi sitt milli kappræðna. Ljósmynd/Aðsend

„Best er að hitta fólk í eigin persónu, en ekkert okkar nær að hitta alla þannig, en þegar þau fá að sjá okkur í hljóði og mynd þá er það mikilvægt lóð á vogaskálarnar hjá okkur.“

Þetta segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is spurð um marktæka fylgisaukningu hennar í skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið.

Fylgi Höllu nær tvöfaldaðist á milli vikna og rauk upp úr 5,1% upp í 12,5%. Telja margir að rekja megi fylgisaukningu Höllu til kappræðna Ríkisútvarpsins fyrra föstudagskvöld. 

Mikilvægt að sjá frambjóðendur á sjónvarpskjánum

Segir Halla það koma ánægjulega á óvart hversu mikið hún hafi aukið fylgi sitt á milli vikna en það sé engu að síður í takt við það sem kjósendur hafi tjáð henni í samtölum sem hún hafi átt um land allt.

Margir hafi enn ekki gert upp hug sinn um hvað skuli kjósa og telji því mikilvægt að sjá frambjóðendurnar á sjónvarpsskjánum í samtali. 

Kveðst hún finna fyrir vaxandi meðbyr um land allt og sé til að mynda nýkomin heim úr fimm daga ferð að norðan þar sem fundir hafi verið vel sóttir.  

„Ég tel þetta svo mikilvægan þátt í lýðræðinu, þetta snýst minna um okkur og meira um að kjósendur fái tíma og svigrúm til að sjá okkur að verki í hljóði og mynd,“ segir Halla. 

Kort/mbl.is

Allt mögulegt ef fylgið eykst áfram

Svo þú telur að kappræðurnar hjá Ríkisútvarpinu kunni að eiga þátt í þessari fylgisaukningu?

„Já, ég held að þær hafi skipt sköpum. Ég fann það og ég fann það fyrir átta árum síðan og ég held að fleiri kappræður skipti fólk máli og að við eigum að gefa kjósendum öll tækifæri sem við getum til að sýna hvað í okkur býr,“ segir Halla.

Nú styttist auðvitað óðum í kosningar og ef þú heldur áfram með þessu móti ætti það að þýða öruggan sigur. Ertu bjartsýn á framhaldið? 

„Ég held að það sé ekkert öruggt fyrir neinn í þessum kosningum. Ég held að þetta séu líklegast mest spennandi kosningar í okkar líftíma. En ég er bjartsýn og held að ef ég nái tvöföldu til þreföldu fylgi á einni viku með einum kappræðum og ferðalögum og fundum, að þá sé allt mögulegt,“ segir Halla.

Skiptir máli hver verður forseti

Kveðst hún halda auðmjúk fram á veg og vera þakklát öllum landsmönnum sem gefi sér tíma til að kynna sér frambjóðendurna ásamt þeirra gildum og sýn þeirra á embættið.

„Því það skiptir máli hver verður kosinn forseti og kjósendur eiga þá virðingu skilið að við gerum þeim eins auðvelt og hægt er að fá að kynnast okkar karakter, okkar bakgrunni og okkar áherslum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert