Húsó-uppskriftirnar opinberaðar í fyrsta sinn

Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans sviptir hulunni af ljúffengri asparssúpu …
Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans sviptir hulunni af ljúffengri asparssúpu og brauðbollum sem enginn stenst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu vikur og mánuði munu lesendur matarvefsins fá að njóta uppskrifta á hverjum laugardegi sem koma úr hinu leyndardómsfulla eldhúsi í Hússtjórnarskólanum. Mun skólameistarinn Marta María Arnarsdóttir þar á bæ svipta hulunni af nokkrum vel völdum réttum sem eiga sér sögu og hafa fylgt Hússtjórnarskólanum gegnum tíðina og glatt mörg matarhjörtu.

Skólameistarinn í Hússtjórnarskólanum

Marta María er að sigla inn í sinn annan vetur í því starfi. Hún er 27 ára gömul og býr ásamt sínum betri helmingi Jakobi Helga Jónssyni og hundinum Línu úti á Seltjarnarnesi. Hennar helstu áhugamál samtvinnast vel við kennslugreinar Hússtjórnarskólans, líkt og eldamennska og bakstur, prjón, hekl og útsaumur. Þegar hún er heima hjá sér fer hún gjarnan í eldhúsið að dunda sér við bakstur eða eldamennsku eða grípur til einhverrar handavinnu. Hússtjórnarskólinn er einnar annar nám á framhaldsskólastigi og stunda nú 20 nemendur nám við skólann. Flestir nemendur skólans eru í kringum tvítugsaldurinn og hluti þeirra býr í skólanum á heimavistinni sem er á efstu hæð skólans. Hússtjórnarskólinn, eða Húsó líkt og hann er iðulega kallaður, er í hjarta Reykjavíkur á Sólvallagötu 12.

Húsó uppskriftirnar birtar opinberlega í fyrsta skipið 

Húsó-uppskriftir hafa áður ekki litið dagsins ljós opinberlega nema fyrir nemendur skólans. „Uppskriftirnar sem ég deili hér með ykkur í vetur eru margprófaðar og háþróaðar og því geta þær hreinlega ekki klikkað. Við erum miklir sælkerar í Hússtjórnarskólanum, reynum að borða hollan, næringarríkan og fjölbreyttan mat og reynum að gæta að því að matarskostnaður fari ekki fram úr hófi. Þegar keypt er í matinn þarf að huga að því að ekkert fari til spillis og síðan er mikilvægt að nýta afganga, bæði upp á matar- og peningasóun að gera. Þegar við veljum hvað á að vera í matinn þarf að huga að ofangreindu. Einnig leggjum við ríka áherslu á að halda í íslenskar matarhefðir. Uppskriftir skólans eru hreinlega mikill menningararfur okkar Íslendinga sem gaman er að deila nú með þjóðinni,“ segir Marta María stolt af matarmenningunni sem þar ríkir.

Borðsiðir og matarvenjur í forgrunni

Í skólanum kennum við meðal annars helstu borðsiði og matarvenjur. „Við kennum nemendum hvernig æskilegt er að leggja á borð, hvernig diskamottur, diskar, skálar, hnífapör, glös og þess háttar á að vera stillt upp. Einnig hvernig nota eigi servíettur, leggja frá sér hnífapör og þannig. Við reynum öll að hjálpast að þegar við fáum okkur á diska og byrjum ekki að borða á hverju borði fyrir sig fyrr en allir eru búnir að fá sér á diskinn, annað er hreinlega dónalegt. Einnig erum við ekki í símanum við matarborðið og rjúkum að sjálfsögðu ekki frá borði fyrr en allir eru búnir að borða, saddir og sælir. Það eru þessi smáatriði sem skipta svo miklu máli. Það er mikilvægt að vera kurteis þegar manni er til að mynda boðið í matarboð eða þá nýta sér þessa kunnáttu þegar maður fer fínt út að borða.

Uppskriftirnar sem við deilum með lesendum að þessu sinni eru tilvaldar sem forréttur eða sem léttur hádegismatur. Þær eru fljótlegar, ódýrar, næringarríkar og einstaklega ljúffengar.“

Asparssúpan er ómótstæðilega girnileg og takið eftir matarstellinu. Svo fallegt.
Asparssúpan er ómótstæðilega girnileg og takið eftir matarstellinu. Svo fallegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljúffeng asparssúpa og nýbakaðar brauðbollur

Vert er að geta þess að skólinn er 81 árs og eru sumar uppskriftirnar því vel gamlar í grunninn og heldur betur skotheldar, þótt margar nýjar hafi bæst við í gegnum tíðina. „Fyrstu uppskriftirnar sem við ætlum að ljóstra upp er þessi uppskrift af ljúffengri asparssúpu og brauðbollum eins og ömmur okkar hafa matreidd í áranna rás,“ segir Marta María. 

Ekkert er betra en nýbakaðar ylvolgar brauðbollur með asparsúpunni og …
Ekkert er betra en nýbakaðar ylvolgar brauðbollur með asparsúpunni og þessar eru engu líkar. Leyndardómarnir í eldhúsinu í Hússtjórnarskólanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Asparssúpa

  • 1 l kjúklinga- eða grænmetissoð. (Soð sem er gert úr vatni og krafti er 1l vatn og 1 ½ msk kraftur).
  • 50 g smjörlíki, smjör eða 0,4-0,5 dl olía
  • 50 g hveiti
  • 1 dós aspas, 400 g
  • 150 ml rjómi

Aðferð:

  1. Hitið soð að suðu.
  2. Útbúið smjörbollu í öðrum potti.
  3. Bræðið smjörlíki og blandið hveiti saman við og hrærið vel í á meðan.
  4. Setjið smjörbolluna út í sjóðandi soðið og hrærið vel saman við soðið þar til sýður.
  5. Bætið aspassafanum saman við og blandið rjómanum saman við.
  6. Sjóðið súpuna rólega í 10 mínútur.
  7. Endið á að setja aspasinn út í.
  8. Hrærið varlega með sleif.
  9. Smakkið til og kryddið ef þarf.

Brauðbollur

  • 50 g lint smjör eða brætt
  • 1 ½ dl vatn eða mjólk
  • ½ egg
  • 2 ½ tsk. þurrger
  • 1 tsk. sykur
  • 200 g hveiti
  • 50 g heilhveiti
  • ½ tsk. salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C hita.
  2. Leysið gerið upp í volgu vatni eða volgri mjólk (37°C).
  3. Bætið egginu, smjörinu og þurrefnunum saman við. Hrærið deigið saman með sleif eða hnoðið í hrærivélaskál.
  4. Látið hefast í ½-1 klukkustund eftir aðstæðum.
  5. Hnoðið deigið á borði og mótið í bollur og látið á bökunarplötu með bökunarpappír.
  6. Best er að móta bollurnar með því að vera með tvær bollur sín í hvorri hönd og þrýsta þeim létt á borðið í hringlaga hreyfingum þar til þær verða fagurlega mótaðar.
  7. Látið bollurnar hefast í 10-15 mínútur eða setjið inn í kaldan ofn.
  8. Gott er að pensla brauðið með mjólk eða restinni af egginu.
  9. Bakið í miðjum ofni við 180°C í um það bil 10-12 mínútur þar til bollurnar eru orðnar fallega gullinbrúnar. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert