Krönsí kartöflusalat sem steinliggur með grillmatnum

Girnilegt kartöflusalatið hennar Berglindar og steinliggur með grillmatnum.
Girnilegt kartöflusalatið hennar Berglindar og steinliggur með grillmatnum. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér er á ferðinni skothelt kartöflusalat sem kemur úr smiðju Berglindar Hreiðars köku-og matarbloggara hjá Gotterí og gersemar. Kartöflusalatið er ferskt og með skemmtilegri áferð og nokkuð ólíkt hinu klassíska kartöflusalati. Hér eru kartöflurnar kramdar og grillaðar í ofni sem gefur þeim allt aðra áferð og þær verða meira krönsí. Steinliggur með grillmatnum og upplagt að prófa.

Hér er hægt að sjá Berglindi laga kartöflusalatið góða.

Krönsí kartöflusalat

Fyrir 6

  • 1 kg litlar kartöflur
  • 160 g grísk jógúrt
  • 80 g sýrður rjómi
  • 80 g majónes
  • ½ sítróna (safinn)
  • 2 tsk. dijon sinnep
  • 3 hvítlauksgeirar
  • ½ agúrka
  • ½ rauðlaukur
  • Ólífuolía
  • Salt, pipar, hvítlauksduft eftir smekk

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar og leyfið þeim síðan alveg að þorna.
  2. Hitið ofninn í 210°C.
  3. Penslið ofnskúffu með matarolíu og hellið kartöflunum í skúffuna.
  4. Kremjið þær niður með kartöflustappara/gaffli.
  5. Penslið þær með ólífuolíu á efri hliðinni líka og kryddið vel með salti, pipar og hvítlauksdufti.
  6. Bakið í ofninum í 45-60 mínútur eða þar til þær verða mjög stökkar.
  7. Á meðan kartöflurnar eru í ofninum pískið þá saman gríska jógúrt, sýrðan rjóma, majónes, sítrónusafa, dijon sinnep og rifin hvítlauksrif.
  8. Smakkið síðan til með kryddum.
  9. Skerið fræin úr agúrkunni og saxið hana næst smátt niður ásamt rauðlauknum og bætið í jógúrtblönduna. Geymið í kæli þar til kartöflurnar eru tilbúnar.
  10. Leyfið kartöflunum að kólna í um 5 mínútur áður en þið blandið þeim saman við jógúrtblönduna. Ef þær eru stórar má skera þær aðeins niður fyrst.
  11. Njótið með grilluðum mat að eigin val.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert