„Mér fannst við eiga meira skilið“

Hallgrímur Mar með boltann í dag.
Hallgrímur Mar með boltann í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA og KR gerðu 1:1 jafntefli í 5. umferð Bestu-deildar karla í fótbolta í dag. KA nældi sér í annað stig sitt í deildinni í sumar og eru flestir KA-menn eflaust svekktir með úrslit leiksins. Þeir geta þó glaðst yfir því að Hallgrímur Mar Steingrímsson spilaði sínar fyrstu mínútur á tímabilinu en hann hefur misst af byrjun mótsins. Grímsi spilaði seinni hálfleikinn í dag og hann setti sitt mark á leikinn.

Það þótti við hæfi að heyra í honum hljóðið eftir leik og taka stöðuna á honum.

„Líðan mín er bara fín núna. Ég er að koma fyrr inn í þetta en ég átti von á. Fyrir fjórum til fimm vikum þá hefði ég alls ekki séð þetta fyrir, að vera mættur inn á völlinn í dag, og hvað þá í heilar 45 mínútur. Það hefur verið góður stígandi í þessu hjá mér frá því að ég mátti byrja að æfa fyrir tveimur vikum. Það er bara fínt að vera mættur aftur.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þú þurftir ekki margar mínútur til að koma Elfari Árna í dauðafæri en þar björguðu KR-ingar vel. Hvernig varð þetta þegar leið á hálfleikinn?

„Ég finn alveg að ég á helling eftir til að ná mér. Snerpa og annað tengt vöðvunum er ekki komið en hausinn er í lagi. Þetta verður fljótt að koma held ég. Þegar leið á þá var ég orðinn smá þreyttur í fótunum.“

Þegar þú horfir yfir leikinn hvað fannst þér?

„Þetta byrjaði frekar illa. Auðvelt mark og vítaspyrna. Eftir þessa byrjun þá var KA-liðið bara flott. Mér fannst við taka yfir leikinn svona um miðjan fyrri hálfleikinn og svo vorum við bara með hann allan seinni hálfleikinn. Það vantaði bara að skora meira og mér fannst við eiga meira skilið.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Ekki fyrsti leikur KA í sumar sem þetta á við um.

„Það er ýmislegt ekki alveg búið að falla með okkur en við getum ekkert verið að horfa mikið í það. Við höldum bara áfram. Þetta hlýtur að fara að detta okkar megin. Við erum að skapa nóg af færum og á endanum fer það að skila mörkum. Ég bara trúi ekki öðru. Ég hef engar áhyggjur af þessu.“

Leikurinn í dag var ansi skrautlegur. Hvað fannst þér um dómgæsluna?

Nú glottir Hallgrímur. „Mér fannst margar ákvarðanir í leiknum skrýtnar. Ég verð að viðurkenna það er ætla ekkert að tala meira um þetta. Línan var sérstök,“ sagði Hallgrímur Mar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert