Auðvitað er það högg

Ásgeir Eyþórsson fyrirliði Fylkis.
Ásgeir Eyþórsson fyrirliði Fylkis. mbl.is/Kristinn Steinn

„Mér fannst við góðir í fyrri hálfleik og skapa fleiri færi, svo ég held að okkur öllum hafi liðið vel inni á vellinum,“ sagði Ásgeir Eyþórsson fyrirliði Fylkis eftir grætilegt 3:0 tap fyrir Blikum þegar liðin mættust í 6. umferð efstu deildar karla í fótbolta í Árbænum í kvöld.

„Við vildum svara fyrir okkur aðeins betur og setja pressu á Blikana í seinni hálfleik en það var auðvitað högg að fá þetta mark í lok fyrri hálfleiks og við vorum svo sem í lagi í byrjun seinni hálfleiks og fáum smá færi en svo einhvern veginn eftir annað mark datt botninn úr þessu hjá okkur.“ 

Staða Fylkis er ekki góð, neðstir í deildinni með eitt stig og, ásamt KA, eina liðið sem hefur ekki unnið leik í deildinni. 

„Við verðum að halda trúnni en auðvitað var þetta ansi súrt, búnir að eiga fína kafla í sumar en það er alls ekki nóg.  Erum bara með eitt stig en það er bara áfram gakk, það þýðir ekki neitt annað og það er nóg eftir.   Andinn í hópnum er í lagi en það er erfitt að bíða eftir fyrsta sigurleiknum, menn eru samt staðráðnir í að ná þessum fyrsta sigri sem fyrst,“ sagði fyrirliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert