Chelsea vann fimm marka spennutrylli

Nicolas Jackson fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Nicolas Jackson fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP/Oli Scarff

Chelsea hafði betur gegn Nottingham Forest, 3:2, í æsispennandi leik í 37. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í Nottingham í kvöld.

Chelsea heldur kyrru fyrir í sjöunda sæti og er nú með 57 stig, jafnmörg og Newcastle United í sætinu fyrir ofan.

Forest er áfram í 17. sæti með 29 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti en með töluvert betri markatölu en Luton Town í sætinu fyrir neðan þegar bæði lið eiga einungis einn leik eftir.

Mykhailo Mudryk kom Chelsea í forystu eftir aðeins átta mínútna leik þegar hann lagði boltann í fjærhornið vinstra megin úr vítateignum eftir glæsilega stungusendingu Coles Palmers.

Skömmu síðar, á 16. mínútu, jafnaði Willy Boly metin með skalla af stuttu færi eftir aukaspyrnu Morgan Gibbs-White.

Staðan var jöfn, 1:1, í hálfleik.

Þrjú mörk á sjö mínútum

Stundarfjórðungi fyrir leikslok kom Callum Hudson-Odoi heimamönnum í Forest í forystu í fyrsta sinn í leiknum og það gegn uppeldisfélagi sínu.

Fékk hann þá boltann frá Gibbs-White og kláraði með glæsilegu skoti utarlega vinstra megin úr teignum.

Skömmu síðar, á 80. mínútu, jafnaði varamaðurinn Raheem Sterling metin fyrir Chelsea með keimlíkur, hnitmiðuðu skoti.

Aðeins tveimur mínútum síðar kom Nicolas Jackson Chelsea yfir á ný þegar hann skallaði boltann í autt markið eftir laglega fyrirgjöf varamannsins Reece James frá hægri.

Reyndist mark Jacksons, sem hefur nú skorað 14 mörk á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni, vera sigurmarkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert