Skjótur frami Arteta blasti við

Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, ræðir við leikmenn sína í leik …
Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, ræðir við leikmenn sína í leik við Bournemouth á heimavelli Arsenal 4. maí. AFP/Justin Tallis

Þegar Mikel Arteta steig fyrstu skrefin á þjálfarabrautinni í unglingastarfinu hjá Arsenal var Jan van Loon, þáverandi yfirþjálfara í akademíu félagsins, ljóst að þarna væri mikið þjálfaraefni á ferð. Nú er Arteta í brúnni hjá Arsenal, sem gæti orðið Englandsmeistari um helgina.

Það blasti við van Loon að Arteta væri með mjög góðan grunn. Allt hefði verið vandlega hugsað skref fyrir skref og tryggt að allir vissu við hverju væri að búast. „Ef þú horfir á aðalliðið hjá honum núna sést hver afraksturinn getur verið af því að helga sig leiknum með þessum hætti,“ sagði hann í viðtali við Arthur Renard blaðamann.

„Allir gátu þá þegar séð að hér væri eitthvað sérstakt á ferðinni, að ekki myndi líða á löngu þar til hann væri farinn að vinna með aðalliði í ensku meistaradeildinni.“

Van Loon segir að Arteta hafi vakið hrifningu bæði fyrir taktíska hugsun og hæfni sína í mannlegum samskiptum. „Hann er með náttúruhæfileika í að greina og byggja upp lið. Ég held að það sé hans helsti hæfileiki, auk þess að kunna að umgangast allar gerðir af leikmönnum.“

Hollenski unglingaþjálfarinn tók sérstaklega eftir því hvað Arteta átti auðvelt með að ná sambandi við leikmenn. „Hann er með blöndu af tilfinningagreind og greiningargreind, sem kemur fram í því hvernig hann orðar hlutina. Þegar þú ert með menn af tíu þjóðernum í búningsklefanum er nauðsynlegt að vita hvernig eigi að beina hverjum og einum í rétta átt, þar á meðal þeim sem ekki fá spilatíma.

Arteta skilur hvernig á að kveikja metnað leikmanna og hvetja þá til að leggja aðeins harðar að sér sem oft ríður baggamuninn,“ segir van Loon. „Hann er mikill fjölskyldumaður, höfðar til allra í kringum liðið og er föðurímynd yngri leikmanna.“

Umfjöllun Renards um Arteta birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og ræðir hann einnig við Frankie de Boer, sem lék með þjálfara Arsenal á Skotlandi og kynntist honum vel.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert