Frammistaðan góð á öllum sviðum

Gunnar Magnússon í kvöld
Gunnar Magnússon í kvöld mbl.is/Eyþór

Gunnar Magnússon var kátur í viðtali við mbl.is eftir góðan 26:25 sigur Aftureldingar á Val í undanúrslitum úrvalsdeildar karla í handbolta.

Hvernig nálgist þið þennan leik eftir afhroðið á Hlíðarenda í vikunni? „Maður fer kannski í reynslubankann, við höfum því miður lent í þessu áður, en við byrjuðum bara beint eftir leik að krukka í hausnum á mönnum og segja þeim að við myndum svara fyrir þetta í dag. Allt annað skipti ekki máli, að tapa leiknum var búið og gert og eini möguleikinn var að sýna úr hverju við værum gerðir“.

Brynjar Vignir Sigurjónsson og vörn Aftureldingar lögðu grunninn að sigrinum með góðri frammistöðu fyrri hluta fyrri hálfleiks en Brynjar varði níu skot á fyrstu 10 mínútum leiksins.

„Það munar um að við náðum að komast til baka og stilla upp vörn, þannig náum við markmanninum inn í leikinn og það er lykillinn á móti Val að láta þá ekki hlaupa yfir okkur. Við náðum frumkvæðinu og héldum þeim nokkrum mörkum frá okkur allan leikinn þangað til í blálokin. Frammistaðan er síðan bara góð á öllum sviðum, markvarsla, vörn og sókn og orkustigið sömuleiðis“.

Jakob Aronsson átti góðan leik
Jakob Aronsson átti góðan leik mbl.is/Eyþór

Það hefur oft loðað við lið Aftureldingar að Þorsteinn Leó Gunnarsson þurfi að skora yfir tíu mörk svo liðið nái sigri, í dag dreyfðist markaskorun liðsins vel og Jakob Aronsson átti að mati blaðamanns frábæran leik á línunni. 

„Frábær liðsheild og margir sem lögðu í púkkið. Fyrir mér er Jakob kaup ársins í deildinni, leikmaður sem enginn hafði áhuga á. Ég þekki hann og hafði trú á honum og veit hvað hann getur og hann var stórkostlegur í kvöld“.

Stemningin á Varmá var frábær í kvöld og stuðningsmenn liðsins afar háværir. Gunnari þótti vænt um að geta svarað fyrir síðasta leik og unnið fyrir framan Mosfellinga. En hvernig sér Gunnar næsta leik fyrir sér?

„Við mætum og fólkið okkar mætir í næsta leik. Þrátt fyrir að Valur hafi spilað stórkostlega þá áttum við að gera betur og núna lærum við af reynslunni. Núna er tíu daga pása og við þurfum að vera 100% klárir í næsta leik“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert