Frábært fyrir uppalinn Valsara

Tjörvi ræðir við mbl.is eftir leik.
Tjörvi ræðir við mbl.is eftir leik. mbl.is/Óttar

„Mér líður ágætlega,“ sagði Valsmaðurinn Tjörvi Týr Gíslason í samtali við mbl.is eftir sigur Vals á Olympiacos frá Grikklandi í fyrri leik liðanna í úrslitum Evrópubikarsins í handbolta. Urðu lokatölur 30:26 og Valur fer með fjögurra marka forskot til Aþenu.

„Þetta er ekki búið en þetta var gaman og geggjuð stemning í höllinni. Það gerist ekki betra en að spila fyrir fulla höll á Hlíðarenda. Það er alltaf frábært að spila svona leiki, þótt maður sé orðinn vanur þessu. Það er frábært fyrir uppalinn Valsara að upplifa þetta.“

Tjörvi spjallar við mbl.is eftir leik.
Tjörvi spjallar við mbl.is eftir leik. mbl.is/Óttar

Olympiacos-liðið er sterkt, með stóra og stæðilega leikmenn en Valsliðið spilaði mjög vel. „Mér finnst geggjað að spila á móti svona liði. Þeir eru stærri, þyngri og betri skotmenn. Við náðum að spila vel á þá.“

Ljóst er að Valsliðinu bíður ærið verkefni á mjög erfiðum útivelli gríska stórliðsins.

„Þetta verður erfitt úti en það leggst mjög vel í mig og ég er spenntur. Vonandi fáum við alvöru stemningu úti og við verðum að njóta. Það getur allt gerst úti og við verðum að vera yfirvegaðir,“ sagði Tjörvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert