Freyr ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar

Freyr Rögnvaldsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar stéttarfélags.
Freyr Rögnvaldsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar stéttarfélags.

Fjölmiðlamaðurinn Freyr Rögnvaldsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar stéttarfélags. Hann hefur síðustu 17 ár unnið sem blaðamaður á ýmsum fjölmiðlum, meðal annars Heimildinni, Stundinni, DV, Eyjunni, Bændablaðinu og á 24 stundum. 

Auk þess hefur hann sinnt kynningarstörfum og almannatengslum, bæði sem sjálfstætt starfandi og fyrir Bændasamtökin og sem upplýsingafulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir Alþingiskosningarnar árið 2017.

Greint er frá ráðningunni í tilkynningu, en þar er meðal annars haft eftir Perlu Ösp Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Eflingar, að ráðning Freys sé liður í eflingu samskipta og miðlunar upplýsinga af félagslegu og faglegu starfi Eflingar. 

Freyr hlaut Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands árið 2018 fyrir rannsóknarblaðamennsku þegar hann rannsakaði og greindi eignarhald auðmanna á íslenskum bújörðum. 

Freyr er giftur Snærós Sindradóttur, listfræðingi og fjölmiðlakonu, og eiga þau fjögur börn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka