Færeyingarnir fastir heima

Færeyska landsliðið hefur ekki komist úr landi.
Færeyska landsliðið hefur ekki komist úr landi. Ljósmynd/Alvur Haraldsen

Færeyska karlalandsliðið í handbolta hefur enn ekki getað lagt af stað frá Færeyjum til Skpoje til að leika við Norður-Makedóníu í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik. 

Færeyski miðilinn Roysni greinir frá.

Átti liðið að fljúga til Kaupmannahafnar klukkan 12:20 í dag en flugvélin náði hins vegar ekki að lenda í Vogum í Færeyjum og þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli. 

Samkvæmt Roysni er flugvélin á leið frá Keflavík til Færeyja og reynt verður að lenda henni innan skamms. 

Ástæðan fyrir brasinu er svartaþoka auk óhagstæðs hliðarvinds sem hefur verið við flugvöllinn í Vogum í allan gærdag og í morgunsárið. Hafa flugvélar hvorki náð að lenda né taka á loft á þessum tíma. 

Flugvélin á að lenda klukkan 12:15 að færeyskum tíma, 11:15 hérlendis, en óvíst er hvort að aðstæður séu til þess. 

Ef það heppnast gæti liðið lagt af stað í fyrsta lagi klukkan eitt að staðartíma. Flýgur liðið þá fyrst til Vínarborgar í Austurríki og síðan til Skopje. 

Færeyingar unnu fyrri leikinn með sjö mörkum, 34:27, og enn eru 30 tímar til stefnu. Hins vegar ef Færeyingum tekst ekki að koma sér til Norður-Makedóníu myndu þeir tapa leiknum, 10:0, og því ekki komast í lokakeppnina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka