Tímabilinu lokið hjá landsliðsmanninum

Styrmir Snær Þrastarson fór frá Þór í Þorlákshöfn til Belfius …
Styrmir Snær Þrastarson fór frá Þór í Þorlákshöfn til Belfius síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tímabilinu hjá Styrmi Snæ Þrastarsyni, landsliðsmanni í körfuknattleik, lauk í kvöld þegar lið hans, Belfius Mons, beið lægri hlut fyrir Antwerp Giants í átta liða úrslitunum um belgíska meistaratitilinn.

Antwerp vann leikinn á heimavelli Belfius, 86:71, og vann þar með einvígi liðanna 2:0. Styrmir skoraði 12 stig í leiknum, tók þrjú fráköst og átti tvær stoðsendingar en hann spilaði í 31 mínútu.

Styrmir var í talsvert stóru hlutverki hjá Belfius á þessu fyrsta tímabili sínu í atvinnumennsku. Liðið lék í BNXT-deildinni, sameiginlegri deild Hollands og Belgíu, en hafnaði í neðri hluta hennar seinni hluta tímabilsins. Í lokin fór liðið síðan í úrslitakeppni belgísku liðanna um sinn landstitil og hana kvöddu Styrmir og félagar í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert