Strangheiðarleg steranotkun

Ineos Grenadier vekur athygli hvar sem hann fer. Dregur jafnvel …
Ineos Grenadier vekur athygli hvar sem hann fer. Dregur jafnvel athyglina frá Reynisdröngum í haugasjó. Bíllinn vekur hughrif og yfir honum hvílir ákveðin dulúð, með réttu. mbl.is/Brynjólfur Löve

Það var allt annað að sjá Manchester United spila á Old Trafford um liðna helgi. Leikgleði og lausnamiðaður sóknarleikur. Þéttleiki í vörninni. 4-3 sigur á Liverpool er ekki eitthvað sem maður hefði veðjað á þegar flautað var til leiks. En maður hefði svo sem ekki trúað því að Jim Ratcliffe, breski auðmaðurinn sem þessi grein er að hluta helguð, yrði hlutskarpastur í kapphlaupinu um fótboltafélagið fornfræga, svona í ljósi þess að hann atti þar kappi við ríkustu olíusjeika í heimi, sem kalla alls ekkert ömmu sína. Bara hreint ekki neitt – ekki einu sinni ömmur sínar!

En karlinn hafði betur og virðist vera á einhverri leið með að snúa félaginu frá villu síns vegar, sem það hefur nær samfellt verið á frá árinu 2013, þegar Sir Alex yfirgaf sviðið. Og þetta hefur Ratcliffe reyndar sérhæft sig í að gera. Hann hefur auðgast á efnaframleiðslu, sem hann hefur byggt upp í kringum kaup á fyrirtækjum sem voru í basli. Hann sér tækifærin þar sem aðrir sjá þau ekki.

Aldrei í tæri við vatn?

Þar komum við einmitt að Grenadier. Bíl sem Ratcliffe hefur látið hanna og smíða og koma á markað. Meðan allir bílaframleiðendur leggja nótt við nýtan dag til að koma með nýja rafbíla á markaðinn, og hóta því að standa sig í vel í vetnisþróuninni líka, sá auðkýfingurinn tækifæri í að uppfylla þarfir þeirra sem vilja dísildreka sem tekst á við ítrustu aðstæður með bros á vör. Þar kikkar eflaust inn fortíðarþrá veiðimannsins sem elskaði Defender eins og hann var, áður en honum var breytt í bankastjórajeppa sem hefur það eina hlutverk að taka of mikið pláss í umferðinni. Örlög flestra bíla af þeirri tegund minna á sundkappann sem aldrei komst í tæri við vatn.

En Grenadier er af öðrum toga spunninn. Útlitið minnir sannarlega um margt á gamla Defenderinn og sækir einnig innblástur í Gelandewagen, sem af ýmsum ástæðum hefur hlotið sömu örlög og sundmaðurinn fyrrnefndi. Ólíkt því rándýra lúxusskrímsli er Grenadier sannkallaður Spartverji. Hann hefur það eina hlutverk að þjösnast í gegnum verkefni dagsins, berjast fumlaust og hafa sigur.

Það er hægt að renna heilu vörubretti inn í bílinn …
Það er hægt að renna heilu vörubretti inn í bílinn ef báðar skotthurðirnar eru opnaðar. Þar má koma fyrir nettu hreindýri ef svo ber undir. En viðlegubúnaður fer líka vel. Plássið er drjúgt, ekki síst á hæðina. mbl.is/Brynjólfur Löve

1.000 kílómetra stefnumót

Því fylgdi talsverð tilhlökkun að komast í tæri við hann nýverið og ekki skemmdi fyrir að verkefnið fólst í að bruna eftir suðurströndinni og alla leið á Höfn. Á leiðinni vissi ég af mörgum góðum stöðum til þess að reyna klárinn. Kannski örlítill beygur yfir því að eiga fyrir höndum 1.000 kílómetra á stálklumpi sem sumir hafa sagt að líkist fremur hertrukki og jafnvel skriðdreka en jeppa sem borgarbörn hafa ánægju af að slá um sig með.

Sannarlega voru það viðbrigði að setjast upp í Grenadier beint úr rafbílnum sem ég ek um á dagsdaglega. Hann fer ekki í grafgötur með það til hvers hann er kominn í þennan heim. Sjónrænt er hann harður í horn að taka og þegar maður leggur af stað finnur maður strax fyrir því að maður er með óhefðbundið tæki í höndunum. T.d. hefur hann ekki fyrir því að slaka til baka þegar maður hefur lagt á hann í léttri beygju. Maður þarf að temja fákinn og segja honum til hvers er ætlast. Þeir sem trúa á sjálfstýringu gætur enduruppgötvað hugtakið við að setjast við stjórnvölinn á þessu tæki. En þetta er ekki löstur á bílnum. Miklu frekar til marks um að þarna kemst ökumaðurinn í tengsl við það sem hann er að gera. Ráði og rænu er ekki rænt af honum með sjálfvirkni og gerviþægindum sem helst hafa það að leiðarljósi að breyta bíl í baðmull.

Myndir tala sínu máli hér en þó má hafa nokkra hluti bak við eyrað. Mestu skipta án efa hjarirnar sem að sjálfsögðu eru utanáliggjandi. Það er yfirlýsing og ekkert minna svo það sé á hreinu. Svo eru það ljósin. Hringlaga að framan og aftan. Minna á gamla Range Rover og fyrrnefndan Gelandewagen en það sem gerir þau skemmtileg er að tilfinningin er sú að þau gangi í gegnum bílinn, úr grillinu og aftur á skotthlutann. Manni liggur við að spyrja hvort þarna sé um ljóshólk einhvers konar að ræða. Það undirstrikar á sína vísu styrkleikann sem skín af bílnum.

Þá er skotthurðin tvöföld og á minni hurðinni er stigi sem nýtist vel, ekki síst ef toppurinn er nýttur undir tjaldbúnað eða til geymslu búnaðar af öðru tagi (ég gæti hugsað mér að koma upp stórum kampavínskæli á toppnum.) Á stærri hurðinni hangir svo varadekkið. Það er hægt að fá jeppa í dag án varadekks og kvoða sögð duga ef það skyldi springa!

Annars er ytra byrðið groddalegt og þar spilar með skemmtilegum hætti saman sprautað ál og plast og svo glittir í stálið. Ekki síst við stuðarana að framan og aftan. Þar er nauðsynlegt að geta fest spotta eða kaðal, jafnvel koma fyrir spili fyrir þá sem vilja láta taka sig alvarlega.

Stjórnborðið ofan við höfuð bílstjórans er mikilvægur hluti af karakternum. …
Stjórnborðið ofan við höfuð bílstjórans er mikilvægur hluti af karakternum. Gefur honum herlegt yfirbragð. Það er eins og með hurðirnar. Það þarf að ýta, þetta eru takkar. mbl.is/Brynjólfur Löve

Einfalt sem endist

Að innan er hugað að tvennu. Einfaldleika og endingu. Allt sem þar ber fyrir augu (að snertiskjánum undanskildum) er hugsað til þess að þola vatn og nokkurn ágang. Gírskiptingin er augljóslega úr smiðju BMW, rétt eins og drifið og vélin eru, en að öðru leyti er harðneskjulegur einfaldleikinn við völd. Takkar sem hægt er að fást við og engin þörf á að nota skjáinn fyrrnefnda frekar en maður vill. Ýmislegt í ljósastýringu og drifmálum sem stýrt er frá svæði ofan við ökumann og farþega og minnir þannig helst á farþegaþotu. Þar eru einnig takkar sem hægt er að forrita til þess að gefa meldingar um rafmagn, hvort sem það tengist spili eða öðru slíku. Allt gefur það bílnum magnað yfirbragð.

Ekki verður komist hjá því að nefna bílflauturnar. Já, í fleirtölu. Annars vegar er það sú hefðbundna sem maður notar á ökufanta og fól sem taka ekki af stað á ljósum en hanga þess í stað á Facebook! Hún er á sínum hefðbundna stað. En á stýrinu hægra megin er rauður hnappur sem á stendur „Toot“. Það er flauta fyrir hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur sem ekki eiga sér ills von. Þetta er í raun fáránlegur búnaður. Húmor. En kemur reyndar til af því að Ineos (sem framleiðir bílinn) heldur úti hjólaliði. Þeir hafa greinilega lent í ökuföntum sem spara ekki flautuna, þegar „toot“ hefði dugað. Og sannaðu til. Það eru lífsgæði að geta valið milli flauta. Góður vinur sem kann gott að meta sagðist helst vilja eiga bíl með þremur flautum. Minna má það ekki vera!

Skröltir ekki í sundur

Allt að einu. Ineos Grenadier er síðasti alvöru jeppinn sem smíðaður var. Veit ekki hvort þeir verða fleiri (framleiðandinn er meira að segja stokkinn á rafbílavagninn einnig). En hann er kominn til að vera og mun þjóna þeim sem vilja kljást við alvöru aðstæður án þess að skrölta í sundur. Það er hreinlega frábært að láta hann takast á við ótrúlegar brekkur, stórgrýti og vatn. Hann vex í þeim aðstæðum. Hnyklar vöðvana og minnir okkur á að lífið er meira en lágmarks loftmótstaða, snerpa og mýkt. Allt á sinn stað, allt á sína stund, líkt og Prédikarinn minnir á.

Flatskjárinn er það eina sem ég hreifst ekki af. En …
Flatskjárinn er það eina sem ég hreifst ekki af. En það er kostur að fyrir framan stýrishjólið er ekki skjár sem truflar akstursupplifunina mbl.is/Brynjólfur Löve

Ineos Grenadier Trailmaster

Sex sílyndra dísilvél

Sídrif 4X4

Hestöfl 249

Tog 550 Nm

Lægsti punktur 26,4 cm

Vaðdýpt 80 cm

Fimm manna

Eigin þyngd 2.650 kg

Heildarþyngd 3.500 kg

Dráttargeta 3.500 kg

90 lítra eldsneytistankur

0-100 km/klst. á 9,9 sek.

Eyðla 10,5-12,2 lítrar á 100 km

Verð frá 18.500.000 kr.

Verð á reynsluakstursbíl
20.500.000 kr.

Umboðsaðili á Íslandi:
Ineos Grenadier á Íslandi/
Verðir ehf.

Stýrishjólið er þægilegt og tiltölulega einfalt þótt gott hefði verið …
Stýrishjólið er þægilegt og tiltölulega einfalt þótt gott hefði verið að hafa hita í því. Rauði hnappurinn er hjólreiðaflautan. Algjör snilld í tilgangsleysi sínu. Allur stjórnbúnaður bílstjóra er mjög aðgengilegur. mbl.is/Brynjólfur Löve
Það er eiginlega móðgun við Grenadier að aka honum á …
Það er eiginlega móðgun við Grenadier að aka honum á malbiki. Honum líður betur þegar hann fær að kljást við grófara yfirborð. mbl.is/Brynjólfur Löve
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: