Hraða þróun ratsjár fyrir sjálfkeyrandi bíla Hyundai

Metawave háhraðaratsjáin byggir á gervigreind.
Metawave háhraðaratsjáin byggir á gervigreind.

Hyundai Cradle, nýsköpunar- og þróunarfyrirtæki Hyundai Motor, hefur keypt hlut í bandaríska tæknifyrirtækinu Metawave Corporation til að flýta þróun fyrirtækisins á hönnun ratsjár fyrir sjálfkeyrandi bíla.

Metawave hefur náð góðum árangri í þróun nýrrar háhraðaratsjár með gervigreind, 3-D og G5-netkerfi sem talið er að gjörbylti getunni til að bera kennsl á ólík fyrirbæri í umhverfinu og bregðast við á viðeiagandi hátt.

Tæknin mun augljóslega nýtast vel í bílaumferð þar sem margir og ólíkir hlutir þjóta hjá á hverri sekúndu eftir því sem ferðalaginu vindur fram.

Þessa tækni hyggst Hyundai nýta í næstu kynslóðum sjálfakandi bíla frá fyrirtækinu, en nú þegar er rafknúni vetnisbíllinn Nexo fær um að aka sjálfur milli áfangastaða, hvort sem er á hraðbrautum, sveitavegum eða í jarðgöngum.

Takmarkanir ríkjandi lausna

„Í þeim bílum sem nú eru búnir akstursaðstoð eða eru alfærir um að aka sjálfir milli áfangastaða gegna þrjár tegundir skynjara lykilhlutverki í akstrinum og framleiðendur velja eftir því hversu mikil geta bílanna á að vera: myndavélar, LiDAR (Light Detection And Ranging) eða leysigeisli og ratsjá. Myndavélarnar skila skýrustu upplausninni á umhverfið en sjá ekki fyrirbæri sem eru í mera en 50 metra fjarlægð. Leysigeislinn skynjar fyrirbæri í allt að 150 metra fjarlægð í tiltölulega góðri upplausn, en virkni bæði myndavéla og leysigeisla skerðist að einhverju leyti í slæmu skyggni og á óhreinum vegum í ryki og drullu.

Virkni ratsjáarinnar er á hinn bóginn önnur því hún vinnur fyrst og fremst á lágri tíðni og „sér“ hluti í mikilli fjarlægð framundan, miklu fyrr en önnur tækni og við hvaða veður- og akstursskilyrði sem eru. Þær ratsjár sem nú eru á markaðnum hafa samt ekki nægilega gleitt „sjónarsvið“ á hluti sem eru í mikilli fjarlægð auk þess sem mynd á fyrirbæri til hliða í mikilli fjarlægð er ekki nægilega skýr til að tölvan geti greint á milli ólíkra hluta. Til þess þyrfti að fjölga loftnetum og dýrum örgjövum til að lesa úr gögnum ratsjárinnar,“ segir í tilkynningu um kaup Hyundai á Metawave.

Á tilraunamarkað 2021

Tækni Metawave sem fyrirtækið kallar Warlord byggist á einum geisla í loftneti sem beinist á miklum hraða í allar áttir framan við bílinn. Stjórntölvan móttekur gögnin sem 4-D punktaský og greinir fyrirbærin jafnóðum.

Þessa tækni hyggst Hyundai byggja á í þróun næstu kynslóðar sjálfakandi bíla ásamt tækni frá tæknifyrirtækinu Aurora sem Hyundai hefur gert samstarfssamning við. Gert er ráð fyrir að fyrsti bíllinn sem nýtir tæknilausnirnar fari á sérhæfða tilraunamarkaði í völdum borgum árið 2021.

Tengjast í víðtæku samskiptaneti

Hyundai hefur einnig gert samstarfssamning við tæknifyrirtækið Autotalks sem sérhæfir sig í þróun fullkomins samskiptakerfis fyrir bíla í umferðinni sem er ætlað að stuðla að auknu öryggi í uferðinni og betri nýtingu samgöngumannvirkja. Með Vehicle to Everything (V2X), eins og búnaðurinn heitir hjá Autotalks, tengjast bílar í víðtæku samskiptaneti þar sem áríðandi upplýsingum er miðlað á milli bíla, t.d. um árekstur framundan, skyndilega veglokun, óveður eða annað sem gæfi t.d. tilefni til að breyta um aðra og öruggari leið á áfangastap. Í sjálfkeyrandi bíl væri V2X viðbótarstuðningur við annan tæknibúnað sem sér um og stjórnar akstri bílsins.

mbl.is