Ók í 27 ár próflaus

Franska lögreglan gómar brotamenn í umferðinni við og við.
Franska lögreglan gómar brotamenn í umferðinni við og við. AFP

Sumir eru sérdeilis kærulausir mætti segja um 55 ára gamlan Frakka sem stungið var í steininn sl. laugardag fyrir umferðarlagabrot.

Stöðvaði lögregla akstur hans þar sem hann ók öfugan hring í hringtorgi í bænum Ambert í sýslunni Puy-de-Dôme í sunnanverðu landinu.

Í ljós  kom að bílstjórinn hafði verið réttindalaus frá árinui 1991 eða í 27 ár. Allan þann tíma hefur hann hins vegar ekið bíl eins og ekkert hafi í skorist. Gaf hann lögreglunni þær skýringar að hann hafi misst réttindin vegna ölvunaraksturs og aldrei lagt sig eftir því að endurheimta þau.

„Það aftraði honum þó ekki og hélt hann akstri áfram. Var hann tekinn fastsur í byrjun þessa árs, enn próflaus og ölvaður undir stýri,“ segir staðarblaðið La Montagne. Bíður hann dóms vegna þess máls og bætist hið nýja þar við.

Við og við birtast í fjölmiðlum ótrúlegar fréttir af framferði réttindalausra ökumanna. Í fyrra var t.d. maður klófestur sem hafði misst prófið 12 árum áður. Saga 62 ára manns sem var stöðvaður í Pas-de-Calais árið 2014 fyrir að nota ekki bílbeltin er enn meira sláandi. Sá gekkst við því við handtöku að hafa aldrei staðist bílpróf og ekið eins og ekkert væri í yfir hálfa öld.

Við akstri bíls án réttinda liggja þung viðurlög í Frakklandi. Varðar það allt að eins árs fangelsisvist og 15.000 evra sekt, en sú upphæð jafngildir rúmlega 1,8 milljónum króna. Aukinheldur gæti hald verið lagt á bifreiðina sem notuð var, sé hinn brotlegi eigandi hennar. Refsingin gæti svo þyngst í tveggja ára fangelsisvist og 4.500 evra sekt hafi hinn brotlegi áður verið sviptur ökuréttindum.   

mbl.is