Ótrúleg spyrna stúdentabíls

Atmos, nemendabíllinn frá Þrándheimi, á ferð í keppninni í Hockenheimring …
Atmos, nemendabíllinn frá Þrándheimi, á ferð í keppninni í Hockenheimring í Þýskalandi sl. laugardag.

Nemendur við vísinda og tækniháskólans í  Þrándheimi í Noregi (NTNU)
hafa smíðað einstaklega spyrnugóðan rafknúinn kappakstursbíl sem þeir hafa teflt fram með góðum árangri í keppni við aðra háskóla.

Í nýliðin vikulok varð norski bíllinn, Atmos, í öðru sæti í samkeppni tækni- og verkfræðistúdenta sem fram fór í Þýskalandi og þykir metnaðarfull.

Fór keppnin, Formula Student Germany, fram í formúlubrautinni í Hockenheimring. Varð Atmos í öðru sæti í keppni hreinna rafbíla.
Hann er með drif á öllum fjórum hjólum og vegna smæðar hans er tómaþungi bílsins aðeins 180 kíló.

Að sögn talsmanns norska liðsins er Atmos aðeins 2,2 sekúndur að ná 100 kílómetra hraða úr kyrrstöðu. Í aflrásinni er að finna 139 hestöfl og snúningsvægið jafngildir 1300 Newtonmetra togi.  Hlaut hann alls 858,55 stig af eittþúsund mögulegum en sigurvegari varð lið verk- og tækniháskólans í  Zürich ETH með 883 stig. Í keppninni í Hockenheimring tóku þátt 120 lið og 3.700 nemendur allsstaðar að úr veröldinni.

mbl.is