Verði bannaðir frá 2032 í stað 2040

Tekist er á um hvenær uppræta skulil bíla með brunavélar.
Tekist er á um hvenær uppræta skulil bíla með brunavélar.

Viðskipta-, orku- og iðnaðarnefnd neðri deildar breska þingsins vill að ríkisstjórnin færi áformað bann við sölu bíla með brunavélum fram til ársins 2032 í stað 2040.

Í skýrslu gagnrýnir nefndin stjórnina fyrir „ómarkvissa og metnaðarlausa stefnu varðandi mengunarfría bíla.  Sömuleiðis fyrir skort á hleðslustaurum fyrir rafbíla og almennt hægan vöxt rafbílavæðingarinnar.

Forsvarsmaður rafhleðslufyrirtækisins BP Chargemaster, David Martell, segir að þingnefndin byggi á úreltum gögnum því staðan væri betra en hún ætlaði.   

Formaður þingnefndarinnar, Rachel Reeves, segir að ríkisstjórnin þurfi að sýna með aðgerðum að hún meini það sem hún segi því Bretar séu ekki í fararbroddi rafbílavæðingarinnar.

Hún sagði að með því að setja sölubann á dísil- og bensínbíla frá og með 2032  myndu Bretar sýna að þeim væri alvara í að verða forystuþjóð á sviði rafbílavæðingar.

Breskum bílgreinum finnst ákall þingnefndarinnar óraunhæft. „Markmiðið um 2040 var risa áskorun,“ segir Mike Hawes, framkvæmdastjóri bílgreinasamtakanna Society of Motor Manufacturers and Traders (SMMT). „Að ætla að flýta því um átta ár jaðrar við hið ómögulega. Bílar sem losa enga mengun í útblæstri eru aðeins 0,6% bíla á götunum, sem þýðir að löngun neytenda þarf að aukast um 17.000 prósent á aðeins áratug. Það er óraunhæft,“ bætir Hawes við.

Birting skýrslunnar siglir rakleitt í kjölfar þeirrar ákvörðunar samgönguráðuneytisins í London að hætta niðurgreiðslum til kaupa á tengiltvinnbílum.  Það segir bílgreinin „sláandi“ ákvörðun.

mbl.is