Lækkun gjalda myndi yngja bílaflotann

„Við erum nýliðar á markaði þar sem allir keppinautar eru …
„Við erum nýliðar á markaði þar sem allir keppinautar eru áratuga gamlir og erum sáttir við fyrstu þrjú árin okkar,“ segir Sigurður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppnin er hörð, íslenski markaðurinn sveiflukenndur og alls ekki sjálfgefið að rekstur nýs bílaumboðs gangi vel. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að á þriggja ára Jeep-, RAM- og Fiat-umboðsins í Mosfellsbæ stendur ÍSBAND með blóma.

Sigurður Kr. Björnsson, markaðsstjóri ÍSBAND, segir margt hafa hjálpað fyrirtækinu á þessum tíma. Þannig hafi Fiat Chrysler-bílasamsteypan (FCA) sett á markað áhugaverð ökutæki sem fallið hafa í kramið hjá íslenskum neytendum, og þá hafi margir góða reynslu af gæðum og áreiðanleika þeirra bandarísku og ítölsku bíla sem FCA smíðar.

„Við erum nýliðar á markaði þar sem allir keppinautar eru áratuga gamlir og erum sáttir við fyrstu þrjú árin okkar. Við ætlum að byggja fyrirtæki okkar upp hægt og örugglega, bjóða upp á áhugaverða bíla og bjóða upp á góða og persónulega þjónustu,“ segir Sigurður.

Kaupendur vilja öryggi

„RAM-pallbílarnir eru þeir bílar sem við höfum selt mest af undanfarin tvö ár. Með tilkomu ÍSBAND sem umboðsaðila RAM á Íslandi hefur RAM tekið forystu í flokki stórra pallbíla. Ljóst er að flestir kaupenda kjósa að versla við umboðsaðila og kunna að meta það öryggi sem því fylgir,“ segir hann. „Allar okkar bifreiðar eru seldar með verksmiðjuábyrgð sem þýðir m.a. að ef gallar koma í ljós svo að innkalla þarf bíla þá er það allt gert eigendunum að kostnaðarlausu.“

Sigurður bendir á að oftast sé það raunin með bíla sem keyptir eru á gráa markaðinum að tengslin milli framleiðanda og kaupanda rofna svo að nýr eigandi fær engar tilkynningar um innkallanir eða aðra eftirfylgni frá framleiðanda. „Þá er hætt við að kostnaðurinn af viðgerðum vegna galla lendi allur á kaupandanum og á það við um bíla sem seldir eru í Ameríku og Kanada að ábyrgð framleiðanda gildir eingöngu þar og ekki í öðrum löndum.“

Meðal þess fyrsta sem ÍSBAND þurfti að gera til að fá umboð fyrir FCA var að koma upp fullkomnu þjónustuverkstæði og þjálfa starfsmenn samkvæmt ströngustu stöðlum samsteypunnar: „Því til viðbótar þarf að eiga til lager af helstu vara- og auakhlutum, og öll þau sérverkfæri sem þarf til að þjónusta hverja tegund,“ útskýrir Sigurður. Sem umboðsaðili þjónustum við einnig Alfa Romeo, Chrysler og Dodge, en þjónustuverkstæði okkar sinnir jafnframt öllum tegundum bifreiða. Um 75% húsbíla frá Evrópu byggjast á Fiat Ducato og sinnum við þjónustu á þeim bílum. Að auki eigum við í samstarfi við þjónustuaðila hringinn um landið.“

Íslenskar aðstæður kalla á jeppa

Eins og fyrr var getið er eitt af því sem hjálpað hefur ÍSBAND að styrkja stoðirnar þrjú undanfarin ár að vel heppnaðir bílar hafa komið af færibandi FCA, s.s. Jeep Renegade, Jeep Compass og Jeep Cherokee og Jeep Grand Cherokee sem þykja eins og sniðnir að íslenskum aðstæðum og með alvöru jeppaeiginleika í akstri. „Það vill bera á því að sumir keppinautar okkar gæta ekki nægilegrar nákvæmni þegar þeir kalla bílana sína jeppa. Má deila um hversu ströng skilgreiningin á jeppum þarf að vera en er þó alveg lágmark að jeppi sé fjórhjóladrifinn. Það eru bílarnir frá Jeep og Ram svo sannarlega og tiltölulega auðvelt að hækka þá til að geta tekist enn betur á við erfið akstursskilyrði.“

Samtalið færist yfir í hvað það er sem íslenskir neytendur leita að þegar þeir kaupa sér bíl og segir Sigurður að veðráttan í vetur hafi minnt rækilega á að það er ekki að ástæðulausu að Ísland skuli vera mikill jeppamarkaður. Getur það jafnvel gerst að slæm færð torveldi samgöngur í þéttbýli, – hvað þá í dreifbýli. Hann segir flesta þá rafmagnsbíla sem eru fáanlegir í dag henta illa fyrir langar ferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið enda hafi ekki nægjanleg uppbygging innviða átt sér stað. Eins hafi kaupendur rekið sig á að margir rafmagns- og tengiltvinnbílar henti síður til dráttar og aksturs í torfærum. „Með tækniframförum komandi ára muni þetta eflaust breytast og innviðir batna, en þangað til þurfa landsmenn að kaupa bíla sem raunverulega þjóna þörfum þeirra.“

Ávinningur af lægri gjöldum

Sigurður bendir jafnframt á að gjaldaumhverfi bílamarkaðarins bitni hvað harðast á þeim sem þurfa á stórum bílum að halda til að takast á við þunga færð og erfiða vegi. Þá eru gjöldin það há að þau hægja á endurnýjun íslenska bílaflotans svo að hann er með þeim elstu í Evrópu, ef ekki sá elsti. „Mig grunar að ef stjórnvöld myndu lækka gjöldin þá myndi það örva söluna svo að tekjur ríkissjóðs ykjust. Því myndi þó fylgja sá ávinningur fyrir neytendur að komast í sparneytnari og öruggari bíla,“ segir Sigurður en meðalaldur íslenskra bíla er vel yfir 12 ár. „Bæði hafa orðið miklar framfarir í hönnun véla svo að bílar í dag fara mun betur með eldsneytið en fyrir 12 árum, en mestar eru þó framfarirnar í þróun öryggisbúnaðar sem t.d. vaktar aksturinn og grípur inn í þegar stefnir í árekstur. Væri forvitnilegt að reikna út þjóðhagsleg áhrif þess ef yngri og fullkomnari bílafloti drægi úr slysum á fólki.“

„Mig grunar að ef stjórnvöld myndu lækka gjöldin myndi það …
„Mig grunar að ef stjórnvöld myndu lækka gjöldin myndi það örva söluna svo að tekjur ríkissjóðs ykjust.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: