Ítalirnir hafa snúið aftur

Sýningarsalurinn er ekki stór en mjög huggulegur og rúmar allmörg …
Sýningarsalurinn er ekki stór en mjög huggulegur og rúmar allmörg hjól, bæði ný og notuð. Scrambler í viðbragðsstöðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir langt hlé eru Ducati-mótorhjól aftur fáanleg á Íslandi og fyrir skemmstu voru fyrstu fjögur hjólin, nýkomin til landsins, tekin úr kössunum hjá Italis við Álfhellu 4 í Hafnarfirði.

Að innflutningnum standa þeir Unnar Már Magnússon og Björgvin Unnar Ólafsson, og óhætt að segja að það hafi kætt íslenska mótorhjólaunnendur þegar það kvisaðist út að þessi ítölsku eðalhjól skyldu hafa eignast nýjan samastað.

Eflaust muna margir lesendur að Ducati-hjól voru seld á Íslandi á fyrsta áratug þessarar aldar. Í byrjun var það fyrirtækið Dælur sem hreppti umboðið, sem svo færðist yfir til Ptt ehf. sem seldi hjólin fram til 2006. Þá fór umboðið til bílaumboðsins Sögu sem söng sitt síðasta í bankahruninu. Með þrautseigju tókst að tryggja að íslenskir eigendur Ducati-mótorhjóla hefðu aðgang að varahlutum eftir lokun Sögu, en öll plön um að opna nýtt Ducati-umboð strönduðu á því að kröfur ítalska framleiðandans um umgjörð og aðbúnað hentuðu illa smáum markaði eins og þeim íslenska.

Örlögin höguðu því þannig að fjölskylda Unnars eignaðist hluta af þrotabúi Sögu, og með því öll gögn tengd viðskiptum Ducati á Íslandi auk ýmiss konar tækjabúnaðar eins og bilanagreiningatölvu. Upp úr því hófust viðræður við Ducati að nýju og tókst á endanum að fá undanþágu frá ýtrustu kröfum Ítalanna. Skemmdi ekki fyrir að Unnar og Björgvin eru miklir reynsluboltar með langa sögu í mótorhjólasporti, og hefur Unnar Már um árabil flutt inn mótorhjól frá Aprilia.

Beintengd við götuna

Björgvin og Unnar stilla sér upp við Panigale. Langt er …
Björgvin og Unnar stilla sér upp við Panigale. Langt er síðan Ducati-mótorhjól voru síðast flutt inn til landsins mbl.is/Kristinn Magnússon


Að margra mati ber Ducati höfuð og herðar yfir aðra mótorhjólaframleiðendur enda fyrirtækið þekkt fyrir að smíða einstaklega falleg, kraftmikil og vönduð mótorhjól. „Enginn framleiðandi státar af sömu velgengni og Ducati í keppnum á fjöldaframleiddum mótorhjólum, og fyrirtækið er m.a. þekkt fyrir hugvitsamlega vélarhönnun þar sem þannig er búið um ventlana að armur bæði opnar þá og lokar svo að vélin gengur af meiri nákvæmni og ræður betur við háan snúning,“ útskýrir Unnar. „Þá velur Ducati bestu fáanlegu parta í hjólin sín og notar t.d. fjöðrun frá Öhlins og bremsubúnað frá Brembo svo ökumenn finna yfirleitt greinilegan mun þegar þeir t.d. grípa í bremsuna.“

Akstursupplifunin er þannig að ökumenn tala um að á Ducati séu þeir beintengdir við götuna, og svörunin sem ökutækið veitir þykir ekki eins og hjá öðrum hjólum. „Svo held ég að það undirstriki vel hvað mótorhjólin frá Ducati eru fallega hönnuð að þau eru oftast einlit og þurfa ekkert frekara skraut, en aðrir framleiðendur mála alls kyns strípur og mynstur á sín hjól til að gera þau flottari.“

Ducati smíðar breiða línu mótorhjóla, sem spannar allt frá langferðahjólinu Multistrada yfir í kappakstursbrautarhjólið Superleggera og götuhjólið Scrambler. Nýlega bættist meira að segja við Ducati-rafmagnsreiðhjól sem framleitt er í þremur útfærslum. Unnar segir að kórónuveirufaraldurinn hafi valdið töluverðri röskun á starfsemi verksmiðju Ducati á Ítalíu en þar er framleiðsla núna að komast aftur í eðlilegt horf svo að framboðið á nýjum hjólum ætti fljótlega að verða í samræmi við eftirspurn. „Á meðan ítalska verksmiðjan er að taka við sér getum við nýtt okkur lager systurumboðs okkar í Danmörku en þar eru flest ef ekki öll ný hjól fáanleg og geta verið komin til landsins á um tveimur vikum,“ útskýrir Unnar.

Mikið í hjólin lagt

Vígalegur og kröftugur XDiavel bíður eftir að vera hleypt út …
Vígalegur og kröftugur XDiavel bíður eftir að vera hleypt út í sumarið. mbl.is/Kristinn Magnússon


Ducati-mótorhjólin eru alls ekki þau ódýrustu á markaðinum og segir Unnar að þau allra dýrustu og fágætustu séu varla nema á færi þeirra sem þurfa ekki að hefa neinar áhyggjur af peningum. „Scrambler-línan, sem bættist við árið 2015, var m.a. hugsuð til þess að gera fleirum mögulegt að eignast gott Ducati-hjól, enda ódýrari farartæki og erum við t.d. með nýjan Scrambler til sölu á um 1,9 milljónir króna. Þá höfum við Monster í boði á 2,7 milljónir, XDiavel á um 5 milljónir og 214 hestafla Panigale V4S mótorhjól á u.þ.b. 6 milljónir króna.“

Unnar bendir á að þó mótorhjólin kosti sitt þá þykja mótorhjólin peninganna virði enda er mikið í þau lagt. „Japönsku hjólin eru oft notuð til samanburðar og eru ódýrari í grunnútgáfum sínum, en japönsku framleiðendurnir smíða stundum sérútgáfur þar sem þeir t.d. nota hágæða íhluti frá sömu framleiðendum og Ducati og gerist þá oftar en ekki að verðmunurinn hverfur.“

En hvað með fjármögnun og tryggingar á þessum ítölsku draumahjólum? Unnar segir íslenska tryggingamarkaðinn mjög fjölbreyttan og að iðgjöldin virðist aðallega ráðast af því hve margar aðrar tryggingar fólk er með hjá sínu félagi, frekar en að þær ráðist af verði eða gerð hjólsins. „Við höfum rætt við lánafyrirtækin og má búast við að þau meti hverja umsókn fyrir sig, bæði með tilliti til sögu viðskiptavinarins og hvers konar hjól hann ætlar að fá sér. Því er ekki að neita að það er ákveðið frost í lánakerfinu í augnablikinu en þó hægt að reikna með láni fyrir allt að 75% kaupverðs, dreift á allt að fimm ár.“

Ducati-mótorhjólin þykja í algjörum sérflokki. Þau kosta sitt.
Ducati-mótorhjólin þykja í algjörum sérflokki. Þau kosta sitt. mbl.is/Kristinn Magnússon
Mikið er lagt í smíðina.
Mikið er lagt í smíðina.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: