Kolefnislaus bílafloti á heimsvísu fyrir árið 2039

Nýr Mercedes-Benz EQA verður frumsýndur í Öskju í lok mars.
Nýr Mercedes-Benz EQA verður frumsýndur í Öskju í lok mars. Ljósmynd/Askja

„Við teljum að bifreiðar séu og muni áfram verða ferðamáti framtíðarinnar og að þær séu ein af grundvallarforsendum fyrir hreyfanleika einstaklinga og einstaklingsfrelsi – sérstaklega fyrir þá sem búa í dreifbýli, þar sem bifreiðar eru töluvert betri kostur en almenningssamgöngur og annar ferðamáti.“

Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Jörgs Heinermanns, framkvæmdastjóra og ábyrgðaraðila Retail of the future hjá Mercedes-Benz, á opnum streymisfundi Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins á miðvikudaginn. Heinermann fjallaði þar um þá metnaðarfullu vegferð sem bifreiðaframleiðandinn hefur lagt af stað í gagnvart sjálfbærni.

Markmið Mercedes-Benz er að verða algjörlega kolefnishlutlaus fyrir árið 2039 bæði hvað varðar framleiðsluþáttinn og vöruframboðið. Þá er stefnan einnig sett á að meira en helmingur seldra bifreiða verði tengiltvinnbílar eða rafbílar árið 2030.

Tíu hreinir rafbílar fyrir lok næsta árs

„Sem framleiðandi erum við meðvituð um að við verðum að leita nýrra leiða til að útvega slíkan ferðamáta sem tekur mið af hinum augljósu vandamálum sem mannkynið glímir við. Við verðum að leita nýrra leiða og nýrra lausna þegar kemur að knúningsafli,“ bætti hann við.

Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju og stjórnarmaður í Þýsk-íslenska viðskiptaráðinu, sá um fundarstjórn. Askja er með umboðið fyrir Mercedes-Benz-bíla á Íslandi og hefur Jón Trausti því góða innsýn í markmið framleiðandans.

„Það er mikið að gerast hjá Mercedes-Benz þessa dagana og mikið fram undan. Þetta eru hrikalega spennandi tímar,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið um áðurnefnd markmið um kolefnishlutleysi. „Þá er einnig mjög áhugavert að sjá að strax í lok næsta árs verða þeir komnir með tíu hreina rafbíla. Við erum nú þegar hjá Öskju með þrjá slíka í boði og í lok þessa árs verða þeir orðnir sjö talsins. Allt frá smærri bílum upp í stóra bíla,“ bætir hann við.

Heinermann fór yfir þær áskoranir og þær spurningar sem fylgja orkuskiptum bílaflotans, þá sérstaklega hvað varðar skiptin yfir í rafmagnsbíla. Sem dæmi um slíkar áskoranir nefndi hann drægni, líftíma rafhlaða og kostnað. Hins vegar tók hann fram að nútímatækni á bak við vélar í bílum væri afrakstur um 130 ára þróunar, það væri því engin ástæða til að ætla annað en að þessar áskoranir yrðu leystar á næstu árum.

Aðgangur að hleðslustöðvum er grunnforsenda fyrir því að hægt sé að fjölga rafbílum og í því samhengi nefndi Heinermann að markmið þýskra yfirvalda væri að koma upp einni milljón hleðslustöðva fyrir árið 2030. Á Íslandi væru aðstæður þó góðar þar sem aðgangur að ódýru rafmagni væri ekki vandamál og það væri þegar búið að setja upp mikinn fjölda hleðslustöðva á hringveginum.

Ísland stendur framarlega

Aðspurður segir Jón Trausti að Íslendingar standi flestum þjóðum framar hvað þetta varðar.

„Ég held að Ísland sé komið mun lengra en aðrar þjóðir. Við erum kannski ekki ennþá búin að ná Norðmönnum en við erum á hraðri leið að elta þá uppi. Horfandi á uppbyggingu eins og hjá Orku náttúrunnar, N1 og fleirum þá er Ísland á góðri leið með að verða mjög vel búið innviðum fyrir rekstur rafbíla,“ segir hann og bætir við:

„Rafbílar og ekki síður tengiltvinnbílar henta íslenskum aðstæðum afar vel. Önnur og þriðja kynslóð tengiltvinnbíla er með mikla drægni á rafmagni, allt að 100 kílómetra, sem hentar þeim fullkomlega sem búa hér og vilja ferðast um landið. Þú getur keyrt nánast allan þinn daglega akstur á rafmagni.“

Að lokum segist Jón Trausti þess fullviss að ekki sé langt í rafbíla sem henta fyrir íslensk fjöll og fjallaferðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: