Verulega dregið úr skráningu nýrra fólksbíla

83,7% færri rafbílar voru skráðir í mars í ár heldur …
83,7% færri rafbílar voru skráðir í mars í ár heldur en í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Verulega hefur dregið úr skráningu nýrra fólksbíla hér á landi. Skráðir voru 532 nýir fólksbílar í mars miðað við 1.832 í sama mánuði í fyrra. Samdrátturinn nemur 71%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Þar segir einnig að ef horft er til fyrstu þriggja mánaða ársins hafi nýskráning fólksbíla dregist saman um 60,4% á milli ára. Það sem af er ári hafi verið skráðir 1.386 nýir fólksbílar en á sama tíma í fyrra voru skráðir 3.500.

Ökutækjaleigur skráðu 205 fólksbíla í nýliðnum marsmánuði en skráðu 849 í mars 2023. Er það samdráttur um 75,7%.

Dregið úr skráningu rafbíla

Mest hefur dregið úr skráningu rafbíla, miðað við bíla sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum. 83,7% færri rafbílar voru skráðir í mars í ár heldur en í fyrra.

Samt sem áður voru skráðir fleiri rafbílar þennan mánuðinn heldur en hjá nokkrum annars konar bifreiðum. Hlutfall rafbíla af nýskráðum bílum í mars var 28,6%.

„Næst á eftir eru nýskráningar dísil fólksbíla sem eru 26,5% af skráningum í mars í ár. Hafa skráningar þeirra dregist töluvert minna saman eða um 30,5% milli mars í ár og mars í fyrra,“ segir í tilkynningu Bílgreinasambandsins.

Á eftir dísilbílum koma tengiltvinnbílar sem voru 22% nýskráðra fólksbíla í mars. 30,8% færri slíkir bílar voru skráðir í mánuðinum miðað við í sama mánuði í fyrra.

Dacia vinsælasti fólksbíllinn í mars

Mest selda tegund fólksbíla í mars var Dacia, en skráð var 71 bifreið af þeirri tegund í mánuðinum. Næst á eftir var Hyundai með 57 bíla og þar á eftir Kia og Tesla með 51 bíl seldan hvor fyrir sig.

„Það sem af er ári er mest selda tegundin Toyota með 15,9% markaðshlutdeild, Dacia þar á eftir með 10,1% og þriðja mest selda tegundin í ár er KIA með 8,1% markaðshlutdeild.“

mbl.is