Þú þarft að vera í lagi fyrir sjálfan þig

Andri er í frábæru formi í dag en það hefur …
Andri er í frábæru formi í dag en það hefur hann ekki alltaf verið. Ljósmynd/Aðsend

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að fyrir einungis nokkrum árum hafi Andri verið líkamlega og andlega við dauðans dyr.

Hann segir að fyrstu þrjátíu ár lífsins hafi hann lifað í stöðugri þjáningu, þar til hann hafi gefist upp á að láta aðra lækna sig og fengið nóg.

„Ég hef heyrt af fólki sem ég stuða með orðatiltækinu að hætta að væla og koma og kæla og ég skil það vel. Ég hef 30 ára reynslu í væli og kann það manna best. Það er frá þeim stað sem ég leyfi mér að benda á lausnina mína. Ekki af því aðrir hafi rangt fyrir sér og ég rétt. Heldur af því að við höfum öll rétt fyrir okkur. Það sem þú hugsar verður að þínum veruleika. Hann er alltaf sá rétti fyrir þig. Það sem við hugsum verður að veruleika. Þetta með að hætta að væla bjargaði mínu lífi, enda var kominn tími á uppfærslu á Windows '95-kerfinu sem hafði verið starfandi innra með mér lengi.“

Andri er stöðugt að uppfæra sig og segir sjálfan sig eitt stórt efnafræðibúnt.

Hver er saga þín?

„Í stuttu máli þá datt ég á milli hæða og lenti á grindverki þegar ég var 13 ára að aldri. Ég lamaðist fyrir neðan mitti í tvær klukkustundir þar sem ég fékk eins konar mænusjokk en komst fljótt aftur á fætur. Það kom síðan seinna í ljós að ekki var allt með felldu. Ég upplifði mjög mikinn sársauka þegar ég fór að taka út vöxt. Í raun frá haus niður í tær.“

Missti viljann til að lifa

Andri lýsir lífshlaupi sínu í ein 30 ár með stöðugan sársauka, bólgur og vanlíðan. Hann var á mörgum ólíkum lyfjum, var 30 kg þyngri en í dag og daglega leið yfir hann svo eitthvað sé nefnt.

,,Á þessum árum eignaðist ég fjölskyldu og tvö börn. Það var ótrúlega dýrmætt, en ég missti hægt og rólega lífsviljann og ákvað loks að það væri kominn tími til að stimpla mig út úr þessari veröld.“

Í dag eru fjögur ár síðan Andri stóð á þessum tímamótum. Hann hafði prófað allt, leitað víða og fann enga leið út úr ástandinu.

,,Í eitt skiptið hitti ég lækni sem taldi mig með MS-sjúkdóminn og ég man hvað mér þótti það góðar fréttir, ég væri þá allavega kominn með greiningu á ástandi mínu og gæti unnið út frá því. Mér fannst ég á þessum tíma algjör aumingi; ég var úttaugaður og verkjaður og var að missa allt frá mér. Viljann til að lifa líka.“

Rassinn eins og á gömlum manni

Það var á þessum stað sem Andri heyrði fyrst af Wim Hof. „Rassinn á mér var orðinn eins og á 90 ára gömlum karli, enda hafði ég ekki hreyft mig mikið vegna verkja á fullorðinsaldri. Bróðir minn benti mér á þetta námskeið hjá Primal, eða Movement improvement eins og það heitir núna. Hálftíma seinna pantaði ég mér námskeið í þrjá mánuði, henti öllum lyfjunum mínum og upplifði í kjölfarið tvær vikur af algjöru helvíti á jörðu. Bæði voru hreyfingarnar erfiðar, lyfin farin og allt að breytast. En ég hélt mér við mitt, þetta var mín lokatilraun hér á jörðinni.“

Andri mætti 30 mínútum fyrir tímana og hélt áfram 30 mínútum eftir þá. Eitt skiptið heyrði hann strákana tala um ísböð og ísmanninn Wim Hof. „Ég spurði þá hvort þeir væru að tala um klikkaða ísgaurinn og þeir sögðu mér að hætta þessu væli og skoða það sem hann væri að gera.“

Þetta var þá í annað skiptið sem Andra var sagt að hætta að væla – eftir að hann byrjaði á nýjum kafla í sínu lífi.

Wim Hof kom að notum

„Ég skoðaði efnið í kringum Wim Hof ofan í kjölinn og sá að þetta byggðist á vísindum og virtist virka. Á þessum tíma hafði ég ekki getu til að setja litla puttann ofan í kalt vatn.“

Andri sleppti tökunum, eins og hann segir sjálfur, ofan í kalda vatninu.

,,Þetta var í fyrsta skiptið sem ég fékk algjöran frið í hugann og taugakerfið slakaði á. Þá fékk ég staðfestingu á því hvað hægt er að gera með huganum, kulda og réttum öndunaræfingum.“

Andri tók tíu vikna námskeið á netinu hjá Wim Hof. Hann lýsir því þannig að hann hafi byrjað á því að fara í kalda sturtu, síðan fór hann í potta með klaka í. „Það var á þeirri stundu sem ég fann hvað allt breyttist í mínu lífi. Á þremur vikum fóru 90% af bólgunum úr bakinu á mér, nánast allir taugaverkirnir fóru sem og mígrenið sem hafði verið fastur hluti af tilverunni.“

Andri í frábærum félagsskap með Ísmanninum Wim Hof.
Andri í frábærum félagsskap með Ísmanninum Wim Hof. Ljósmynd/Aðsend

Kuldinn tók bólgurnar

Andri hefur ekki þurft að fara á spítala síðan þarna. Kuldinn tók bólgurnar sem ollu ójafnvægi í líkamanum.

„Bólgurnar fóru aldrei, sama hvað ég tók inn af lyfjum. Hins vegar tók kalda vatnið þær. Svo ég fór að geta hreyft mig meira. Enda gerist ekki neitt þegar maður gerir ekki neitt sjálfur. Ég var búinn að gefa frá mér valdið yfir lífi mínu þar sem ég taldi að einhver annar gæti læknað mig. Hins vegar var eitthvað innra með mér sem sagði: Hvað ef þetta gæti virkað fyrir þig? Hvað ef?“

Hvaða ráð áttu um páskana fyrir þá sem eru fastir á sama stað og þú varst?

„Uppfærðu Windows '95 sem þú keyrir á. Þú fékkst í gjöf frá foreldrum þínum, skólakerfinu, vinum og fleirum alls konar hugmyndir og hefðir. Farðu að skoða allt sem þú hugsar og sorteraðu út. Settu spurningarmerki við allar neikvæðar hugmyndir um þig. Síðan mæli ég með að þú hættir að væla og komir að kæla. Ég er ekki að segja það í hroka heldur er ég lifandi dæmi um mann sem þessi setning hjálpaði. Himnarnir eru ekki takmörk okkar heldur hugsanirnar okkar.“

Svona vann hann á yfirliðinu

Að lokum útskýrir Andri hvernig hann sigraðist á daglegum svima og yfirliði. „Út af slysinu mínu leið yfir mig daglega. Þegar ég stóð upp datt ég niður. Það sem var að gerast hjá mér var að taugarnar gleymdu að segja stóru vöðvunum að klípa um æðarnar í fótunum og af þeim sökum varð ákveðið þrýstingsfall. Ég hafði fengið þær upplýsingar að það væri ekki hægt að gera neitt í þessu, að ég ætti einvörðungu að standa rólega upp og beygja mig fram. Þegar ég hafði fengið bata minn var þetta það eina sem stóð eftir hjá mér. Ég lá heima á gólfinu fyrir tveimur árum, ótrúlega reiður og sár yfir því að þetta væri ennþá að gerast og hugsaði með mér að ég nennti þessu ekki lengur. Ég sló í fótinn á mér nokkrum sinnum og sagði honum að vakna. Að fæturnir ættu að gera það sem þeir ættu að gera. Síðan hef ég ekki upplifað þessi yfirlið aftur. Ef ég finn fyrir svima byrja ég bara að slá mig í fæturna og segi þeim hvað þeir eigi að gera. Þannig kveiki ég á skilaboðum líkamans og breyti starfsemi hans með hugsunum og tjáningunni einni saman.“

Það gerir það enginn fyrir þig

Andri segir að sem lífsþjálfi vinni hann með fólki daglega fyrir sjálfan sig og aðra. Hann er ekki leiðtogi heldur þjálfi. Hann lifir ekki á bleiku skýi heldur er stöðugt að endurskoða hvernig hann gerir hlutina sjálfur. Eins gefur það lífi hans gildi að geta gefið það sem hann öðlaðist áfram til annarra. „Af því bara“ er ein mesta bullregla sem til er að mínu mati. Verðtryggingin á Íslandi, er eitt af þessu „af því bara“. Ég leyfi engu slíku að lifa innra með mér.“

Ráðleggingar Andra um páskana eru að fólk skrifi niður nafnið sitt og svari eftirfarandi spurningum: Af hverju verð ég reiður? Af hverju finn ég til hamingju? Af hverju verð ég sár? „Ef þú veist ekki svarið við einhverju af þessu – þá er það bara bull. Það er endalaust bull í gangi inni í hausnum á okkur. Ef við erum það sem við hugsum er eins gott að hugsanir okkar séu okkar eigin, ekki komnar frá einhverjum öðrum og gagnast okkur ekki lengur. Það er enginn sem hefur bakið þitt nema þú. Ert þú í lagi? Elskar þú sjálfan þig? Fæstir gera það, því miður, og ég er ekki að vera gagnrýninn þegar ég segi þetta. Þú þarft bara að vera í lagi fyrir sjálfan þig, það gerir það enginn fyrir þig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert