Hafnargata, aðalverslunargatan í Keflavík, er komin í Hollywood-búning. Nú standa þar yfir tökur á fjórðu þáttaröð True Detective en þetta eru umfangsmestu kvikmyndatökur sem farið hafa fram á Íslandi. Blaðamaður mbl.is skellti sér til Keflavíkur.
Við götuna er nú að finna skotvopnaverslun, spilavíti, bankann Wells Fargo sem margir kannast við úr Bandaríkjunum og ekta ameríska veitingastaði. Veitingastaðurinn Paddy's er lokaður tímabundið og heitir hann nú QAVVIK'S Burger Joint.
True North sér um framleiðsluna hér á Íslandi og hefur framleiðslufyrirtækið tekið fjölda verslana og veitingastaða á leigu við Hafnargötu. Hefur stöðunum verið lokað á meðan og þeir klæddir upp í Alaska-búning.
Það eru þó ekki allar verslanir götunnar í kvikmyndaham. Guðrún Reynisdóttir, eigandi Gallerís Keflavík, segir gaman að fylgjast með öllu umstanginu. „Þetta er alveg gaman, en þetta er ekkert það sem við óskuðum okkur á þessum tíma,“ segir Guðrún sem var í óðaönn að taka upp nýja sendingu fyrir jólin þegar blaðamaður fékk að hlýja sér inni í verslun hennar.
Færri koma inn af götunni þegar lokað er fyrir bílaumferð í miðbænum, en Guðrún segir þó að margir hafi verið á ferli síðustu kvöld til að fylgjast með.
Hafnargatan var opin til klukkan 15 í gær og dag, og einnig á morgun. Á fimmtudag verður gatan lokuð allan daginn. Það er þó ekki lokað í Gallerí Keflavík sem er í útjaðri tökustaðarins.
„Ég held að það sé aldrei góður tími fyrir þetta. Þetta hefur áhrif á alla, ekki bara okkur sem erum hérna við þessa götu,“ segir Guðrún. Halda átti kósíkvöld í götunni hinn 1. desember, en því hefur verið frestað til 8. desember. Þá hefur framleiðslufyrirtækið gert þeim kleift að auglýsa kvöldið betur.
Guðrún hefur ekki enn náð að sjá Jodie Foster, sem fer með aðalhlutverk í þáttunum. Spurð hvort Foster hafi ekki dottið inn um dyrnar að leita sér að jólakjól sagði hún: „Nei, en hver veit? Það væri nú ekki leiðinlegt,“ segir Guðrún.
Fjóla Þorkelsdóttir, sem rekur verslunina Fjóla gullsmiður við Hafnargötu, sagði einnig að það væri gaman að fylgjast með öllu umstanginu þó það hefði vissulega áhrif á verslunina að lokað væri fyrir bílaumferð frá klukkan 15. Á fimmtudag þarf hún svo að loka verslun sinni og fyrir gluggana verða settar nýjar merkingar.
„Ég vona bara að þetta hafi eitthvað jákvætt og skemmtilegt fyrir bæjarfélagið í för með sér,“ segir Fjóla. „Mér finnst gaman að fylgjast með þessu. Það er svo mikið líf í kringum þetta. Í gær var stappað af bílum, sendibílum og þjónustubílum,“ segir Fjóla.