Friðjón Árni Sigurvinsson, starfsmaður Samherja á Dalvík, fer með aukahlutverk í fjórðu þáttaröð True Detective sem verið er að taka upp á Dalvík um þessar mundir. Friðjón má ekki mikið segja um aðkomu sína að þáttunum en í tilkynningu á vef Samherja segir að hann hafi þurft að raka af sér skeggið fyrir hlutverkið.
„Annars má maður ekkert segja, trúnaðurinn í kringum svona lagað er mikill. Jú, ég verð að viðurkenna að ég þurfti að raka af mér skeggið vegna hlutverksins en það vex aftur,“ sagði Friðjón Árni. „Nei, ég á svo sem ekkert von á einhverjum tilboðum frá Hollywood í kjölfarið en auðvitað verður gaman að sjá útkomuna þegar sýningar hefjast. Ég held að þetta verði góð auglýsing fyrir Dalvík,“ sagði Friðjón Árni.
Einnig er rætt við einn verkefnastjóra framleiðanda þáttanna HBO sem lofsamar veruna á Dalvík. HBO fékk afnot af gömlu fiskvinnsluhúsi Samherjaog þar eru nú skrifstofur og leikmunadeild.
„Það er hreint út sagt frábært að vera hérna á Dalvík, allir íbúarnir taka vel á móti okkur og leggja sig fram um að gera alla vinnu sem þægilegasta. Sömu sögu er að segja um sveitarfélagið og öll fyrirtæki, sem eru boðin og búin til að greiða götu okkar á allan hátt. Við segjum stundum að gamni að smábærinn sé í Dalaska en ekki í Alaska, sem undirstrikar hversu heppin við erum með alla aðstöðu hérna á Dalvík,“ sagði verkefnastjóri framleiðandans.
Í vinnusal hússins hafa smiðir aðstöðu, málarar og aðrir iðnaðarmenn. „Húsið er algjörlega sniðið að okkar þörfum og við erum afskaplega þakklát Samherja fyrir að hleypa okkur inn í húsið með tiltölulega skömmum fyrirvara,“ segir verkefnastjórinn.
Eins og mbl.is hefur greint frá eru umsvif HBO á Dalvík mikil um þessar mundir. Búið er að breyta útliti fjölda húsa og hefur þurft að loka götum.