Börn geta ekki beðið

Skóli fyrir alla? | 14. september 2019

Börn geta ekki beðið

Eitt af því sem á að gera til þess að bæta stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði er að taka stærðfræðina sömu tökum og lesturinn. Stærðfræðilæsi hefur hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið í PISA árið 2003. Mjög er kvartað yfir flóknum og illskiljanlegum hæfniviðmiðum í aðalnámskrá og segir menntamálaráðherra greinilegt að vinna þurfi betur í framkvæmdinni. 

Börn geta ekki beðið

Skóli fyrir alla? | 14. september 2019

mbl.is/Hari

Eitt af því sem á að gera til þess að bæta stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði er að taka stærðfræðina sömu tökum og lesturinn. Stærðfræðilæsi hefur hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið í PISA árið 2003. Mjög er kvartað yfir flóknum og illskiljanlegum hæfniviðmiðum í aðalnámskrá og segir menntamálaráðherra greinilegt að vinna þurfi betur í framkvæmdinni. 

Eitt af því sem á að gera til þess að bæta stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði er að taka stærðfræðina sömu tökum og lesturinn. Stærðfræðilæsi hefur hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið í PISA árið 2003. Mjög er kvartað yfir flóknum og illskiljanlegum hæfniviðmiðum í aðalnámskrá og segir menntamálaráðherra greinilegt að vinna þurfi betur í framkvæmdinni. 

„Við þurfum að vera tilbúin að fjárfesta í menntakerfinu og gæta þess að mikilvægasta starfsfólkinu okkar, kennurunum, sé umbunað og þeir starfi við góðar aðstæður. Við keppum að því að starfsumhverfi kennara á öllum skólastigum verði framúrskarandi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Ásókn í kennaranám hefur stóraukist en allt stefndi í að það myndi vanta 2.300 kennara til starfa árið 2030.

Hún segir að þetta eigi að vera samvinnuverkefni alls samfélagsins og þar sé enginn undanskilinn. „Álagið hefur aukist í breyttu samfélagi og við verðum að vera þátttakendur í því að móta framtíð barna og ungmenna. Ekki varpa ábyrgðinni alfarið á skólann heldur á þetta að vera verkefni okkar allra. Þannig náum við bestum árangri,“ segir Lilja sem hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að kennarastarfið sé mikilvægasta starfið í íslensku samfélagi.

Að sögn Lilju hafði hún meðal annars í huga finnsku aðferðina þegar hún tók við starfi menntamálaráðherra en megininntak hennar er að umbætur á skólakerfum snúist um að skapa ungu fólki ákjósanlegar aðstæður til að verða áhugasamir námsmenn, ánægðir einstaklingar og skilningsríkir og hugmyndaríkir borgarar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, horfir meðal annars til Finnlands …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, horfir meðal annars til Finnlands þegar kemur að menntamálum. mbl.is/Hari

„Lykillinn að því að skólakerfið sé framúrskarandi er að fólk geri sér grein fyrir þessari miklu auðlind, kennurunum. Þetta byggist allt á þeim. Við þurfum að taka afstöðu til alls konar erfiðra siðferðislegra spurninga á næstu misserum. Til þess verðum við að vera með samfélag sem er vel upplýst og getur rýnt sér til gagns. Niðurstöður PISA-könnunarinnar árið 2015 sýndu að 29% íslenskra drengja væru í lægstu hæfniþrepum prófsins og gætu ekki lesið sér til gagns. Annað sem kemur fram í PISA er mikil fækkun afburðanemenda og að nemendum með litla getu hefur fjölgað. Haustið 2015 var sett af stað þjóðarátak um læsi og núna ætlum við að skipa fagráð í stærðfræði. Við verðum að taka stærðfræðina sömu tökum og við erum að taka lesturinn,“ segir Lilja, sem er mjög hlynnt lesfimiprófunum sem lögð eru fyrir þrisvar yfir veturinn í grunnskólum landsins.

„Ég vil að við förum í svipaðar aðgerðir í stærðfræði þannig að þrisvar yfir veturinn geti foreldrar og börn fylgst með í stærðfræði. Stærðfræðilæsi hefur hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið í PISA árið 2003. Af hverju er þetta svona? Þetta er alvarlegt og ekki boðlegt. Ég hef verulegar áhyggjur af stöðu Íslands í samanburði við önnur ríki, ekki endilega hvaða stig við erum að fá heldur hver staða okkar er í samanburðinum,“ segir Lilja.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Menntun er mannréttindi

Skóli án aðgreiningar snýst um grundvallaratriði, það er að menntun er mannréttindi. Öll umræða um skóla án aðgreiningar verður að ganga út frá þessari sýn okkar um að menntunin eigi að vera fyrir alla en síðan er mismunandi hvernig við skipuleggjum hana, segir Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum, en Íslendingar hafa fest í lög að allir eigi rétt á menntun.

Flestir líta á menntun án aðgreiningar sem rétt hvers og eins nemanda. Í samræmi við það er talið eðlilegast að allir nemendur sæki almenna skóla og stunda 98,5% barna á grunnskólaaldri á Íslandi nám í almennum skólum. Hlutfallslega færri nemendur eru í sérskólum og sérúrræðum á Íslandi en víðast annars staðar í Evrópu.

Á sama tíma eru formlegar greiningar á sérþörfum nemenda á Íslandi langt yfir meðallagi OECD-ríkjanna en um 17% íslenskra grunnskólanema eru með greiningar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem unnin var af sérfræðingum Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands njóta tæplega 30% grunnskólanemenda sérkennslu og stuðnings til náms og er meirihluti þeirra með formlega greiningu.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Eitt af því sem sérfræðingar Evrópumiðstöðvarinnar benda á er að menntakerfið í heild sé almennt vel fjármagnað en endurhugsa þurfi ráðstöfun fjármuna þannig að það styðji betur við stefnuna um menntun án aðgreiningar. Ef litið er til OECD-ríkjanna var Ísland í sjötta sæti yfir framlög ríkja til menntamála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu árið 2016.

„Þegar fólk segir að skóli án aðgreiningar sé falleg hugmynd en hún virki ekki þá er fólk að tala um að setja nemendur inn í bekk án þeirra úrræða sem þeir þurfa á að halda. Ekki að tala um að breyta skólastarfinu. Það eru eiginlega allir sammála um að það er ekki í lagi. Það er ekki í lagi að taka nemanda sem þarf á aðstoð að halda og setja hann inn í bekk án aðstoðar. Allt aðrar forsendur eru í litlum hópum en í stórum bekkjum og það eru alltaf einhverjir nemendur sem ekki ráða við þessar stóru bekkjardeildir. En við eigum ekki að fórna hugmyndinni um skóla án aðgreiningar vegna þess að ein útgáfa af henni virkar ekki. Við verðum að leita leiða til að bæta stöðuna í stað þess að henda hugmyndinni, segir Gunnlaugur.

Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum, segir að skóli …
Gunnlaugur Magnússon, lektor við háskólann í Uppsölum, segir að skóli án aðgreiningar þýði að allir eigi rétt á menntun. mbl.is/Hari

Tvö kerfi inni í grunnskólanum

Ragnar Þorsteinsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, segir að þróunin hafi verið sú að við höfum ef til vill myndað tvö kerfi inni í grunnskólanum. Almenna kerfið þar sem um 75% nemenda eru en jafnframt sérkerfi með um 25% nemenda. „Fræðin segja okkur að því betur sem gert er í almenna kerfinu þeim minni sé þörfin í sérkennslunni. En við höfum að einhverju leyti tekið þá stefnu að þrengja þetta almenna norm hér og stækka sérkennsluna. Ef vel ætti að vera ætti þessu að vera öfugt farið. Í dag er það þannig að peningarnir fara frekar í sérúrræðin en ekki inn í almenna kerfið. Þetta hefur þær afleiðingar að fleiri leita inn í sérkennsluna. Ef horft er á grunnskólann sem heild, þá er hann tiltölulega vel fjármagnaður en peningarnir fara aftur á móti ekki þangað sem þeir myndu nýtast best. Verkefni okkar er að breyta þessu á þann hátt að mögulega 85-90% nemenda falli undir almenna úthlutun fjármagns. Við myndum hins vegar jafnframt úthluta fjármagni til barna sem þurfa viðbótarstuðning. Að mínu viti verður það seint þannig að öll börn falli inn í sama hóp og sömu fjárhagsúthlutun,“ segir Ragnar.

Ragnar Þorsteinsson, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, segir að seint falli börn …
Ragnar Þorsteinsson, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, segir að seint falli börn inn í sama formið. mbl.is/Hari

„Á Íslandi eru um 17% nemenda með formlegar greiningar. Ég er ekki á því að það verði að greina ákveðinn hóp barna til þess að tryggja að hann fái rétta þjónustu. En ekki er endilega þörf á að greina alla sem fara í dag í gegnum slíkar greiningar heldur frekar auka skimanir. Þetta gæti fært til fjármagn til aukins stuðnings því greiningar eru dýrar og auk þess myndu biðlistarnir styttast. Þess vegna þurfum við kannski að breyta fjármagnskerfi okkar á þann hátt að auka sveigjanleika innan kerfisins. Að þegar barn kemur inn í skólann sé hægt að mæta því án þess að það sé með formlega greiningu. Því miður eru börn stundum látin bíða eftir þjónustu þangað til greiningin liggur fyrir. Þetta er ekki réttur skilningur á lögunum því samkvæmt þeim á barn rétt á þjónustu með eða án greiningar,“ segir Ragnar.

Lífið er ekki Facebook

Ársæll Már Arnarsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem hefur rannsakað líðan og heilsufar barna og ungmenna, segist oft velta fyrir sér hvort þessi áhersla á greiningar í íslensku menntakerfi sé af hinu góða. Þegar barn sem á í erfiðleikum fær greiningu verður barnið, foreldrar og allt nærumhverfi barnsins fegið. Að vita hvað amar að. En að það þurfi svo oft að bíða eftir greiningunni til að eitthvað sé gert til þess að styðja barnið sé slæmt fyrir alla. Ekki bara viðkomandi barn heldur einnig skólasystkini, kennara og fjölskyldu. „Getum við ekki hugsað: Við þurfum að breyta einhverju og skoða þarfir barnsins án þess að það sé greint með sérþarfir. Greining er orðin töfraorð og í einhverjum tilvikum skiptir hún öllu en í flestum tilvikum held ég að það sé ekki aðalatriðið heldur miklu frekar að bregðast við vanda barnsins. Stundum getur ástandið verið tímabundið, til að mynda þunglyndi. Þetta er hluti af miklu stærra samhengi og við eigum að horfa á einstaklinginn, ekki einhvern stimpil. Lífið er ekki leikur og við erum öll gölluð. Við þurfum að vinna með þessa galla og takmarkanir sem við höfum en þetta er bara hluti af því að vera manneskja og við megum alveg vera alls konar. Lífið er ekki Facebook.

Ársæll Már Arnarsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir að …
Ársæll Már Arnarsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir að eitt af stóru verkefnunum í lífi hverrar manneskju er að takast á við sinn innri mann og þar á meðal kvíða. mbl.is/Hari

Ef við tökum kvíða sem dæmi þá er hann í flestum tilfellum bara eðlileg tilfinning. Þegar ég var að alast upp þekkti ég engan kvíðinn krakka. Maður heyrði bara af örfáum fullorðnum sem voru slæmir á taugum. En auðvitað var fullt af kvíðnum krökkum á þessum tíma, þau höfðu bara ekki orð til að lýsa þessari tilfinningu. Við finnum öll fyrir kvíða og hann er alls ekki slæmur svo lengi sem hann verður ekki alltof mikill hluti af okkur. Eitt af stóru verkefnunum í lífi hverrar manneskju er að takast á við sinn innri mann og þar á meðal kvíða og er hluti af þroska manns,“ segir Ársæll.

Leggja til breytingar

Ragnheiður Bóasdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, segir að greiningar séu að sjálfsögðu nauðsynlegar en færa mætti þjónustuna meira í ráðgjöf og stuðning inn á gólfið líkt og kennarar hafa óskað eftir og þannig sjái sérfræðingar barnið í því ljósi sem það er allan daginn. En læknisfræðilega módelið okkar gengur út á það að barnið fer í biðröð eftir greiningu og síðan viðtal kannski mörgum mánuðum síðar. Eitt af því sem Evrópumiðstöðin leggur til er að leggja áherslu á að draga úr formlegum kröfum um greiningu. Þær hafi oft leitt til þess að helsta leiðin til að veita nemendum sem eiga erfitt uppdráttar í skóla viðeigandi aðstoð er að flokka þá í samræmi við greinda þörf.

Ragnheiður Bóasdóttir, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, segir að Evrópumiðstöðin leggi til …
Ragnheiður Bóasdóttir, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, segir að Evrópumiðstöðin leggi til að draga eigi úr formlegum kröfum um greiningu. mbl.is/Hari

7.069 komur á göngudeild BUGLs

Foreldrar barna sem annaðhvort hafa fengið greiningu eða bíða greiningar sem blaðamaður hefur rætt við að undanförnu segja stöðuna alvarlega. Að bíða án þess að fá þá aðstoð sem kerfinu er ætlað að veita þeim. Börn geta ekki beðið. Þrátt fyrir að allir virðist sammála um að úrbóta sé þörf breytir það ekki því að börn bíða á annað ár eftir greiningum.

Bið eftir greiningum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni er 18 mánuðir en flest þeirra barna sem vísað er á Greiningarstöðina eru með samþættan vanda, þroskafrávik og einhverfu.

Í lok síðasta árs tóku í gildi ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (nr. 38/2018), 14. grein fjallar um Snemmtæka íhlutun og greiningu og hljóðar svo: Verði starfsmenn félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu eða skóla þess áskynja að barn hafi einkenni sem geti bent til skerðingar skal upplýsa forráðamenn um þann grun og samhliða grípa til aðgerða í samráði við þá, þrátt fyrir að greining sérfræðinga liggi ekki fyrir. Skal frumgreining fara fram svo fljótt sem auðið er. Þjónustuaðilar eiga sem sagt að byrja með íhlutun ekki bíða eftir greiningu sem er til bóta bæði fyrir barnið og fjölskyldu þess.

Eftirspurn eftir þjónustu GRR hefur aukist og á seinustu árum hefur fjöldi tilvísana samsvarað 6 til 8% af hverjum árgangi en markhópur stofnunarinna er um 4%, þ.e. þau börn sem ætla má að þurfi aðstoð í daglegu lífi á fullorðinsárum. Þessi eftirspurn er umfram það sem stofnunin getur annað miðað við núverandi fjölda starfsmanna og verklag. Of löng bið er því eftir greiningu og annarri þjónustu stofnunarinnar, segir Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Á árinu fóru af stað tvö verkefni sem miða að því að skoða hvort breytt verklag geti dregið úr fjölda tilvísana og aukið þekkingu í nærumhverfi fjölskyldunnar. Bæði falla þau undir framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Annars vegar er um að ræða samstarfsverkefni sem unnið er undir forystu Reykjavíkurborgar sem miðar að því að setja fram leiðbeiningar um hvaða börn fara í ítarlega greiningu og hver ekki, þróun á samstarfi aðila á milli og fleiri úrbætur í þjónustunni. Hitt verkefnið er á vegum GRR og er markmið þess skilgreina hlutverk og verksvið landshlutateyma í þeim tilgangi að efla þjónustu við fötluð börn í nærsamfélagi þeirra.

Soffía seg­ir að stærsti hóp­ur­inn sé á leik­skóla­aldri, tveggja til sex ára. „Við fáum yf­ir­leitt 350-400 til­vís­an­ir á ári og náum að veita um 300 börn­um á  ári þverfag­leg­ar grein­ing­ar. Vand­inn er sá að við erum ekki fjár­mögnuð til þess að sinna svo stór­um hópi barna.

Það verður til þess að biðlist­ar mynd­ast og það kem­ur óneit­an­lega niður á öðrum þátt­um þjón­ust­unn­ar svo sem ráðgjöf. Því eðli­lega hef­ur þessi mikli fjöldi barna sem kem­ur í grein­ingu verið á kostnað annarra verk­efna,“ seg­ir Soffía.

Biðin eft­ir ít­ar­legri grein­ingu hef­ur gjarn­an verið um eitt ár, seg­ir Soffía en núna er biðtím­inn um 18 mánuðir hjá börn­um sem eru 2ja til sex ára en eitt ár hjá þeim sem eru eldri. „Þetta þýðir að barn sem er kannski tveggja ára þegar það fer á biðlista er nán­ast jafn­lengd ævi sinn­ar á biðlista og er að nálg­ast fjög­urra ára ald­ur þegar það kemst loks að,“ seg­ir Soffía.

Bið eftir greiningu er allt að 14 mánuðir hjá Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (ÞHS). Hún veitir þjónustu vegna barna sem glíma við frávik eða aðra erfiðleika í þroska, hegðun eða líðan. Sinnt er greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu vegna raskana hjá börnum að 18 ára aldri. Hjá ÞHS er börnum með ADHD sinnt en þangað koma einnig börn með aðrar raskanir.

Brú­ar­skóli var stofnaður árið 2003 og er skóli fyr­ir börn sem eiga í al­var­leg­um geðræn­um, hegðunar- eða fé­lags­leg­um erfiðleik­um. Kennsl­an fer fram í litl­um bekkj­um þar sem venju­lega eru tveir kenn­ar­ar sam­an með lít­inn bekk. Brú­ar­skóli starfar á fimm stöðum í Reykja­vík. Skól­inn er tíma­bundið úrræði. Björk Jóns­dótt­ir er skóla­stjóri Brú­ar­skóla.

Í Vest­ur­hlíð, höfuðstöðvum skól­ans, er pláss fyr­ir 24-27 nem­end­ur en þegar viðtalið var tekið voru 24 nem­end­ur í skól­an­um. Björk seg­ir það fara eft­ir sam­setn­ingu nem­enda­hóps­ins hverju sinni hversu marg­ir nem­end­ur eru í Vest­ur­hlíð en mjög al­gengt að þeir séu 24-25. Síðan er Brú­ar­skóli með starfs­stöðvar á barna- og ung­linga­geðdeild, Stuðlum, Brú­ar­húsi, sem er þátt­töku­bekk­ur inn­an Húsa­skóla, og Brú­ar­seli, þátt­töku­bekk við Ingunnar­skóla.

Alls eru nem­end­urn­ir um fimm­tíu tals­ins þegar allt er talið. 12 nem­end­ur eru á bið eft­ir því að kom­ast að í skól­an­um en flest­ir eru á ung­linga­stigi.

„Um leið og nem­andi útskrifast úr Brúarskóla er ann­ar tek­inn inn. Mjög mis­mun­andi er hvenær nem­end­ur koma inn og hversu lengi þeir þurfa að bíða á biðlista. Við met­um hverja um­sókn fyr­ir sig og til grund­vall­ar er skoðuð þörf­in og erfiðleika­stig varðandi hegðun, ekki endi­lega sá sem hef­ur verið lengst á biðlista.

Þetta get­ur verið erfitt fyr­ir þá skóla sem eru að bíða eft­ir því að nem­end­ur frá þeim kom­ist að hjá okk­ur en því miður er það þannig að við verðum að for­gangsraða og meta hverja um­sókn,“ seg­ir Björk.

Um 530 börn og ung­menni yngri en 18 ára  í meðferð á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans (BUGL), að sögn Guðrún­ar Bryn­dís­ar Guðmunds­dótt­ur yf­ir­lækn­is. Meiri­hluti skjól­stæðinga BUGL kem­ur af suðvest­ur­horni lands­ins Þar sem stærst­ur hluti barna á Íslandi býr. Um 90 börn bíða þjónustu. Á árinu 2018 voru 7069 komur í göngudeild BUGL sem er töluverð aukning frá því áður, að sögn Guðrúnar.

Starfsfólk BUGLs kom að að minnsta kosti 15  samráðsteymum á stórhöfuðborgarsvæðinu með heilsugæslu, félagsþjónustu og skólaþjónustu. Í gegnum þau hafði starfsfólk BUGLs aðkomu að um 900 börnum á arínu 2018. 

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur áhyggjur af þeim hópi barna …
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur áhyggjur af þeim hópi barna sem virðist vera dottinn út úr skólakerfinu. mbl.is/Hari

Á sama tíma er skólaforðun að verða alvarlegt vandamál en samkvæmt könnun velferðarvaktarinnar má gera ráð fyrir að um 1.000 börn á grunnskólaaldri glími við skólaforðun eða um 2,2% nemenda. Meðal helstu ástæðna skólaforðunar nefna skólastjórnendur andlega vanlíðan nemenda eins og kvíða og þunglyndi og erfiðar aðstæður á heimilum þeirra.

Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, segir að ekki liggi fyrir nákvæmlega hversu mörg börn sé um að ræða og það þurfi að kortleggja og ekki síður hverjar séu helstu ástæður þess að þau sækja ekki skóla. Í kjölfarið þurfi að setja samræmdar verklagsreglur um það hvernig brugðist sé við þannig að mannréttindi barna séu virt. Mikilvægt sé að hafa mun skýrari mynd af vandanum og grípa til ráðstafana en það sé mjög alvarlegt ef einhver hluti barna mæti lítið sem ekkert í skóla.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Námsmat á mannamáli

Eitt af því sem bæði kemur fram í úttekt Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir og í samtölum blaðamanns við skólafólk og foreldra er að oft sé óljóst hvers sé krafist af kennurum varðandi námsmat og fyrir foreldra að fá upplýsingar á mannamáli um stöðu barna sinna í námi. Sumir foreldrar kvarta undan of ítarlegum og illskiljanlegum upplýsingum þar sem mismunandi litir eru notaðir til að segja til um færni. Aðrir kvarta yfir að fá litlar sem engar upplýsingar um stöðu barna sinna og að stundum skorti jafnvel á samræmi milli viðmiða milli kennara innan sama skóla. Á sama tíma kvarta kennarar yfir því að hæfni- og matsviðmiðin í aðalnámskránni séu oft of flókin og of víðtæk. Það sé ekki vinnandi vegur að skrá þetta allt skilmerkilega fyrir hvern og einn nemanda á sama tíma og þeir eigi að sinna sínu helsta verkefni – að kenna.

Að sögn Lilju er verið að skoða þessi mál og greinilegt að vinna þurfi betur í framkvæmdinni. Gerð var könnun á innleiðingu á aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 og 2013 með það að markmiði að skoða hvernig skólum hefur gengið að innleiða námskrána og verða niðurstöður nýttar til að fara í úrbætur, m.a. hvað varðar bætta innleiðingu og skýrari framsetningu aðalnámskrár í námsmati. Að því verður unnið í samstarfi ráðuneytisins og sveitarstjórnarstigsins. Eitt af því sem Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá OECD, segir er að miðstýringin sé of lítil í íslensku menntakerfi og mikið frjálsræði. Það sé eitt af því sem verði að skoða við gerð nýrrar menntastefnu.

Lilja segir nauðsynlegt að endurgjöf skólakerfisins verði gerð skýrari og margir hafi kvartað yfir breytingunni úr tölustöfum í bókstafi og að allir, hvort sem það eru skólar eða heimili, séu á sömu blaðsíðu þar. „Ég er hlynnt samræmdum könnunarprófum en þau þurfa ekkert endilega að vera byggð upp eins og þau eru í dag. Ég tel að þau stuðli að jöfnuði í kerfinu og gefi góða mynd af því hvar börnin standa í námi og eins í samanburði við önnur börn. Samanburðurinn getur verið erfiður og ég skil mætavel að það séu ekki allir sáttir við hann en ég held að hann sé eitt þeirra tækja sem hægt er að nota til að sjá hvar skórinn kreppir og bregðast við með snemmtækri íhlutun í stað þess að missa allt of stóran hóp út úr framhaldsskólunum,“ segir Lilja.

Ítarlegri viðtöl við viðmælendurna verða birt á mbl.is næstu daga auk fleiri viðtala um grunnskólakerfið.

mbl.is