Hrósað mikið á kostnað gagnrýni

Skóli fyrir alla? | 14. september 2019

Hrósað mikið á kostnað gagnrýni

Rannsóknir hafa sýnt fram á að það sem hefur mest áhrif á námsárangur, líðan og hegðun barna í skólanum er hvernig foreldrar gegna hlutverki sínu heima fyrir. Stuðningur foreldra við börn sín hefur þannig miklu meiri áhrif á árangur nemenda en félagsleg staða þeirra og menntun. Það skiptir meira máli hvað þú gerir sem foreldri en hver þú ert, segir í bók Nönnu Kristínar Christiansen, Skóli og skólaforeldrar.

Hrósað mikið á kostnað gagnrýni

Skóli fyrir alla? | 14. september 2019

Nanna Kristín Christiansen og Edda Kjartansdóttir, aðstoðarskólastjóri Hörðuvallaskóla.
Nanna Kristín Christiansen og Edda Kjartansdóttir, aðstoðarskólastjóri Hörðuvallaskóla. mbl.is/Hari

Rannsóknir hafa sýnt fram á að það sem hefur mest áhrif á námsárangur, líðan og hegðun barna í skólanum er hvernig foreldrar gegna hlutverki sínu heima fyrir. Stuðningur foreldra við börn sín hefur þannig miklu meiri áhrif á árangur nemenda en félagsleg staða þeirra og menntun. Það skiptir meira máli hvað þú gerir sem foreldri en hver þú ert, segir í bók Nönnu Kristínar Christiansen, Skóli og skólaforeldrar.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að það sem hefur mest áhrif á námsárangur, líðan og hegðun barna í skólanum er hvernig foreldrar gegna hlutverki sínu heima fyrir. Stuðningur foreldra við börn sín hefur þannig miklu meiri áhrif á árangur nemenda en félagsleg staða þeirra og menntun. Það skiptir meira máli hvað þú gerir sem foreldri en hver þú ert, segir í bók Nönnu Kristínar Christiansen, Skóli og skólaforeldrar.

Nanna Kristín starfar á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og hún og Edda Kjartansdóttir, aðstoðarskólastjóri Hörðuvallaskóla, halda úti spjalli um skólamál á veftímaritinu Krítinni. Þær hafa þekkst lengi en þær kenndu saman um árabil í Vesturbæjarskóla auk þess sem þær hafa stýrt þróunarverkefni um leiðsagnarnám meðal kennara.

Þær störfuðu báðar við kennslu þegar hugtakið skóli án aðgreiningar var lögfest á Íslandi en með skóla án aðgreiningar er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.

Edda segir að stefnan sem slík snúist einfaldlega um mannréttindi, að öll börn eigi rétt á skólagöngu. Þetta eru réttindi sem enginn geti tekið frá þeim.

„Hins vegar kunnum við þetta ekki nógu vel í upphafi,” segir Edda. „Við sem unnum í skólunum fengum lítinn  undirbúning og  stuðning þegar stefnan var lögfest. Það varð til þess að margir urðu óánægðir og ósáttir við stefnuna, eitthvað sem eimir enn eftir af því miður,” segir hún.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Nanna tekur undir þetta með Eddu og segir að vegna þess litla undirbúnings, sem fólk sem starfaði í skólakerfinu fékk, við lögfestingu stefnunnar hafi kennarar og aðrir fundið til vanmáttar og fólk finni enn fyrir honum. Vegna skorts á fræðslu og ákveðins öryggisleysis hafi ýmsar ranghugmyndir fengið að vaxa og dafna. Svo sem um að börn fái ekki stuðning nema þau séu komin með greiningu. „Þetta er ekki rétt enda hvergi kveðið á um það í lagaramma grunnskólanna,“ segir hún.

Sérkennsla fyrir 50% nemenda óeðlilegt hlutfall

„Þegar foreldrar barns koma til skólastjórnenda og óska eftir því að þörfum barnsins sé betur mætt og þeim tjáð það sé ekki hægt vegna þess að barnið sé ekki með greiningu gengur það gegn lögum því öll börn eiga rétt á kennslu við hæfi samkvæmt lögum. Svo getur verið ágreiningu um hvað er við hæfi og hvað sé gerlegt. En þegar það gerist í ákveðnum árgöngum í skóla að óskað er eftir sérkennslu fyrir 50% nemenda spyr maður sjálfan sig hvort kennslan sé eins og hún á að vera því þetta er mjög óeðlilega hátt hlutfall. Þegar svo er gæti þurft að skoða hvort haga  megi kennsluna með öðrum hætti svo hún þjóni fleiri nemendum,“ segir Nanna.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru rúmlega 45 þúsund nemendur í  grunnskólum landsins skólaárið 2017-2018. Af þeim nutu 13.432 nemendur sérkennslu og stuðnings þann vetur eða tæplega 30% nemenda. Undanfarin 15 ár hefur hlutfall nemenda sem þurfa á sérkennslu og stuðningi hækkað og eru um 17% allra grunnskólanemenda bæði með formlega greiningu og stuðning til náms. Tvöfalt fleiri drengir en stúlkur eru með formlega greiningu og stuðning til náms.

Edda segir að í mörgum skólum séu nemendur sem þurfa manneskju með sér allan daginn án þess að sérstakt fjármagn fylgi með. „Þetta getur verið snúið en því er bjargað meðal annars með því að breyta skipulagi innan skólans. Sveitarfélögin standa flest  vel á bak við skólana en stundum mættu þau gera betur eins og gengur. Samfélagsins er að ákveða hversu mikið fjármagn á að fara í slíkan stuðning,” segir Edda og bendir á að á sama tíma og töluvert hlutfall af kostnaði við rekstur grunnskóla fari í stuðningsþjónustu við nemendur þá vanti alveg að gera úttekt á því hvernig þeir fjármunir nýtast.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru rúmlega 45 þúsund nemendur …
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru rúmlega 45 þúsund nemendur í grunnskólum landsins skólaárið 2017-2018. mbl.is/Hari

Að sögn Nönnu er hafinn undirbúningur að  slíkri úttekt hjá Reykjavíkurborg en hvorug þeirra veit til þess að slíkt mat hafi áður farið fram hjá íslensku sveitarfélagi.

Eitt af því sem flestir þeir sem blaðamaður hefur rætt við um málefni grunnskólans eru sammála um er mikilvægi samstarfs milli skólans og heimilanna.

„Ég hef fullan skilning á því hvað það getur verið ótrúlega erfitt að kenna nemendahópi þar sem börn eru að glíma við vandamál bæði félagsleg og geðræn og stundum verður það nánast óyfirstíganlegt. Á sama tíma og talað er um kennaralottó þá vinna ekki öll börn í foreldralottóinu. Stundum er ekki að vænta mikils samstarfs við foreldra og staða þeirra í lífinu getur einfaldlega verið þannig að þeir geta hreinlega ekki tekið fullan þátt í slíku samstarfi. Börnin koma með öll sín vandamál inn í skólann og þar eru kannski tvö til þrjú önnur börn í bekknum sem svipuð vandamál. Eðlilega hefur þetta áhrif í 20-30 barna bekk,” segir Nanna.

Að vera skólaforeldri er ekki meðfæddur hæfileiki heldur þarf, líkt …
Að vera skólaforeldri er ekki meðfæddur hæfileiki heldur þarf, líkt og með öll önnur hlutverk, að lærast, segir Nanna Kristín Christiansen. mbl.is/Hari

Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á starf kennarans og getur verið mjög erfitt fyrir hann að hafa yfirsýn og koma til móts við þarfir allra í bekknum, segir Edda. Ofan á þetta eru foreldrar hinna barnanna ósáttir og kvarta við kennarann yfir þessum tveimur eða þremur nemendum sem trufla kennsluna. „Aðrir kennarar sem kenna þessum nemendum taka þar undir og álagið á umsjónarkennarann verður einfaldlega yfirþyrmandi. Þetta getur verið ein af ástæðum þess að margir kennarar eru að brenna út í starfi,” segir Edda.

Gæði menntunar verða aldrei meiri en gæði kennaranna sem starfa í skólanum. Auk þess sem skólinn hefur afgerandi námsleg og félagsleg áhrif á nemendur hefur hann einnig mikilvægu hlutverki að gegna þegar börn glíma við vanda í einkalífi. Þar geta góð tengsl og trúnaðarsamband nemandans við kennarann skipt sköpum. Vegna stöðu sinnar getur kennarinn verið með þeim fyrstu til að greina vísbendingar um vanda sem barnið á við að etja og hefur því tækifæri til að grípa til viðeigandi ráðstafana, segir í bók Nönnu Kristínar, Skóli og skólaforeldrar.

„Ég kæri þig“

Að sögn Nönnu er mikilvægt að foreldrar og kennarar vinni saman og þess gætt að varpa ekki ábyrgðinni á skólann. Meðal annars varðandi aga en Ísland sker sig úr í alþjóðlegum samanburði hvað varðar agaleysi innan veggja skólans samkvæmt alþjóðlegu rannsókninni TALIS sem kom út í sumar.

„Hér áður var skilningurinn almennt sá að foreldrar bæru ábyrgð á uppeldi barna sinna. En í dag er ábyrgðinni í auknum mæli komið yfir á stofnanir samfélagsins á sama tíma og börnin eru meira og minna í umsjón þeirra. Foreldrar hafa stundum lítinn tíma til annars en að hrósa börnunum sínum fyrir hversu miklir snillingar þau eru. Á sama tíma hafa stofnanir lítil réttindi gagnvart barninu og allt of oft heyrist: ég kæri þig,” segir Nanna.

Hún segir að valdaleysi skólans og agaleysið kristallast t.d. í rétti foreldra til þess að taka börnin úr skólunum til að fara með þau til útlanda í lengri og skemmri tíma. Slíkt þyki óhugsandi í flestum löndum.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Nanna segir að þegar samstarf foreldra og skóla er til staðar sé ekkert vandamál svo stórt að ekki sé hægt að leysa það. „Börn eru það dýrmætasta sem við eigum og samfélagið í framtíðinni byggist alfarið á því hvernig okkur tekst til. Við eigum að gera þetta að sameiginlegu markmiði og við teljum að þar séu flestir sammála. Skólinn á að styðja foreldra við uppeldið og til þess verður að vera samræða heimilis og skóla,“ segir Nanna.

Að sögn Eddu gengur þetta vel í flestum tilvikum og stærstur hluti foreldra og nemenda er til fyrirmyndar. „Margir foreldrar sinna börnunum sínum vel og fylgjast nokkuð vel með starfi skólans og þeirri vinnu sem þar fer fram. Við getum aldrei búist við því að allir foreldrar séu virkir í samstarfinu enda samfélagið fjölbreytt,” segir Edda.

Nanna segir að það séu skólastjórnendur og kennarar sem hafi lykilinn í hendi sér hvað samstarf við fjölskyldur barnsins varðar. Það sé best gert með því að leyfa foreldrum að vera virkir þátttakendur í skólalífi barna sinna í stað þess að halda þeim frá líkt og foreldrar upplifa stundum af hálfu skólans. 

Nanna Kristín vísar í doktorsritgerð Grétars Marinóssonar en þar kemur fram að íslenskir kennarar sendi ómeðvitað út þau skilaboð til foreldra að þeir þurfi ekki á þeim að halda. Þetta er gert á ýmsan hátt og kennarar geri þetta til að skapa sér frið. Of mikið álag er að taka foreldrana inn endi eigi þeir nóg með börnin. Ekki illa meint og foreldrar sem eru önnum kafnir taka þessu fagnandi. Ekki er ætlast til þess að þeir komi inn í skólann og börnin festast í samskiptaleysinu.

Kennarar geta breytt þessu með því að stuðla að eflingu foreldra og finna leiðir til að veita foreldrum aukna hlutdeild í lífi og starfi barna sinna. Samskiptaleysið bitnar því miður mest á barninu en oft getur það snúist um valdabaráttu. Hvað á að kenna, með hverjum í bekk – hver fær að ráða? Vandamál skólasamfélagsins og heimilanna speglast í þessu – skólinn óttast að missa völd og hleypir kannski þess vegna ekki foreldrum alla leið, segir Nanna.

„Eitt það mikilvægasta sem börn læra er að takast á …
„Eitt það mikilvægasta sem börn læra er að takast á við lífið og margbreytileika þess. Það er samstarfsverkefni foreldra og skólans að kenna þeim að það er allt í lagi að stundum sértu ekki bestur eða þurfir að takast á við mótlæti Að læra að gefast ekki strax upp og koma sér upp seiglu,“ segir Edda.Kjartansdóttir mbl.is/Hari

„Ekki mæta fólki af hörku heldur hlusta á foreldra. Skólinn þarf að vera sveigjanlegur og hlusta á það sem foreldrar hafa að segja. Það sem einkum skilur á milli nemenda sem vegnar vel í skóla og hinna sem vegnar síður er hvernig foreldrar þeirra gegna hlutverki sínu. Það að eiga barn í grunnskóla hefur ekki aðeins mikil áhrif á líf barnsins heldur allrar fjölskyldunnar. Að vera skólaforeldri er ekki meðfæddur hæfileiki heldur þarf, líkt og með öll önnur hlutverk, að lærast. Það er heldur ekki til nein ein rétt uppskrift að skólaforeldri, ekkert fremur en að vera foreldri. Við erum fyrst og fremst mannleg, höfum mismunandi reynslu, viðhorf og væntingar, styrkleika og veikleika,” segir Nanna.

„Ef foreldrar treysta kennurum og skóla barnsins þá líður öllum betur. Ef það kemur upp vantraust verður ástandið slæmt sem skilar sér í minna námi og verulegri vanlíðan,” segir Edda.

Kostir leiðsagnarmats

Í leiðsagnarmati er lögð áhersla á að matið sé hluti af náminu, fari reglulega fram á námstímanum, skýr viðmið séu um árangur og endurgjöf sé nákvæm og lýsandi fyrir hvern nemanda. 

Lykilhugtakið í leiðsagnarnámi er endurgjöf/leiðsögn. Forsendur endurgjafar/leiðsagnar er að nemandinn geti nýtt sér hana til að nálgast markmið sitt. Rannsóknir sýna að til að endurgjöfin/leiðsögnin hafi þau áhrif sem að er stefnt þarf námsmenningin að einkennast af trausti nemenda til kennara, ríkum væntingum kennara til allra nemenda, getublöndun, virkri samvinnu, viðurkenningu á því að mistök eru eðlilegur hluti náms, vaxandi hugarfari þ.á m. þrautseigju og skilningi nemenda á því hvernig nám fer fram. Námsmenningin einkennist jafnframt af því að nemendur læra saman og hver af öðrum, þess vegna eru samræður áberandi og kennarinn vekur athygli á því sem vel er gert og því sem má læra af.

Þegar unnið er með leiðsagnarnám þurfa nemendur alltaf að þekkja námsmarkmið sín og vita hvað þeir eiga að læra í hverri kennslustund (lotu). Til að þeir geti unnið verkefni sín eins og til er ætlast þurfa þeir einnig að vita hvernig gott verkefni á að vera.

Þær Nanna og Edda segja leiðsagnarmatið byggjast á mörgum rannsóknum sem sýni hvað virki í skólastarfi og hvað ekki. Meðal annars hafi komið í ljós að ýmislegt sem gert hafi verið áratugum saman innan skólans hefur engin eða jafnvel neikvæð áhrif á námsárangur nemenda.

Kennari verður hafa trú á að það geti allir bætt sig og að geti allir lært. Á sama tíma verða allir að hafa væntingar þar um og vinna að því og kennarinn þarf að koma því til nemenda að hann hafi trú á þeim. Þær segja að með teymisvinnu og leiðsagnarmati sé hægt að draga úr sérkennslu og halda  betur utan um bráðger börn eins og öll önnur börn. En eitt af því sem foreldrar bráðgerra barna kvarta undan er hvað þeim leiðist í skólanum og þau fái allt of sjaldan nógu krefjandi verkefni.

Edda og Nanna segja að til að koma á móts við þennan hóp þurfi að auka teymiskennslu í skólum og byggja upp námsmenningu í anda leiðsagnarnáms. Það þarf að breyta kennsluháttum segir Nanna. Ef námið væri meira verkefna- og hæfnimiðað myndi sá hópur sem er að fást við verkefni við hæfi stækka.

Kennsla þar sem nemendur eru ekki að læra eitthvað nýtt …
Kennsla þar sem nemendur eru ekki að læra eitthvað nýtt og efla hæfni sína er ekki góð. mbl.is/Hari

Snýst ekki um fleiri stuðningsfulltrúa

Edda segir að börn sem eru full af skólaleiða strax á fyrstu árum skólans valdi oft vanda þegar kemur á unglingastigið. Þau hafa ekki áhuga á viðfangsefnunum og sjá ekki tilgang með þeim. „Þetta snýst ekki um fleiri stuðningsfulltrúa heldur viðhorfið til þess hvernig nám á sér stað. Mikilvægt að kennarar séu opnir fyrir breytingum og festast ekki í að gera allt eftir bókinni. Því nemendur geta yfirleitt rúmlega það sem ætlast er til af þeim, þegar þeir fást við það sem þau sjá tilgang með og hafa áhuga á,“ segir Edda.

Nanna segir oft þann misskilning ríkja að magn námsefnis sé vísbending um gæði kennslu. Því meira magn því betri kennsla. Afköstin verða fókusinn í stað þess að áherslan sé lögð á að finna efni við hæfi hvers nemanda til þess að hann læri eitthvað nýtt. Kennsla þar sem nemendur eru ekki að læra eitthvað nýtt og efla hæfni sína er ekki góð.

„Börn sem eru alin upp sem snillingar eru þau börn sem eru í mikilli hættu á að hætta í skóla því þau óttast ekkert meir en að vera afhjúpuð,” segir Nanna. Því er mikilvægt að hrósa börnum ekki fyrir að vera fljót með verkefni og að þurfa lítið að hafa fyrir hlutunum. Því ef þau eru eldsnögg og hafa ekkert fyrir náminu eru þau ekki að fá nám við hæfi og læra ekki seiglu og að takast á við það sem er erfitt. Það sama á við um foreldra, þeir eiga heldur að hrósa börnunum sínum fyrir það sem þau leggja á sig frekar en eitthvað sem er sjálfgefið eða lítil sem engin innistæða fyrir, segir Nanna.

Þurfum þrautseigt fólk 

„Við eigum að hrósa börnum fyrir að leggja á sig og að vera tilbúin til þess að hafa fyrir hlutunum. Eigum að efla með þeim þrautseigju og þetta á við bæði um heimili og skóla. Við þurfum þrautseigt fólk og höfum alltaf þurft. Áður urðum við þrautseig vegna þess að lífið var erfitt. Hver dagur var lífsbarátta. Nú þurfum við ekki á þessu að halda og svo virðist sem seiglan sé að hverfa og við verðum að vera meðvituð um að viðhalda henni,” segir Edda.

Þær benda á að tímaskortur foreldra og að foreldrar forðist að gera kröfur til barna sinna dragi úr þrautseigju þeirra og hæfni til að takast á við áskoranir. Börnum er hrósað mikið á kostnað gagnrýni og þeim ekki kennt að líta í eigin barm. Allt of flókið er að leysa vandamál með þeim og miklu auðveldara að taka upp símann og hringja í skólann og biðja hann um að leysa vandamálið. Þessi tímaskortur gæti verið ástæðan fyrir því að sum börn eru ofvernduð af foreldrum þegar kemur að hindrunum af öllu tagi.

Þær breytingar sem hafa orðið á þjóðfélaginu undanfarna áratugi hafa …
Þær breytingar sem hafa orðið á þjóðfélaginu undanfarna áratugi hafa meðal annars haft þær afleiðingar að hlutverk skólans hefur orðið stærra í velferð barna. mbl.is/Hari

„Lífið er ekki svona og það kemur að því að þú lendir í áföllum í lífinu. Eitt það mikilvægasta sem börn læra er að takast á við lífið og margbreytileika þess. Það er samstarfsverkefni foreldra og  skólans að kenna þeim að það er allt í lagi að stundum sértu ekki bestur eða þurfir að takast á við mótlæti. Að læra að gefast ekki strax upp og koma sér upp seiglu,“ segir Edda.

Nanna hefur aðeins fylgst með þróun skólastarfs í Kanada og segir að þar sé mikil áhersla lögð á að ala upp samfélagslega ábyrgð hjá börnum. Alltaf verið að spyrja hvað leggur þú af mörkum? Hvert er mitt hlutverk og hvað get ég gert í stað þess að segja: hver er réttur minn og hvað ætlar þú að gera fyrir mig? Þetta vantar hér segja þær báðar. „Hvað getur þú gert til að bæta skólasamfélagið okkar. Þetta þurfum við öll að hugsa sem störfum í skólakerfinu, bæði starfsfólk skóla, börn og foreldrar þeirra.“

Vefritið Krítin fór í loftið árið 2012 og að þeirra sögn var ástæðan að þeim fannst skorta á faglega umræðu um skólamál í stað þess að þau séu töluð niður.

„Við kennarar berum ábyrgð á því hvernig við tölum um starfið okkar og við fælum fólk frá með því að tala það niður. Kennarar verða að temja sér faglega orðræðu. Til að mynda þegar þeir eru að ræða við foreldra sem kannski hafa áhyggjur. Að ræða á faglegum nótum í stað persónulegra. Að geta bent á rannsóknir máli sínu til stuðnings. Þú átt að geta rökstutt fagið þitt. Kennarar eru með langt nám að baki þannig að þeir eru fullfærir um það,“ segja Nanna og Edda.

Ekkert með reglur að gera heldur ábyrgð

Spurðar út í atriði eins og símanotkun í skólum segja þær að það sé skólans að setja reglur þar að lútandi og framfylgja þeim. Það að börn séu með símann á lofti í skólastofu hefur ekkert með reglur að gera heldur ábyrgð, hver setur reglunar, fylgir þeim eftir og axlar ábyrgðina á því að reglum sé fylgt. 

Skólar setja reglur og það er allra að framfylgja þeim. Síminn er bara tæki og hluti af lífinu og við erum að ala börn upp til að kenna þeim að búa í samfélaginu eins og það er, segir Edda og Nanna bætir við að hér eigi enn og aftur við samvinna milli heimilis og skóla. „Við eigum að kenna þeim að nota símana, ekki að nota þá ekki. Það er heldur ekki sama hvernig tækið er notað. Notar þú tækið eða notar það þig?“

Þær breytingar sem hafa orðið á þjóðfélaginu undanfarna áratugi hafa meðal annars haft þær afleiðingar að hlutverk skólans hefur orðið stærra í velferð barna. Foreldrar þurfa að horfa á skólann sem stuðning og samherja í því mikilvæga hlutverki að koma börnum til manns. Að vinna saman að velferð nemenda. Ef það er vel gert eru þeim allar leiðir færar í að takast á við lífið og þær áskoranir sem því fylgja, segir Edda Kjartansdóttir og Nanna Kristín Christiansen. 

mbl.is