Að horfa á barnið sitt gráta mánuð eftir mánuð yfir því að þurfa að takast á við daginn á stað þar sem því líður illa er eitt það versta sem foreldrar þurfa að upplifa. Að kerfið sem á að halda utan um barnið þitt er ekki að gera það og upplifun þín og barnsins er sú að kerfið hafi nákvæmlega engan áhuga á að sinna því. Þetta er upplifun foreldra drengs sem ár eftir ár fékk ekki þann stuðning sem hann þurfti þar sem hann var ekki greindur með sérþarfir.
Að horfa á barnið sitt gráta mánuð eftir mánuð yfir því að þurfa að takast á við daginn á stað þar sem því líður illa er eitt það versta sem foreldrar þurfa að upplifa. Að kerfið sem á að halda utan um barnið þitt er ekki að gera það og upplifun þín og barnsins er sú að kerfið hafi nákvæmlega engan áhuga á að sinna því. Þetta er upplifun foreldra drengs sem ár eftir ár fékk ekki þann stuðning sem hann þurfti þar sem hann var ekki greindur með sérþarfir.
Að horfa á barnið sitt gráta mánuð eftir mánuð yfir því að þurfa að takast á við daginn á stað þar sem því líður illa er eitt það versta sem foreldrar þurfa að upplifa. Að kerfið sem á að halda utan um barnið þitt er ekki að gera það og upplifun þín og barnsins er sú að kerfið hafi nákvæmlega engan áhuga á að sinna því. Þetta er upplifun foreldra drengs sem ár eftir ár fékk ekki þann stuðning sem hann þurfti þar sem hann var ekki greindur með sérþarfir.
Hann skipti um skóla eftir nokkur ár í fyrsta skólanum. Umsjónarkennarinn þar fann honum allt til foráttu og sagði hann einfaldlega ómögulegan. „Þegar ég spurði hann hvort hann gæti ekki bent á eitthvað jákvætt við barnið mitt og hans styrkleika, leit hann undan og sagði ekki neitt. Þá ákvað ég að taka barnið mitt úr skólanum. Ef þetta var viðhorf þess sem hafði mest um barnið mitt að segja í skólanum var hann greinilega ekki á réttum stað, hvorki drengurinn minn né kennarinn,“ segir móðir sem blaðamaður ræddi við.
Við að skipta um skóla varð mikil breyting á líðan hans félagslega. Þrátt fyrir að mjög vel sé haldið utan um hann í þessum skóla fundu foreldrarnir að það var ekki nóg. Það var eitthvað að. Hann tók öll skimunarpróf sem í boði voru, les-, skrif- og stærðfræðiblindu en aldrei kom neitt í ljós. Fjölskyldan býr svo vel að geta leitað eftir faglegri aðstoð út fyrir kerfið og hjá stórri sálfræðiþjónustu fengu þau góða þverfaglega þjónustu.
„Staða hans var kortlögð og þá sá maður kerfi eins og maður vildi að það virkaði. Ólíkir fagaðilar tóku viðtöl bæði við hann og okkur foreldrana og farið var ofan í rótina á vanda hans. Í ljós kom að hann er með ADHD. Hann fékk fljótlega lyf og teymið vann með skólanum ásamt honum og okkur að því að finna góða lausn á skólagöngu hans,“ segir móðir drengsins og bætir við að ef hún hefði ekki leitað út fyrir kerfið eftir aðstoð þá væri hann sennilega enn fastur inni í þessum vítahring en þetta var fyrir nokkrum árum. Þjónusta sem þessi er hins vegar dýr og ekki fyrir alla þar sem hver tími hjá sálfræðing kostar hátt í 20 þúsund krónur. Allt í allt hleypur kostnaður þessarar fjölskyldu á hundruðum þúsunda.
„Kerfið sagði að ekkert væri að og við upplifðum það viðhorf gagnvart barninu okkar að það væri öllum sama. Það var búið að afgreiða hann út úr kerfinu og enginn vilji fyrir því að styðja hann og okkur í að halda áfram. Við erum ekki ein í þessum sporum því í gegnum þetta basl okkar kynntumst við mörgum öðrum foreldrum sem voru í sömu sporum. Að ár eftir ár var ekkert að gerast. Við megum ekki útiloka börn sem þurfa á aðstoð að halda og vinna gegn þeim. Eigum að hlusta á börn og taka tillit til líðanar þeirra. Stundum eru foreldrarnir ekki nægjanlega sterkir til þess að taka slaginn við kerfið. Að gera kröfur og hafa yfir þeirri þekkingu að ráða á kerfinu að geta gert kröfur. Ég veit hreinlega ekki hver staða okkar væri ef við hefðum ekki neitað að gefast upp í baráttunni við kerfið,“ segir faðir annars drengs í samtali við blaðamann.
Ársæll Már Arnarsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem hefur rannsakað líðan og heilsufar barna og ungmenna segist oft velta fyrir sér hvort þessi fókus á greiningar í íslensku menntakerfi sé af hinu góða. Þegar barn sem á í erfiðleikum fær greiningu verður barnið, foreldrar og allt nærumhverfi barnsins fegið. Að vita hvað ami að. En að það þurfi svo oft að bíða eftir greiningunni til að eitthvað sé gert til þess að styðja barnið sé slæmt fyrir alla. Ekki bara viðkomandi barn heldur einnig samnemendur, kennara og fjölskyldu.
„Getum við ekki hugsað: við þurfum að breyta einhverju og skoðað þarfir barnsins án þess að það sé greint með sérþarfir. Greining er orðin töfraorð og í einhverjum tilvikum skiptir hún öllu en í flestum tilvikum held ég að það sé ekki aðalatriðið heldur miklu frekar að bregðast við vanda barnsins. Stundum getur ástandið verið tímabundið, til að mynda þunglyndi. Þetta er hluti af miklu stærra samhengi og við eigum að horfa á einstaklinginn ekki einhvern stimpil. Lífið er ekki leikur og við erum öll gölluð. Við þurfum að vinna með þessa galla og takmarkanir sem við höfum en þetta er bara hluti af því að vera manneskja og við megum alveg vera allskonar. Lífið er ekki Facebook.
Ef við tökum kvíða sem dæmi þá er hann í flestum tilfellum bara eðlileg tilfinning. Þegar ég var að alast upp þekkti ég engan kvíðinn krakka. Maður heyrði bara af örfáum fullorðnum sem voru slæmir á taugum. En auðvitað var fullt af kvíðnum krökkum á þessum tíma, þau höfðu bara ekki orð til að lýsa þessari tilfinningu. Við finnum öll fyrir kvíða og hann er alls ekki slæmur svo lengi sem hann verður ekki alltof mikill hluti af okkur. Eitt af stóru verkefnunum í lífi hverrar manneskju er að takast á við sinn innri mann og þar á meðal kvíða og er hluti af þroska manns,“ segir Ársæll.
Að sögn Ársæls eru langflestir langvinnir geðsjúkdómar komnir fram á fyrstu 25 árum ævinnar. Í helming tilvika eru merki um þá komin fram um 14 ára aldur. Það er því mikilvægt að koma snemma að stuðningi við barnið þó svo að ekki liggi fyrir á þeirri stundu að um geðsjúkdóm er að ræða. Börn geta ekki beðið.
„Við verðum líka að vera gagnrýnin og það skortir að mínu viti í íslensku samfélagi. Höldum að við séum að nota bestu vísindin en vantar að við getum rætt um þessa hluti með gagnrýnum hætti sem er svo nauðsynlegt. Fólk sem vinnur með ungmennum leggur yfirleitt mjög mikla alúð í starf sitt. Það er nánast óhjákvæmilegt að þegar unnið er með þeim hætti að málefnum sem skipta miklu máli þá tengjast því oft miklar tilfinningar. Oft er erfitt fyrir fólk að taka því þegar það er gagnrýnt, ekki síst þegar það er að gera sitt besta. En fræðin felast ekki í því að velja eina greiningu – eina aðferð og ríghalda í hana heldur að ræða það hvort það sem við erum að gera sé örugglega besta leiðin. Að geta rætt slíka hluti án þess að persónulegir og tilfinningalegir hlutir hafi þar áhrif.“
Ársæll segist alltaf hafa verið hlynntur jafnrétti til náms líkt og felist í skóla án aðgreiningar en að við verðum að átta okkur á því að þetta hefur skapað vandamál sem þarf að leysa úr.
„Einhverjir hafa gefist upp á þessu kerfi og hafa tekið börnin sín út úr hefðbundnu skólastarfi. Á sama tíma eru það mannréttindi hvers og eins að njóta skólagöngu með jafnöldrum sínum og það er betra fyrir samfélagið að allir séu saman. Þessir krakkar sem eru í svona stórum og fjölbreyttum hóp eiga flest eftir að verða foreldrar síðar á lífsleiðinni og eignast allskonar börn. Og þá er eins gott að geta tekist á við það. Þetta siðferðilega sjónarhorn, sem maður fær ef maður hefur unnið með alls konar krökkum, er að virði manneskjunnar felst ekki í því hversu góð hún er í skóla. Manneskjan getur verið frábær þó svo að hún sé ekki með háar einkunnir út úr skóla. Það er mikilvægt að læra það. Því það mótar mann til allra hluta – hvert er virði manneskjunnar. Ef þú hefur aldrei umgengist einhvern sem á við mikla erfiðleika að stríða eða fatlanir þá skilur þú þetta ekki,“ segir Ársæll.
Umsóknum um kennaranám fjölgaði verulega milli ára, alls um rúmlega 200 í háskólunum fjórum sem bjóða upp á kennaranám hér á landi. Helmingi fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám á grunn- og framhaldsstigi í Háskóla Íslands en í fyrra, alls 121.
Í vor kynnti Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, aðgerðir sem miða að fjölgun kennara. Í aðgerðunum felst meðal annars að nú býðst leik- og grunnskólakennaranemum á lokaári launað starfsnám. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi sótt um námsstyrk til að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir enn fremur styrki til að fjölga kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn. Umsóknum um nám slíkra leiðsagnarkennara hefur fjölgað um 100% milli ára samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands. Ársæll fagnar þessu og segir mikilvægt að auka þjálfun kennaranema og gera þá hæfari í að takast á við ólík vandamál sem óhjákvæmilega fylgja kennslu í skóla án aðgreiningar.
„Það er gríðarlega mikilvægt að takast á við flótta kennara úr grunnskólunum en hann stafar meðal annars af miklu vinnuálagi á sama tíma og þeir þurfa að takast á við mjög erfið mál sem þeir fá lítinn stuðning við að leysa,“ segir Ársæll.
Að hans sögn hefur umræðan um menntamál stundum snúist upp í skítkast í kommentakerfum þar sem fólk slær fram fullyrðum sem eiga ekki við nein rök að styðjast. „Hér er verið að ræða mikilvæg mál sem snerta æsku landsins og aðalmálið á að vera að umræðan sé á réttu plani án þess að láta tilfinningar taka völdin. Það eru fleiri en ein hlið á öllum málum og oft fær aðeins ein hlið að koma fram í umræðu sem þessari. Ef börn alast upp við sleggjudóma er búið að móta þau fyrir lífstíð – að það sé allt í lagi að afgreiða málin með því að segja aðra vera fífl og fávita.
Eitt af því sem hefur breyst í starfi kennarans er að í stað þess að takast bara á við erfiða nemendur þarf stundum að taka glímuna við foreldra sem ekki geta ímyndað sér að þeirra barn geti hegðað sér illa. Það er eitt að elska börnin sín en annað að vera ástfanginn af þeim. Börn þurfa aga og þú ert að aga þau til þau öðlist sjálfsaga. Vegna þess að ef þau hafa ekki sjálfsaga þá geta þau ekki staðið á eigin fótum. Börn þurfa mörk. Ekki til þess að það fari minna fyrir þeim eða þau séu þægilegri. Ef þessi mörk eru ekki til staðar fara vandamálin að banka upp á, kvíði, þunglyndi og fleira.
Foreldrar verða að vera reiðubúnir til samvinnu og kennarar verða að gera sér grein fyrir því að þetta er það sem foreldrar eiga erfiðast með að takast á við. Flestir geta sætt sig við námsörðugleika barna sinna en félagslegir erfiðleikar setja eðlilega alla foreldra á hliðina. Það er mjög erfitt að hugsa rökrétt sem foreldri þegar þú veist að barninu þínu líður illa, það er ekki í samskiptum við aðra. Það er líka eitthvað sem kennarar verða að læra að takast á við - foreldra á hliðarlínunni á sama tíma og foreldrar verða að taka ábyrgð á hegðun barna sinna. Þetta er ekkert óyfirstíganlegt vandamál ef við tökum okkur saman sem samfélag að stuðla að eðlilegri orðræðu og samvinnu milli heimilis og skóla,“ segir Ársæll Már Arnarsson.