Skólaforðun er hugtak sem er fremur nýtt af nálinni í umræðu um skólamál á Íslandi. Könnun velferðarvaktarinnar leiðir meðal annars í ljós að gera má ráð fyrir að um 1.000 börn á grunnskólaaldri glími við skólaforðun eða um 2,2% nemenda. Meðal helstu ástæðna skólaforðunar nefna skólastjórnendur andlega vanlíðan nemenda eins og kvíða og þunglyndi og erfiðar aðstæður á heimilum þeirra.
Skólaforðun er hugtak sem er fremur nýtt af nálinni í umræðu um skólamál á Íslandi. Könnun velferðarvaktarinnar leiðir meðal annars í ljós að gera má ráð fyrir að um 1.000 börn á grunnskólaaldri glími við skólaforðun eða um 2,2% nemenda. Meðal helstu ástæðna skólaforðunar nefna skólastjórnendur andlega vanlíðan nemenda eins og kvíða og þunglyndi og erfiðar aðstæður á heimilum þeirra.
Skólaforðun er hugtak sem er fremur nýtt af nálinni í umræðu um skólamál á Íslandi. Könnun velferðarvaktarinnar leiðir meðal annars í ljós að gera má ráð fyrir að um 1.000 börn á grunnskólaaldri glími við skólaforðun eða um 2,2% nemenda. Meðal helstu ástæðna skólaforðunar nefna skólastjórnendur andlega vanlíðan nemenda eins og kvíða og þunglyndi og erfiðar aðstæður á heimilum þeirra.
Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, segir að ekki liggi fyrir nákvæmlega hversu mörg börn sé um að ræða og það þurfi að kortleggja og ekki síður hverjar séu helstu ástæður þess að þau sækja ekki skóla. Í kjölfarið þurfi að setja samræmdar verklagsreglur um það hvernig brugðist sé við þannig að mannréttindi barna séu virt. Mikilvægt sé að hafa mun skýrari mynd af vandanum og grípa til ráðstafana en það sé mjög alvarlegt ef einhver hluti barna mæti lítið sem ekkert í skóla.
Salvör segir að ekki sé til nein viðurkennd skilgreining á því hvað skólaforðun sé, enda um nýtt hugtak að ræða og ekki séu til neinar samræmdar reglur um viðbrögð þegar börn mæta ekki í skóla. Tilkynna beri til barnaverndar ef barn mætir ekki í skóla en svo virðist sem það sé ekki alltaf gert og viðbrögðin ekki nægilega skýr. Jafnvel viðurkennt af nánasta umhverfi að þau séu dottin úr skóla.
„Við höfum heyrt dæmi um ungling þar sem samkomulag hafði verið gert milli skóla og heimilis um að viðkomandi barn væri að vinna fremur en sækja skóla. Svo virtist sem allir væru sáttir með fyrirkomulagið um að viðkomandi hefði ekkert meira í skóla að gera. Þetta er skerðing á réttindum barnsins og við köllum eftir samræmdum verklagsreglum á þessu sviði,“ segir Salvör.
Salvör segir mikilvægt að gera greinarmun á nokkrum ólíkum atriðum í þessari umræðu: Eitt er börn sem fara í frí með foreldrum sínum. Ríflega 74% skólastjóra telja að foreldrar og forsjáraðilar hafi of rúmar heimildir til að heimila eigin börnum fjarvist frá skóla og er mikill meirihluti þeirra hlynntur því að opinbert viðmið verði tekið upp, s.s. um hámarksfjölda daga vegna slíkra leyfisveitinga. Embættið hefur ekki séð ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af slíkum fríum.
Í öðru lagi börn sem eru ekki að mæta í skóla af einhverjum ástæðum, svo sem vegna kvíða eða annarrar andlegrar vanlíðanar. Slík tilvik teljast til skólaforðunar og þarfnast sérstakrar skoðunar við. Kannanir sýna vaxandi andlega vanlíðan barna og ungmenna á Íslandi og við því þarf að bregðast. Þær sýna líka að einelti hefur verið aukast sem getur haft mikil áhrif á skólgöngu barna.
Í þriðja lagi er um að ræða börn sem virðast dottin út úr skólakerfinu og eru sennilega sá hópur sem fær minnsta athygli, segir Salvör. Börn sem eru kannski með mjög alvarlegan hegðunarvanda og fá ekki þann stuðning sem þau þurfa í skólanum, þeim hefur jafnvel verið vísað úr skóla og þau hafa ekki fengið skólavist eða viðunandi úrræði annars staðar.
Brúarskóli var stofnaður árið 2003 og er skóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum, hegðunar- eða félagslegum erfiðleikum. Kennslan fer fram í litlum bekkjum þar sem venjulega eru tveir kennarar saman með lítinn bekk. Brúarskóli starfar á fimm stöðum í Reykjavík. Skólinn er tímabundið úrræði. Björk Jónsdóttir er skólastjóri Brúarskóla.
Í Vesturhlíð, höfuðstöðvum skólans, er pláss fyrir 24-27 nemendur en nú eru 24 nemendur í skólanum. Björk segir það fara eftir samsetningu nemendahópsins hverju sinni hversu margir nemendur eru í Vesturhlíð en mjög algengt að þeir séu 24-25. Síðan er Brúarskóli með starfsstöðvar á barna- og unglingageðdeild, Stuðlum, Brúarhúsi, sem er þátttökubekkur innan Húsaskóla, og Brúarseli, þátttökubekk við Ingunnarskóla.
Alls eru nemendurnir um fimmtíu talsins þegar allt er talið. 12 nemendur eru á bið eftir því að komast að í skólanum en flestir eru á unglingastigi.
„Um leið og nemandi útskrifast úr Brúarskóla er annar tekinn inn. Mjög mismunandi er hvenær nemendur koma inn og hversu lengi þeir þurfa að bíða á biðlista. Við metum hverja umsókn fyrir sig og til grundvallar er skoðuð þörfin og erfiðleikastig varðandi hegðun, ekki endilega sá sem hefur verið lengst á biðlista.
Þetta getur verið erfitt fyrir þá skóla sem eru að bíða eftir því að nemendur frá þeim komist að hjá okkur en því miður er það þannig að við verðum að forgangsraða og meta hverja umsókn,“ segir Björk.
Salvör segir að Brúarskóli hafi átt að vera brú en vegna mikillar eftirspurnar hefur hann ekki náð að vera slíkt úrræði. „Þannig að hér er hópur barna sem bíða eftir úrræðum og fá ekki þá þjónustu sem þai eiga rétt á.
Í fjórða lagi höfum við heyrt af nokkrum dæmum þar sem skólinn mætir börnum með mikinn vanda með því að bjóða þeim skerta viðveru. Þau fá þá bara að vera í skóla hluta úr degi og ég spyr hver er heimild skólanna til þess að skerða stundatöflu skólaskyldra barna í grunnskólum,“ segir Salvör.
Umræðu um stöðu barna sem glíma við skólaforðun eða fá ekki viðunandi úrræði í skólanum þarf einnig að setja í samhengi við brottfall úr framhaldsskólum landsins. „Brottfall úr framhaldsskólum byrjar í oftast í grunnskólum, t.d. með skólaforðun eða vegna þess að börnin eru ekki að fá þá þjónustu sem þau þurfa,“ bætir hún við en brottfall úr framhaldsskólum er vaxandi áhyggjuefni á Norðurlöndunum og rannsóknir sýna að 20-30% framhaldsskólanema eru horfin frá námi við 20 ára aldurinn.
Umboðsmaður barna bendir á að í 2. gr. grunnskólalaga sé kveðið á um að grunnskóla beri að haga störfum sínum í samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Í aðalnámskrá grunnskóla er einnig fjallað um jöfn tækifæri barna til náms. Í kafla 7.2 kemur fram að allir nemendur í grunnskóla eigi rétt á að stunda nám við sitt hæfi og eiga tækifærin að vera jöfn óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Er sérstaklega áréttað að tækifærin séu sambærileg og óháð því hvernig heilsufari viðkomandi nemanda er háttað eða hvort hann býr við fötlun eða hverjar aðstæður hans eru að öðru leyti.
Í kafla 7.3. er fjallað um þá skyldu sveitarfélaga að sjá til þess að skólaskyld börn fái sérstakan stuðning í skólastarfi í samræmi við sérþarfir þeirra. Kemur þar fram að nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.
Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010 kemur fram í 4. gr. að nemendur eigi rétt á að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í skóla án aðgreiningar og án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Þá eiga nemendur í grunnskóla rétt á að sjónarmiðum þeirra sé gefin gaumur miðað við aldur þeirra og þroska og þeim veitt aðstoð, þar sem tekið er tillit til sérþarfa þeirra og aldurs.
„Auðvitað eru börn með missterkan félagslegan bakgrunn og ef þau eru ekki með það aðhald sem þau þurfa detta þau jafnvel úr skóla þrátt fyrir að hér sé skólaskylda. Við vitum af rannsóknum að börn sem mæta ekki í skólann eru í mun meiri áhættu, eins og neyslu vímuefna, og hættu á félagslegum vanda, kvíða og þunglyndi. Það er því mikilvægt að bregðast strax við þegar börn lenda í vanda innan skólans og er í samræmi við stefnu félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, sem hefur lagt áherslu á snemmtæka íhlutun - svo hægt sé að koma í veg fyrir að börn lendi í slíkum vanda.“
Salvör veltir því upp hvort margt í skólakerfinu þurfi að hugsa upp á nýtt t.d. hvort mörkin milli leikskóla- og grunnskólastigs ættu að vera sveigjanlegri og meiri samvinna þegar börn færast á milli skólastiga þar sem tekið er meira tillit til þroska en aldurs. Til að mynda er þroski kynjanna ólíkur og það getur verið mikill munur á börnum í hverjum árgangi eftir því hvort þau eru fædd snemma eða seint á árinu. Sumum hentar betur að læra í gegnum leik. Sumum hentar að vera styttra í leikskóla og öðrum lengur og svipað gæti verið upp á teningnum þegar kemur að lokum grunnskólans og upphafi framhaldsskóla.
„Við eigum að vera tilbúin að ræða nýjar hugmyndir. Skóli snýst um svo miklu meira en nám í tilteknum greinum. Hann er sífellt að verða stærri og stærri hluti af lífi barna þar sem þau dvelja lungann af deginum. Víða er verið að vinna mjög flott starf í skólum og við eigum að treysta kennurum og skólastjórnendum og gera þeim kleift að gera hlutina eins og þeir telja rétt og best. Þau eru sérfræðingar í að kenna börnum okkar og við þurfum að treysta þeim og gefa þeim meira frelsi í starfi.
Með breyttu samfélagi er hlutverk skólans að breytast og um leið kröfurnar sem við gerum til hans. Skólinn hefur ríkara hlutverk í að ala upp börnin en áður og skilin milli heimilis og skóla eru orðin minni og breytt. Verðum að vera tilbúin að ræða þau og takast á við þau. Hér skiptir máli hvernig við ræðum um skólakerfið og afstaða foreldra til skólans. Hér þurfum við líka að skoða hvernig við undirbúum og menntum kennara og annað starfsfólk skólanna til að styðja við börn sem koma úr mismunandi aðstæðum og með mismunandi þarfir,“ segir Salvör.
Eitt af því sem hún nefnir þegar talið berst að skóla án aðgreiningar er réttur allra barna til menntunnar. Við þurfum að tryggja að allir fái sambærilega menntun.
„Þegar verið er að bregðast við vanda barna t.d. varðandi skólaforðun, hvort sem það er í skólanum eða í sveitarfélögum virðast viðbrögðin oft fara eftir því hvaða skóli eða sveitarfélag á í hlut. Að okkar mati þarf því að samræma reglur um viðbrögð. Einnig er mikilvægt að viðbrögð við vanda barna byggist á gagnreyndum aðferðum, aðferðum sem hafa sýnt sig að skili árangri.
Skortur á samræmingu í viðbrögðum getur haft þær afleiðingar að þjónustan er ekki sú sama alls staðar sem gengur þvert á jafnræðisregluna sem felur í sér að ef þú flytur á milli sveitarfélaga áttu að eiga rétt á sömu þjónustu. Að minnsta kosti á þann veg að hægt sé að ganga að einhverri lágmarksþjónustu,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.