Nemendur sem vinna sjaldan eða aldrei með verkefni við hæfi fá oft skólaleiða sem jafnvel verður að skólaforðun eða síðar brottfalli úr skóla. Það er dýrt fyrir samfélagið og skaðlegt þessum einstaklingum, segir Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi við Hörðuvallaskóla.
Nemendur sem vinna sjaldan eða aldrei með verkefni við hæfi fá oft skólaleiða sem jafnvel verður að skólaforðun eða síðar brottfalli úr skóla. Það er dýrt fyrir samfélagið og skaðlegt þessum einstaklingum, segir Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi við Hörðuvallaskóla.
Nemendur sem vinna sjaldan eða aldrei með verkefni við hæfi fá oft skólaleiða sem jafnvel verður að skólaforðun eða síðar brottfalli úr skóla. Það er dýrt fyrir samfélagið og skaðlegt þessum einstaklingum, segir Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi við Hörðuvallaskóla.
„Ég held að það mikilvægasta varðandi bráðgera eða snjalla nemendur sé að þar sem þeir eru oft fljótir að nema, þurfi þeir ekki að sýna fram á þá hæfni mörgum sinnum. Það er leiðigjarnt að vera alltaf að vinna með eitthvað sem maður kann. En ég er alls ekki hlynnt því að viðbrögð skólans eigi að vera að færa viðkomandi á milli ára. Bráðger nemandi er kannski mjög klár á sumum sviðum, aðallega þar sem áhugi hans liggur en það þýðir ekki að hann sé framar jafnöldrum á öllum sviðum. Ég held að til þess að skólakerfið geti komið til móts við alla sé best að það séu hópar í kringum verkefni (nema fyrir tíma eins og bekkjafundi) sem eru unnin þvert á aldursstig, eftir hæfni hvers og eins,“ segir Anna María.
Í fyrra höfðu foreldrar drengs í fimmta bekk samband við skólann þar sem hann var ekki jafn áhugasamur um námið og hann hafði verið áður. Hann var komin með bullandi skólaleiða. Í ljós kom að hann vantaði bara verkefni við hæfi. Hún segir að í kjölfarið hafi skólinn farið í tilraunaverkefni með þessum nemanda og tveimur öðrum þar sem þeir voru að vinna með viðeigandi verkefni. Í vor voru umsjónarkennarar við Hörðuvallaskóla beðnir um að benda á nemendur sem falli í hóp bráðgera nemenda og komu upp 12 nöfn af miðstiginu. Í kjölfarið fengu kennarar fræðslu um þennan hóp og mikilvægi þess að þeir væru ávalt með verkefni við hæfi.
„Við hjá Hörðuvallaskóla vorum svo heppin að foreldrar þessa drengs höfðu samband við stjórnendur skólans vegna námsleiða hans því að við fórum þá að skoða þessi mál sérstaklega hjá okkur og leita að leiðum til að koma til móts við þennan hóp. Í kjölfarið fórum við að velta fyrir okkur þessum nemendum á unglingastigi sem við upplifum að séu með námsleiða og veltum fyrir okkur hvort að í þeim hóp séu einhverjir nemendur sem hefðu grætt á því að svona úrræði hefðu verið í boði fyrir þá?
Það eru ýmsar birtingarmyndir námsleiða og við þekkjum að hegðunarvandamál geta líka bent til þess að námsefnið sé of létt eða jafnvel of þungt. Stundum verður lítill tími til annars í skólum en að slökkva elda og úrræði til að vinna dýpra með uppákomur fá ekki nægt svigrúm,“ segir Anna María.
Spurð frekar út í drenginn í fimmta bekk segir Anna María að hún hafi byrjað á að kenna honum á tvíundarkerfið sem hann greip strax. Næst tóku þau fyrir gríska snillinga, þar á meðal Pýþagóras. Til þess að hún gæti aðstoðað hann þurfti hún að rifja upp Pýþagórasregluna sem gildir um tengsl hliða í rétthyrndum þríhyrningi. „Dæmin sem ég bjó til fyrir hann leysti hann um leið þannig að ég sá að ekki liði á löngu þangað til ég yrði uppiskroppa með verkefni fyrir hann.“
Anna María er í hópi þeirra kennara sem fylgjast vel með þróun í kennslufræðum og er óhrædd við að prófa sig áfram. Á UTIS ráðstefnunni í fyrra, sem Anna María sótti ásamt fleiri fróðleiksfúsum kennurum, var 20time verkefnið kynnt og ákveðið að taka það upp í Hörðuvallaskóla.
20time er áhugasviðsverkefni sem er hugsað út frá módeli sem Google kom með um að 20% af tíma starfsmanna átti að fara í annað en það sem fólk var ráðið til að vinna við. Anna María segir að hægt sé að finna mörg verkefni á netinu í tengslum við 20time.
„Þessi nemandi sem kom fyrst til mín er mikill fræðimaður og hugsuður. Hann ákvað í gegnum þetta verkefni okkar að gera YouTube myndbönd til að kenna öðrum og auka áhuga á efnafræði. Við létum hann fá kennslubók sem er notuð á unglingastigi og honum fannst eins og við hefðum gefið honum jólagjöf. Hann las bókina spjaldanna á milli og var eftir það kominn miklu lengra en við sem vorum að vinna mest með honum,“ segir hún en tveir aðrir klárir nemendur á miðstigi voru til viðbótar í þessu tilraunaverkefni.
Það er alltaf hætta með bráðger börn að þegar þau hafa eitthvað sérstakt áhugasvið að þau hafi ekki neinn til þess að ræða við. Við vorum aftur á móti svo heppin að í skólanum starfaði ung kona sem var að ljúka lífeinda- og sameindalíffræði í háskólanum og hún var til í að spjalla við þennan nemanda um verkefnið og aðstoða hann. Dagurinn sem þau hittust er besti dagur þessa nemanda frá því hann hóf nám í grunnskóla að hans sögn. Loksins fékk hann einhvern til að spegla sig í, segir Anna María.
Hún leggur þó áherslu á að nemendur sem eru teknir úr tímum í sérstök verkefni eins og þetta þurfi einstaklingsnámskrá því að verkefnin eiga ekki að vera íþyngjandi á nokkurn hátt. Ef að þeir eiga að ná öllu sem aðrir gera og gera aukalega önnur tímafrek verkefni erum við að skapa þeim óþarfa álag og þar sem bráðgerir nemendur eru oft fullkomnunarsinnar, þá getur þetta beinlínis verið þeim skaðlegt. Þeir eru klárir en engin ofurmenni.
Hún segir að ekki sé hægt að setja öll bráðger börn undir sama hatt en á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Þau börn teljast bráðger sem sýna framúrskarandi hæfileika, hvort sem er á einu eða mörgum sviðum. Bráðger börn eru líklegri en önnur börn til að:
Anna María segir að námsbækur geti alls ekki þjálfað alla hæfni eða náð til allra nemenda. „Oft held ég því að þau séu ekki að fá verkefni við hæfi og kennslubækurnar frá Menntamálastofnun virðast skrifaðar fyrir meðalnemanda þó að sumar af nýrri bókunum séu betri fyrir breiðari hóp nemenda. Við í Hörðuvallaskóla leggjum mikla áherslu á að kennarar horfi frekar á hæfniviðmið og geri verkefni út frá þeim í stað þess að horfa á bókina sem er kannski orðin gömul og ekki í takt við nútíma áherslur. Bækur eiga ekki að stjórna námi og kennslu.“
Mikil ánægja er með leikskólastigið meðal nánast allra foreldra þrátt fyrir að líða fyrir skort á starfsfólki með kennaramenntun. Foreldrar barna sem ekki falla inn í ákveðinn ramma kvarta oft yfir því hvernig líf þeirra breytist við að fara úr leikskóla í grunnskóla. Hegðun þeirra versni og þeim líði illa.
Anna María segir að mikil breyting verði á lífi barna þegar þau fara af leikskólastigi yfir í grunnskólann. Þegar þau er í leikskóla amast enginn við því að þau segi himin bleikan og að öndin sé með rana. Í grunnskóla séu þau oftar sett í einhvern fyrirfram ákveðinn ramma.
„Þetta er átak fyrir þau en það má vel nota sömu hugmyndafræði og er í leiksskólum – að kenna í gegnum leik. Verkefni sem krefjast sköpunar og tengjast áhugasviði nemenda verða oft meiri leikur í þeirra augum og það skilar meiri árangri ef þeir tengja betur við verkefnin en þeir gera þegar tími þeirra fer í að að svara spurningum úr bókum. Með þessu er hægt að koma á móts við miklu stærri hóp en annars væri,“ segir Anna María.
Í vetur eru allir nemendur í 7. til 10. bekk með lokaverkefni sem byggist á sömu hugmyndafræði og unnið var með nemendunum þremur í fyrra vetur eða áhugasviðsverkefnum sem eru sett upp eins og 20time verkefni.
Anna María segir að lokaverkefnið snúist ekki síst um þrautseigju og þó svo að nemendur fái einhverja aðra hugmynd að verkefni þegar líður á veturinn þá, í stað þess að skipta um verkefni, eigi þeir að sníða það út úr upprunalegu hugmyndinni. En fyrst og fremst snýst þetta þó um áhugasvið nemenda og í gegnum þessi verkefni að gefa nemendum tækifæri til að sýna hæfni sína á einhverju sviði sem við höfum ekkert endilega verið að kenna og fá þau metin inn í hæfniviðmiðin.
„Eitt af því sem við erum ekki að þjálfa mikið í skólum í dag er einmitt þrautseigja. Nemendur hoppa úr einu í annað allan daginn og eiga að vera ótrúlega áhugasöm í stærðfræði í 40 mínútur, síðan í ensku, íslensku og koll af kolli. Ég vil helst að lokaverkefnin séu einstaklingsverkefni þar sem vinir eru ekki alltaf með sama áhugasvið en þeir kjósa oftast að vinna í pörum og þannig fá stuðning hver frá öðrum. Umhverfismál eru þau málefni sem eru sennilega efst í huga ungmenna í dag og það væri vel hægt að vinna svona lokaverkefni út frá því. Aðalmálið er að verkefnið sé fyrir einhvern og það hafi einhvern tilgang.
Í sjöunda bekk í ár erum við að leggja meiri áherslu á þemanám. Þar þjálfum við m.a. ábyrgð nemenda á eigin námi sem er eitthvað sem aðalnámskrá leggur áherslu á. Við viljum að nemendur hafi eitthvert frelsi til að stýra eigin tíma og hvernig þeir komi verkefnum frá sér. Það geta allir lært og í grunnskóla áttu að fá tækifæri til að vinna með þína eigin styrkleika. Þó svo að þú eigir erfitt með að lesa eða lesir hægt þýðir það ekki að þú getir ekki verið hrikalega góður í einhverju öðru. Þú átt að fá leyfi til að blómstra og fá verkefni við hæfi,“ segir Anna María.
Spurð um hvernig nemendur og foreldrar taki þessu segir Anna María að þetta hafi mælst vel fyrir en þetta er enn bara í startholunum. Sumir hafi þó haft áhyggjur af samræmdum prófum en skólastarf eigi ekki að hverfast um slík próf.
„Í fyrsta lagi eru þau breytingum háð og þau ættu að mæla það sem er ekki beint kennt upp úr námsbókum ef þau eiga að vera eitthvert raunverulegt mælitæki. Það er misjafnt hvaða bækur og hvaða áherslur eru á milli skóla. Svo vitum við ekki hvaða áherslur verða þegar þessi árgangur verður í níunda bekk en það er eina prófið sem gæti gagnast nemendum. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvaða hæfni er verið að mæla hjá nemanda sem kann að sýna útreikning en getur ekki yfirfært það á raunverulegt verkefni.
Nemendur sem eiga kannski erfitt með bóknámið eru oft að gera stórkostlega hluti í öðrum greinum. Ég man eftir nemanda sem er greindur einhverfur og hefur átt mjög erfitt með bóknám. Hann fékk að njóta sín í smíðastofunni í verkefnavinnu og einu sinni hitti ég hann þar sem hann var með móðurborð úr tölvu að lóða. Ég spurði hann hvers vegna hann væri ekki í tíma í fjármálalæsi. Hans svar að hann væri að reyna að breyta móðurborðinu þannig að ég gæti grafið eftir bitcoins. Hverjum hefði dottið þetta í hug öðrum en snillingi? Við kennarnir hefðum aldrei farið fram á að hann sýndi viðlíka hæfni eða forvitni.
Þannig hafa allir nemendur einhvern styrkleika og við þurfum að læra að meta þá. Við gerum það ekki með því að beita sama skala á alla. Nemendur sem fá A í öllu eru líklega ekki með námsefni við hæfi, ekkert frekar en þeir sem fá alltaf lágar einkunnir.
Til að mynda er hætta á að bráðgerir nemendur séu að skila lélegum verkefnum miðað við eigin getu. Við erum oft að gefa þeim gott matsmat fyrir verkefni sem er langt fyrir neðan þeirra getu af því það er betra en hinna.“
Próf sem kanna þekkingu úr kenndu námsefni hafa takmarkað tilgang fyrir nemendur að sögn Önnu Maríu. Ef margir fá lágt á prófinu gæti það verið merki um að kennarinn útskýrði efnið ekki nógu vel. Ef sömu nemendur eru alltaf að fá lágt námsmat, gæti það sýnt að kennslan eða námsmatið er ekki án aðgreiningar og ef að sumir fá alltaf hátt á prófum eru þeir líklega ekki að vinna með námsefni við hæfi. Hvernig sem litið er á þetta verða próf oft meiri prófsteinn á kennsluna en þekkingu nemenda. Ég veit að það eru ekki allir sammála mér hér en leiðsagnarmat er málið að mínu mati.
Leiðsagnarmat er mat sem lagt er fyrir nemendur jafnt og þétt allt námsárið með það að markmiði að nota niðurstöðurnar til að bæta námsárangur og kennslu. Leiðsagnarmatið þarf að byggjast á raunhæfum gögnum um stöðu og framvindu náms. Því þarf matið að vera fjölbreytt og skráning þess stöðug. Nemandi og kennari eru stöðugt virkir en frekar er fjallað um leiðsagnarmat í viðtali við þær Eddu Kjartansdóttur og Nönnu Kristínu Christiansen.
Anna María fór fremur seint í kennaranám en hún ákvað að verða dönskukennari 38 ára gömul. Ástæðan var sú að börn hennar þrjú höfðu kvartað yfir því hvað dönskukennslan sem þau fengu væri óspennandi. „Ég hugsaði með mér: ég get gert þetta betur og skildi ekki af hverju þetta fag þurfti að fá svona viðbrögð. Ég taldi mig geta gert þetta skemmtilegra. Ég var mjög fljót að henda út bókunum sem voru í notkun þar sem mér sjálfri fannst þær leiðinlegar og í staðinn láta nemendur vinna meira með eigin áhugasvið og tengja námið við notkun á upplýsingatækni,“ segir Anna María sem starfaði um árabil við Hólabrekkuskóla.
Hún fór fljótt að nýta sér tæknina við kennslu og er í hópi sem nefnist VEXA sem vinnur að þróun og eflingu snillismiðja í grunnskólum á landinu. Vexa hópurinn býður upp á námskeið sem hafa verið haldin fyrir utan höfuðborgina hingað til en Vexa hefur fengið ýmsa styrki til að efla starfsemina innanlands en einnig Erasmus-styrk til að byggja upp erlent tengslanet og þróast áfram í Maker hugmyndafræðinni.
Hún segir að þegar hún hóf störf sem kennsluráðgjafi hjá Hörðuvallaskóla haustið 2018 hafi hún strax í upphafi gengið út frá því að gera nemendur meiri þátttakendur í eigin námi og það hafi verið leiðarljósið í hennar starfi innan skólans. Það hafi hún meðal annars gert með því að fara yfir hæfnisviðmiðin í hverri námsgrein með hópi nemenda í áttunda og níunda bekk síðasta vetur. Þeir nemendur munu í vetur aðstoða nemendur á miðstigi við að skilja betur hæfniviðmiðin og sýna þeim hvernig þeir geti haft meiri áhrif á eigið nám.
„Samfélagið er að breytast og áherslur skólanna líka. Við þurfum að undirbúa nemendur fyrir þeirra framtíð en ekki okkar fortíð eins og Andreas Schleicher yfirmaður menntamála hjá OECD hefur sagt og sýna þeim hvernig til að mynda tæknin virkar svo þau verði ekki fórnarlömb hennar síðar meir. Lykilhæfnin í aðalnámskrá er besta verkfærið sem skólarnir hafa til að uppfylla þetta. Þegar nemendur fá tækifæri til að nota og þjálfa eigin sköpunarhæfni, þjálfast í að tjá sig og ígrunda verkefni sín, sýna sjálfstæð vinnubrögð og vinna með öðrum, geta nýtt þau verkfæri sem í boði eru og metið og borið ábyrgð á eigin námi eru þeim allir vegir færir hvort sem þeir eru snöggir að nema eða ekki,“ segir Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi við Hörðuvallaskóla.