Allir fái menntun við sitt hæfi

Skóli fyrir alla? | 20. september 2019

Allir fái menntun við sitt hæfi

Arnarskóli hefur sérstöðu í íslensku skólakerfi. Skólinn er sjálfstætt starfandi og nemendur skólans fá einstaklingsmiðaða heildstæða þjónustu þar sem hver nemandi er með manneskju með sér á meðan hann er í skólanum. Þegar skólinn hóf starfsemi fyrir tveimur árum voru nemendurnir tveir. Í dag eru nemendur Arnarskóla orðnir 17 og starfsmennirnir eru 36 talsins.

Allir fái menntun við sitt hæfi

Skóli fyrir alla? | 20. september 2019

Atli Magnús­son­, fram­kvæmda­stjóri Arn­ar­skóla, og María Sig­ur­jóns­dótt­ir, fag­stjóri í skól­an­um.
Atli Magnús­son­, fram­kvæmda­stjóri Arn­ar­skóla, og María Sig­ur­jóns­dótt­ir, fag­stjóri í skól­an­um. mbl.is/Hari

Arnarskóli hefur sérstöðu í íslensku skólakerfi. Skólinn er sjálfstætt starfandi og nemendur skólans fá einstaklingsmiðaða heildstæða þjónustu þar sem hver nemandi er með manneskju með sér á meðan hann er í skólanum. Þegar skólinn hóf starfsemi fyrir tveimur árum voru nemendurnir tveir. Í dag eru nemendur Arnarskóla orðnir 17 og starfsmennirnir eru 36 talsins.

Arnarskóli hefur sérstöðu í íslensku skólakerfi. Skólinn er sjálfstætt starfandi og nemendur skólans fá einstaklingsmiðaða heildstæða þjónustu þar sem hver nemandi er með manneskju með sér á meðan hann er í skólanum. Þegar skólinn hóf starfsemi fyrir tveimur árum voru nemendurnir tveir. Í dag eru nemendur Arnarskóla orðnir 17 og starfsmennirnir eru 36 talsins.

Að sögn Atla Magnússonar, framkvæmdastjóra Arnarskóla, og Maríu Sigurjónsdóttur, fagstjóra í skólanum, er Arnarskóli fyrir nemendur á grunnskólaaldri með einhverfu og önnur þroskafrávik. Atferlisíhlutun er notuð við þjálfun og kennslu barnanna en með heildstæðri skólaþjónustu er átt við að þjónustan er veitt alla virka daga ársins, skóli, frístund og sumarfrístund fer öll fram á sama stað með sama starfsfólkinu. Eins er reynt að koma því við að önnur íhlutun (s.s. talþjálfun, iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun) fari einnig fram innan veggja Arnarskóla þannig að ekki þurfi að rjúfa skóladag nemenda. Að sögn Atla annast Trappa talþjálfun nemenda í skólanum en vonir standi til að iðjuþjálfi og sjúkraþjálfari verði komnir til starfa í skólanum á næstu mánuðum. 

Í dag eru nemendur skólans í fyrsta til áttunda bekk. „Við tölum um að hér geti verið 25 nemendur en sjáum fyrir okkur í framtíðinni að vera með þrjár álmur og alls 45-50 börn. Ég efast um að hópurinn sem þarf á okkar þjónustu að halda sé stærri en það. Draumurinn er að geta létt álaginu á Klettaskóla og sérdeildum í grunnskólum. Þannig gætu þær sinnt sínu hlutverki betur en þær gera í dag þar sem það vantar fleiri hendur og um leið úrræði.

Við hjá Arnarskóla horfum meira á stuðningsþarfir barna en greiningar, því tvö börn með sömu greiningu geta þurft mismikinn stuðning. Sum börn eru með þannig einhverfu að hún hefur mjög truflandi áhrif á virkni og getu til að læra, á meðan önnur þurfa mun minni stuðning. Þau eiga oft erfitt með að fóta sig í almenna skólakerfinu og þurfa manninn með sér eins og hér er. Ekki er alltaf samasemmerki við greiningar og þann stuðning sem þau þurfa á að halda og við horfum meira til þess stuðnings sem þau þurfa óháð greiningu og þann stuðning fá þau hér,“ segir Atli.

María segir að sum börn með þroskahömlun og börn með einhverfu geti stundað nám í almenna skólakerfinu. „Arnarskóli  hefur verið í góðri samvinnu við Klettaskóla og við finnum fyrir miklum meðbyr frá starfsfólki Klettaskóla. Okkur finnst mjög mikilvægt að þessi skóli er með aðra þjónustu og aðrar áherslur en aðrir skólar, segja Atli og María. Ekki er til eitt snið sem hentar öllum og við viljum vera besti skólinn fyrir ákveðinn hóp líkt og aðrir skólar fyrir aðra hópa.“

Einhverfa hverfur ekki um jólin

Starfsemi Arnarskóla er svolítið mörkuð af skorti á þjónustu í …
Starfsemi Arnarskóla er svolítið mörkuð af skorti á þjónustu í kerfinu. Þessu kynntumst við í störfum okkar hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og ákváðum að stofna skólann," segja stjórnendur Arnarskóla. mbl.is/Hari

„Starfsemi Arnarskóla er svolítið mörkuð af skorti á þjónustu í kerfinu. Þessu kynntumst við í störfum okkar hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og ákváðum að stofna skólann. Við erum ekki í samkeppni við Klettaskóla líkt og einhverjir gætu talið en vegna strangra viðmiða fyrir inngöngu í Klettaskóla, sem er sprunginn og færri komast að en sækja um, vildum við bjóða þessum hópi, sem við þekktum úr okkar starfi, þjónustu sem hann á rétt á í íslensku samfélagi. Okkur fannst vanta úrræði fyrir börn með flóknustu þarfirnar en það eru oft þau börn sem þurfa að leita á flesta staði eftir þjónustu en mega síst við því. 

Það vantaði sárlega skóla þar sem þessu starfi væri fléttað saman, það er skóla, frístund og sumarfrístund. Fyrir sum börn er uppbrot, eins og langt sumarleyfi, mjög erfitt. Til að mynda fyrir börn með hegðunarvanda og það er erfitt fyrir foreldra að þurfa að senda börn sín í hendur á nýju og nýju fólki sem kannski er ekki sérmenntað eða þjálfað í að vinna með börnum með sérþarfir. Svo ekki sé talað um mikla starfsmannaveltu í flestum stuðningsúrræðum,“ segir Atli. 

María tekur undir þetta og segir að nemendur skólans þurfi meiri stöðugleika og fagaðila til að vinna með sér, ekki bara frá 8.30 til 14 yfir vetrartímann heldur allan daginn allt árið því einhverfa hverfi ekki í júlí og ágúst, eða um jólin. 

„Námið er einstaklingsmiðað og við erum með þverfaglega nálgun þar sem fjölbreyttur hópur sérfræðinga kemur að starfinu. Atferlisfræðingur vinnur í skólanum alla daga sem og kennarar. Þeir koma að vinnu við gerð einstaklingsáætlana fyrir öll börn sem eru í skólanum. Ýmis færni sem við erum að vinna með er hugsuð til þess að gera þau sjálfstæðari þátttakendur í samfélaginu í framtíðinni,“ segir hún. 

„Námið er einstaklingsmiðað og við erum með þverfaglega nálgun þar …
„Námið er einstaklingsmiðað og við erum með þverfaglega nálgun þar sem fjölbreyttur hópur sérfræðinga koma að starfinu, segir María Sigurjónsdóttir. mbl.is/Hari

Þau segja markmiðið að taka mið af því hvernig barnið er statt og ef það er statt á þeim stað að geta ekki valið á milli tveggja hluta er byrjað að vinna með það. „Ákveðið lýðræði er falið í því að geta valið í hverju maður vill klæðast eða hvað maður vill borða. Færni sem yfirleitt kemur snemma fram hjá börnum en sumum þarf að kenna þessa færni. Síðan erum við með aðra nemendur sem kunna að lesa og skrifa og þá er aðkoma kennarameiri með þeim börnum. Aðkoma kennara getur bæði verið í beinni vinnu með barnið eða handleiðsla við stuðningsaðila barnsins. Við miðum við stöðu hvers og eins og með sumum nemendum er kennari með mikla aðkomu en minni með öðrum. Fer allt eftir stöðu barnsins,“ segir Atli. 

Tveir þriðju þeirra sem starfa á gólfinu í Arnarskóla eru með fagmenntun á þessu sviði en þriðjungur er ungt fólk sem yfirleitt er í námi eða stefnir á nám á þessu sviði.

Allir nemendurnir búa í foreldrahúsum og eru í Arnarskóla í átta klukkustundir á dag. Sum þeirra þyrftu mun meiri þjónustu en þar er pottur brotinn, það er búsetuúrræði fyrir fötluð börn. Stundum eru aðstæður þannig að mjög erfitt er að vera með mjög fötluð börn á heimili, mikill hegðunarvandi sem getur reynst foreldrum og systkinum þungur í skauti, segja þau. „Fyrir þessar fjölskyldur er fátt annað í boði en hvíldarinnlögn og liðveisla sem er ekki alltaf nóg,“ segir María. „Í gegnum starf okkar á Greiningarstöðinni höfum við séð allt of margar fjölskyldur brotna undan álagi. Aðstæðurnar eru oft óyfirstíganlegar,“ bætir Atli við.

Nemendur koma af öllu höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og ýmist eru það foreldrar eða sveitarfélögin sem leita til skólans segir María. Yfirleitt eru það foreldrar sem hafa haft samband að fyrra bragði, en unnið er með fræðsluyfirvöldum í sveitarfélögunum í inntökuferlinu. 

Of mikil áhersla á bóklega hlutann í stað starfsnáms

Við erum ekki í samkeppni við Klettaskóla líkt og einhverjir …
Við erum ekki í samkeppni við Klettaskóla líkt og einhverjir gætu talið, segir Atli Magnússon, framkvæmdastjóri Arnarskóla. mbl.is/Hari

„Skóli án aðgreiningar á ekki að vera sparnaðartæki. Skóli án aðgreiningar á ekki að snúast um að allir eigi að vera í sömu byggingunni heldur að skólakerfið komi til móts við þarfir allra og að allir fái menntun við hæfi í sínu nærsamfélagi, hvort sem það er í sveitarfélaginu sem barnið er með lögheimili eða í nágrannasveitarfélögum. Ekki er hægt að ætlast til þess að það séu sérfræðingar í öllu í öllum skólum. Eins og skólastarfi er háttað í dag eru kennarar störfum hlaðnir. Með því að bjóða upp á þessa þjónustu erum við að vona að aðrir skólar geti betur sinnt þeim fjölbreytta hópi barna sem hjá þeim er. Við vonum því að við séum stuðningur við skóla án aðgreiningar og vonandi verður það þannig í framtíðinni,“ segir Atli. 

Þau eru sammála um að skort hafi á starfsnámshluta í ýmsum fögum sem snúa að stuðningi við börn. Til að mynda í þroskaþjálfanáminu en þar er of mikil áhersla á bóklega hlutann og réttindagæslu á kostnað þess að vinna með fólki, segir Atli. 

„Það sama má segja um sérkennslufræði og skóli margbreytileikans til M.Ed.-prófs, sem er kennd í deild menntunar og margbreytileika, en var áður sérkennslufræði. Þar er ekki gerð krafa um starfsnám og því það er hægt að útskrifast án þess að hafa unnið með barni. Þetta er hins vegar að breytast og háskólarnir eru byrjaðir að endurskoða sitt nám. Við viljum vera í samstarfi við háskólana með því að vera starfsþjálfunarstaður. Við erum þegar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og erum að vinna að gerð samkomulags við Háskóla Íslands,“ segir Atli. 

Þau segja að enn hafi ekki komið til þess að barn hafi komið í skólann sem þau hafi ekki getað þjónustað. Eðlilega hafi komið upp spurningar þar að lútandi en þau segja að starfsfólk Arnarskóla hafi sterkt bakland sérfræðinga á svið atferlisfræði sem hafi reynst þeim ótrúlega vel.

Upphaflega hugmyndin var að deila húsnæði með almennum skóla en það hefur ekki orðið. Stjórnendur Arnarskóla lögðu ríka áherslu á að skólinn yrði ekki deild í öðrum skóla, og að Arnarskóli yrði rekinn sem sjálfstæð eining en kannski í samstarfi við aðra skóla. Ekki eru greidd skólagjöld í Arnarskóla heldur greiða sveitarfélögin fyrir sína nemendur. Foreldrar greiða aftur á móti fyrir hádegismat og frístund líkt og í öðrum grunnskólum.

Þungur rekstur enda dýrt úrræði

Nemendur Arnarskóla koma af öllu höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.
Nemendur Arnarskóla koma af öllu höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. mbl.is/Hari

Arnarskóli er í samstarfi við Hofstaðaskóla í Garðabæ og þau sjá fyrir sér samstarf við fleiri skóla í framtíðinni þar sem hvor aðili getur stutt hinn. „Við erum að horfa til frekara samstarfs við Kópavog og erum afar þakklát fyrir að hafa fundið húsnæði í Kópavogi þar sem bæjaryfirvöld hafa tekið okkur vel og stutt við okkur,“ segir Atli. 

Rekstur skólans er þungur enda rekstur á skóla sem þessum dýrt úrræði. Við sem rekum skólann leggjum allt okkar í sölurnar og erum svo sannarlega ekki að þessu til að græða. Þetta er okkar hjartans mál og það sama á við um allt starfsfólk skólans segja þau Atli Magnússon og María Sigurjónsdóttir.

Til að standa undir fjármögnun á kostnaðarsömum framkvæmdum við skólann til að bæta aðstöðu nemenda bæði innanhúss, sem og við skólalóð þurfum við að reiða okkur á framlög og styrki frá einstaklingum og félagasamtökum. Nú er verið að safna fyrir breytingum á aðstöðu nemenda innanhúss sem og utan og er það gert með fjáröflun þar sem hópur fólks hringir út fyrir skólann og safnar framlögum. Við höfum líka fengið rausnarlega styrki t.d. frá Oddfellow, en að öðrum ólöstuðum hefur Kvenfélagið í Kópavogi verið burðarstólpi í fjármögnun á þessum framkvæmdum. Við erum þeim, sem og öllum sem hafa styrkt okkur, ótrúlega þakklát.

María Sigurjónsdóttir, fagstjóri Arnarskóla og Atli Magnússon, framkvæmdastjóri skólans, segja …
María Sigurjónsdóttir, fagstjóri Arnarskóla og Atli Magnússon, framkvæmdastjóri skólans, segja að Arnarskóli hafi orðið til vegna skorti á þjónustu í kerfinu fyrir þennan hóp barna. mbl.is/Hari
mbl.is