Fljótlega eftir að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir settist í borgarstjórn Reykjavíkur varð hún ósátt við hvernig var staðið að þjónustu fyrir börn sem þurftu á sérkennslu að halda sem og bráðger börn. Þegar hún hætti í stjórnmálum ákvað hún að snúa sér alfarið að menntamálum og stofnaði fyrirtækið Tröppu árið 2014 ásamt Tinnu Sigurðardóttur talmeinafræðingi sem er framkvæmdastjóri Tröppu.
Fljótlega eftir að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir settist í borgarstjórn Reykjavíkur varð hún ósátt við hvernig var staðið að þjónustu fyrir börn sem þurftu á sérkennslu að halda sem og bráðger börn. Þegar hún hætti í stjórnmálum ákvað hún að snúa sér alfarið að menntamálum og stofnaði fyrirtækið Tröppu árið 2014 ásamt Tinnu Sigurðardóttur talmeinafræðingi sem er framkvæmdastjóri Tröppu.
Fljótlega eftir að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir settist í borgarstjórn Reykjavíkur varð hún ósátt við hvernig var staðið að þjónustu fyrir börn sem þurftu á sérkennslu að halda sem og bráðger börn. Þegar hún hætti í stjórnmálum ákvað hún að snúa sér alfarið að menntamálum og stofnaði fyrirtækið Tröppu árið 2014 ásamt Tinnu Sigurðardóttur talmeinafræðingi sem er framkvæmdastjóri Tröppu.
Kerfið hefur lengi vitað um fylgnina á milli sérkennslubarna og brottfalls úr skóla og stöðugt var verið að prófa eitthvað nýtt eða setja meira fé í hjálp án eftirfylgni eða árangursmælinga, segir hún. „Á sama tíma sáum við kostnaðinn aukast árlega. Ég held að það sé hægt að fullyrða að enginn stjórnmálamaður sé þeirrar skoðunar að vilja ekki setja aukinn pening í sérkennslu og gera betur. En er peningurinn að skila árangri? Við verðum hreinlega að spyrja okkur þeirrar spurningar. Þar er ég ekki að hugsa um peningana heldur barnið. Er barnið að fá þjónustu sem hentar því? Hafði þjónustan áhrif?“ spyr Þorbjörg Helga.
Hún vísar þar til þess að aðgerðir sem barninu er boðið upp á skili árangri og að ekki sé um handahófskenndar aðgerðir að ræða heldur byggðar á gagnreyndum rannsóknum. Reykjavík er stærsta sveitarfélag landsins og hlutfallslega mesta þörfin fyrir hjálp en borgin réð engan veginn við verkefnið. Sem betur fer hefur margt lagast, segir Þorbjörg Helga.
„Ég vildi að borgin nýtti sér tæknina en það náðist ekki í gegn á þeim tíma. Þegar ég hætti í borgarstjórn ákvað ég að fara inn á þetta svið og skoðaði bandarískt fyrirtæki sem þjónustar skóla í gegnum netið. Ástæðan hjá mér var fyrst og fremst sú að aðgengi að talmeinafræðingum var nánast ekkert, hvorki í þéttbýli né dreifbýli. Við eigum of fáa starfandi talmeinafræðinga og landið allt var vinnustaður þeirra þannig að mikið af tíma þeirra fór í ferðalög.
Ég hafði engan veginn getað sem stjórnmálamaður sett mig í spor þessara sérfræðinga sem störfuðu í gríðarlega krefjandi umhverfi. Margir þeirra bæði hjá hinu opinbera og á stofum voru yfirbókaðir en um leið vannýttir,“ segir Þorbjörg Helga.
Trappa býður upp á talþjálfun í gegnum netið fyrir börn og fullorðna. Trappa þjónustar sveitarfélög víðs vegar um landið. Allir geta nýtt sér talmeinaþjónustu í gegnum fjarbúnað og í fimm ár hafa börn víðsvegar um landið og á höfuðborgarsvæðinu notið þjónustu talmeinafræðinga Tröppu.
Í kjölfar Tröppu varð fjarþjónustufyrirtækið Kara Connect til og var Kara valið sproti ársins og heilsusproti ársins í Nordic Startup Awards á Íslandi í fyrra. Á sama tíma var Þorbjörg Helga valin frumkvöðull ársins á Íslandi.
Kara var svokallað „spin out“ frá Tröppu því það var ljóst að mjög margt fagfólk í heilbrigðis-, mennta- og velferðargeiranum gæti nýtt sér örugga stafræna vinnustöð til að skrá, fá greitt, vista viðkvæm gögn og eiga fjarþjónustu eða spjallsamtöl. Kara uppfyllir allar kröfur embættis landlæknis varðandi öryggi.
Kara er notuð af sérfræðingum á ólíkan hátt. Hjá Reykjavíkurborg er tilraunaverkefni tengt sérkennsluráðgjöf inn í leikskólana nýlokið og annað að hefjast hjá barnavernd. Þorbjörg segir að fjarfundir spari mikinn tíma, ekki bara úti á landi heldur líka á höfuðborgarsvæðinu.
Hún segir að oft sé miklu þægilegra fyrir foreldra að setjast niður með barninu í skólanum í stað þess að keyra á milli bæjarhluta til að hitta sérfræðinginn. Eins er ódýrara fyrir sveitarfélög að fá þrjá tíma hjá talmeinafræðingi á þennan hátt en að senda barnið í greiningu á vandanum. Í stað þess að barnið þurfi að bíða eftir greiningu fær það þjónustu talmeinafræðings strax. Þorbjörg Helga segir að hægt væri að aðstoða börn með annað tungumál miklu betur með þessari þjónustu en nú er gert.
Þorbjörg segir að módel Tröppu virki þannig að börnin setjast niður í skólanum og fái aðstoð talmeinafræðings í gegnum netið. Þetta hafi gefið góða raun og staðfesting þess sé að ekkert barn sem hafi byrjað hjá Tröppu hefur viljað hætta. Fyrst hafi hver tími verið 40 mínútur en nú séu margir tímar styttri þar sem það hentar börnunum oft betur.
Tinna Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og framkvæmdastjóri Tröppu í Reykjavík, segir í viðtali við Morgunblaðið nýverið að þær hafi byrjað með einn talmeinafræðing en nú eru þeir fimm. Á síðasta ári var þjónusta talmeinafræðinga, námsráðgjafa og atferlisráðgjafa að meðaltali 266 tímar á mánuði hjá Tröppu.
Trappa annast fjarkennslu í sjötta til tíunda bekk í þremur fámennum skólum. Öll kennsla fer fram í gegnum vefinn. Sérfræðingurinn er aldrei á staðnum en hittir nemendur einu sinni til tvisvar á ári.
Þegar Þorbjörg er spurð hvort ekki hafi komið til greina að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í gegnum Tröppu fyrir skólana segir hún að kostnaður standi því fyrir þrifum. Skólinn þurfi að fá meira fjármagn fyrir skólastjórnendur að ráðstafa. Margir telji að hægt sé að bjarga öllu inni í skólastofunni hjá kennaranum en það gangi einfaldlega ekki alltaf upp þar sem kennarinn er með allt litrófið þegar kemur að nemendum og stundum allt að 25-30 börn í bekk.
„Skóli án aðgreiningar er ekki sparnaðartæki en eins og staðan er í dag hafa skólar bara kost á að ráða stuðningsfulltrúa inn í bekkinn. Það er ágætt en nær ekki að sinna hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar þar sem hvert og eitt barn á að fá hjálp við hæfi innan veggja skólans. Aðgengi að sérfræðiþekkingu fagfólks verður að aukast en á sama tíma þarf líka að tryggja að þetta mikilvæga fagfólk brenni ekki út og hætti. Það þarf að huga vel að vinnuflæði þessa fagfólks og styrkja það í sínu fagi í stað þess að það eigi að kunna smá í öllu,“ segir Þorbjörg Helga.
Hún segir að halda þurfi vel utan um alla þjónustu sem veitt er í skólakerfinu og hvernig hún virkar. Sveitarfélög og ríki skorti upplýsingar og yfirsýn til að forgangsraða fjármunum. Allt of hátt hlutfall af fjármunum menntakerfisins renni í sérkennslu sem ekki er vitað hvort hafi skilað árangri. Með því að nýta betur fjármagn sem og tíma sérfræðinga er hægt að gera miklu betur en nú er gert.
„Margir eru ekki sáttir við að Kara sé að veita þjónustu á mennta- og heilbrigðissviði þar sem þetta er einkafyrirtæki. Þetta byggist á misskilningi þar sem Kara er í raun vefþjónusta fyrir sérfræðinga sem starfa á eigin kennitölu eða vinna hjá stofnunum eða inni í sveitarfélögum – Með Köru næst til fólks sem hefur hreinlega ekki bolmagn til að keyra börnin eða sína nánustu út og suður á vinnutíma. Það eru ekki allir í þeim aðstæðum að geta skroppið frá í vinnu. Það eru mörg handtök sem sparast hjá sérfræðingum og aðstandendum, og upplýsingar vistast á einum öruggum stað. Sálfræðingar, næringarfræðingar, félagsráðgjafar, talmeinafræðingar og sérkennarar nýta sér hugbúnaðinn til að bæta aðgengi að sinni sérfræðiþjónustu. Draumurinn er að sérfræðingar geti einfaldað dagsskipulagið sitt og nýtt tíma sinn frekar í að hitta fleiri skjólstæðinga eða lesa nýjustu fræðigreinarnar. Allir græða,“ segir frumkvöðullinn Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir að allt frá því hann tók við sem ráðherra hafi verið hans forgangsverkefni að brjóta niður múra milli kerfa og tala meira saman þegar kæmi að málefnum barna. Að mæta börnum þegar þau þurfa aðstoð. Sama hvar það er, hvort sem það er innan skólans, félagsþjónustunnar eða heilbrigðiskerfisins. Hann segir ánægjulegt að finna vilja allra til þess að gera kerfisbreytingar sem miða að þessu. „Þá verður félagsþjónustan að tengjast inn í skólana, eins heilbrigðiskerfið og frjáls félagasamtök. Þetta er stóri kjarninn í vinnunni sem við erum búin að vera að vinna að undanfarin misseri. Að koma með skipulögðum hætti að því hvernig við búum til net í kringum börnin og hvernig við getum gert það á skipulagðan hátt. Þannig að ábyrgðin sé skýr sem og skyldurnar og tryggjum samt samtalið á milli kerfanna. Að við nálgumst börn og ungmenni á þeirra forsendum og þeirra hátt,“ segir Ásmundur Einar.
Myndin að þessu er búin að teiknast upp í samtali milli allra ráðuneyta, stjórnmálaflokka, í hliðarhópum sem sveitarfélögin áttu meðal annars aðild að, segir hann. „Það eru allir búnir að vera við borðið og nú er verkefnið að segja: Við erum tilbúin í þessa vegferð. Ef við erum það verðum við að byrja að skipuleggja á hve löngum tíma við getum gert þessa kerfisbreytingu. Sumir segja að það þurfi bara aukna peninga inn í kerfið, jú vissulega mun þurfa aukið fjármagn á næstu árum þegar kemur að snemmtækri íhlutun. Þegar kemur að þessu sem verið er að prófa í menntakerfinu, með tengslum við félagsþjónustuna og fleira. En þetta mun skila sér margfalt til baka síðar meir, segir Ásmundur Einar.
„Það er dýrara að gera þetta ekki en ég held að það væri varhugavert að setja inn fjármuni í þetta verkefni áður en kerfisbreytingin er komin. Við þurfum að tryggja samtalið á milli kerfa og það má ekki vera handahófskennt. Það má ekki byggjast eingöngu á vilja einstaklinganna í kerfinu til að vinna saman. Við þurfum að sýna ábyrgð og berum skyldur til þess þegar kemur að málefnum barna, sama hvað það er, og það er mjög jákvætt að upplifa hversu viljugir allir eru til þess að taka þátt í þessari vegferð fyrir börn.
Við þurfum að vinna saman og á skipulagðan hátt. Takist okkur að gera það tel ég að þetta geti orðið stærsta aðgerð í þágu barna á Íslandi og muni gjörbreyta stöðu barna til næstu ára. Í mínum huga verðum við að gera það því það eru svo mörg teikn á lofti. Aukinn kvíði, meira álag á alla í samfélaginu á sama tíma og samfélagsgerðin er að breytast. Við verðum að grípa inn og aðstoða þessa einstaklinga,“ segir Ásmundur Einar Daðason.
Hann hefur boðað til ráðstefnu undir yfirskriftinni Breytingar í þágu barna og verður hún haldin 2. október.
Velferðarráðuneytið boðaði til ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna á Íslandi í maí 2018. Þangað mættu 350 manns. Markmiðið var að fá fram samtal um það hvernig samfélagið gæti gripið fyrr inn í þegar kemur að börnum og ungmennum sem þarfnast aðstoðar. Þátttakendur ráðstefnunnar voru sammála um að gera þyrfti kerfisbreytingar í þágu barna.
Í framhaldinu skrifuðu félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk sambands íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um að auka ætti samstarf á milli málefnasviða sem snúa að börnum og í kjölfarið var skipaður sérstakur stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna. Samhliða því skipaði félags- og barnamálaráðherra nefnd þingmanna með fulltrúum allra þingflokka sem falið var, í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna, að móta tillögur að breyttri skipan velferðarmála til að ná betur utan um börn og ungmenni.
Óskað var víðtæks samráðs í þessari vinnu og mikið lagt upp úr því að fá sem flesta að borðinu. Frá upphafi var skýrt að öllum sem vildu væri velkomið að vera með. Fjölmargir sérfræðingar, fulltrúar félagasamtaka og notendur kerfisins svöruðu kallinu og lögðu sitt af mörkum. Þátttakendum var skipt niður í átta hliðarhópa sem fjölluðu um: