Viðvarandi slakur árangur er óviðunandi

Skóli fyrir alla? | 8. október 2019

Viðvarandi slakur árangur er óviðunandi

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir óásættanlegt að frammistaða íslenskra nemenda sé fyrir neðan meðaltal OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) og að Ísland dragist stöðugt aftur úr Norðurlöndunum í árangri.

Viðvarandi slakur árangur er óviðunandi

Skóli fyrir alla? | 8. október 2019

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir óásættanlegt að frammistaða íslenskra nemenda sé fyrir neðan meðaltal OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) og að Ísland dragist stöðugt aftur úr Norðurlöndunum í árangri.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir óásættanlegt að frammistaða íslenskra nemenda sé fyrir neðan meðaltal OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) og að Ísland dragist stöðugt aftur úr Norðurlöndunum í árangri.

„Í úttekt sinni á á íslensku efnahagslífi dregur OECD skýrt fram áskoranir í íslensku menntakerfi. Þar kemur fram athyglisverð greining á þeim þáttum sem hafa áhrif á breytingar sem orðið hafa á árangri ungs fólks hér á landi. Þar má nefna vaxandi áhrif félagsstöðu nemenda og félagslegrar samsetningar skóla á námsárangur, kynjamunur er mikill, árangur nemenda á landsbyggðinni versnar og staða innflytjenda er veik,“ segir Arnór. 

Hann segir að staðan sé síst að batna líkt og bent er á í skýrslu OECD. Ekki síst hvað varðar vaxandi mun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins og innflytjenda. 

Spurður út í félagsstöðu nemenda segist hann telja að þetta tengist þeirri atvinnubreytingu sem er að verða og hefur verið að breytast til lengri tíma litið. Á sama tíma og auknar kröfur eru gerðar um menntun. „Þú sérð ekki lengur fyrir þér sem barn á landsbyggðinni að vinna í fiski eða fara á togara strax að loknum grunnskóla. Heldur er veruleikinn orðinn allt annar og nauðsynlegt fyrir alla að sækja sér framhaldsmenntun. Við erum að ganga í gegnum mikið umbreytingarskeið í atvinnumálum sem ég tel að endurspeglist í þessari félagslegu breytingu. Að fólk fer til að mennta sig og kemur ekki til baka,“ segir Arnór. 

kennarar og skólastjórnendur þurfa að axla ábyrgð á margs konar …
kennarar og skólastjórnendur þurfa að axla ábyrgð á margs konar viðfangsefnum án viðeigandi stuðnings. mbl.is/Hari

Hann segir að þetta sé ekki aðeins slæmt fyrir framtíðaratvinnumöguleika ungs fólks í flóknum tækniheimi nútímans heldur einnig fyrir lýðræðisvitund og samfélagsþátttöku.

Að sögn Arnórs er á sama tíma gerð aukin krafa um þjónustu í skólakerfinu og að skólinn sinni þörfum allra sem fóru kannski ekki áður í gegnum skólakerfið heldur fóru fyrr út á vinnumarkaðinn. „Þá spyr maður sig hvort þessir litlu skólar fái nægilegan stuðning til að veita þessa þjónustu og ég held að svarið sé nei,“ segir Arnór og vísar þar til mismunandi aðstæðna sem sveitarfélögin búa við. Allt frá þeim stærstu í þau smæstu. Þetta hafi einnig áhrif á kennara og kröfuna á þjónustu sem ætlast er til að þeir veiti nemendum.

Hver ber ábyrgð á innleiðingu?

„Ísland hefur alla burði til að snúa þessari þróun við. Slíkt verður fyrst og fremst gert með því að efla skóla og kennara og skapa þeim forsendur að bæta starf sitt. En hver ber ábyrgð á að innleiða slíkar umbætur?

Með undirritun Þjóðarsáttmála um læsi árið 2015 skuldbundu ríki og sveitarfélög sig til að vinna að bættum árangri nemenda í lestri. Á þessum tíma hafa verið þróuð tæki til að meta stöðu nemenda í lestri og styðja við starf kennara, sveitarfélög hafa mótað sér læsisstefnu, veitt hefur verið ráðgjöf til sveitarfélaga og skóla og unnið að því að auka vitund foreldra og almennings um mikilvægi lesturs. Þrátt fyrir mikið starf undanfarin ár sjást þó engin merki þess að árangur sé að batna. Vissulega taka menntaumbætur tíma og áhrif aðgerða koma ekki strax fram en viðvarandi slakur árangur, samkvæmt reglubundnum mælingum Menntamálastofnunar, er óviðunandi. Svo virðist sem kerfislægar forsendur skorti til að hægt sé að snúa þróuninni við,“ segir Arnór.

Kennaramenntun og starfsþróun kennara er afar mikilvæg og hefur mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þegar gripið til aðgerða á þeim vettvangi með breytingum á námi kennara og nýjum lögum um menntun þeirra og hæfni.

„En fleira þarf að koma til. Eitt af því sem bent hefur verið á er skortur á stýringu í íslensku skólakerfi. Þetta birtist meðal annars í að ábyrgðarhlutverk lykilaðila í skólakerfinu eru óljós. Með flutningi grunnskóla til sveitarfélaga riðlaðist það stuðningskerfi við grunnskóla sem áður var til staðar hjá fræðslustjórum á vegum ríkisins. Í könnun sem gerð var 2016 kom í ljós að starfandi voru 30 skólaskrifstofur í landinu en 20 skólar voru utan skólaskrifstofu. Þegar dreifstýring er mikil samkvæmt lögum og aðalnámskrá segir það sig sjálft að svo smáar einingar hafa afar takmarkaðar forsendur til að veita viðeigandi stuðning við kennara og skóla. Fyrir vikið þurfa kennarar og skólastjórnendur að axla ábyrgð á margs konar viðfangsefnum án viðeigandi stuðnings og hafa minna svigrúm til að sinna kennslu og námi nemenda sem skyldi.

Hlutverk og ábyrgð ríkisins eru einnig óljós. Það setur lög og aðalnámskrá en treystir síðan á sveitarfélög og skóla við innleiðingu. Stuðningur við námsmat og aðra lykilþætti í innleiðingu námskrár er afar takmarkaður enda ekki ljóst hversu langt ríkið á að ganga í stýringu gagnvart skólum og sveitarfélögum. Lausnin felst ekki endilega í að auka miðstýringu af hálfu ríkisins. Víða erlendis er verið að hverfa frá lóðréttu boðvaldi til verkaskiptingar þar sem ólíkir aðilar vinna saman en hafa ákveðna sjálfstjórn. Þannig er stjórnun menntakerfa lagskipt þar sem tengsl og hlutverk þeirra sem vinna á ólíkum stigum eru sveigjanleg og breytileg en þó skýr, hvort sem það er ríki, sveitarfélög, samtök, skólastjórnendur eða kennarar.

Meira þarf að gera en að sameina sveitarfélög og það …
Meira þarf að gera en að sameina sveitarfélög og það strax. mbl.is/Hari

„Ég held að byggja þurfi upp stærri einingar varðandi þjónustu við skólakerfið á landsbyggðinni en nú er. Að einhverju leyti er verið að því með sameiningu sveitarfélaga en ég held að það þurfi meira til og að það sér gert strax,“ segir Arnór. 

Í Kanada sem einnig er dreifbýlt land hefur verið farin sú leið að stýringin sé frá miðjunni. Ekki með miðstýringu ríkisins heldur byggja upp einingar á vettvangi og samstarf fleiri aðila. Fyrirkomulagið getur verið með ólíkum hætti en samt sem áður í gegnum svæðismiðstöðvar sem sinni þessari þjónustu. 

Að einhverju leyti er verið að ræða það með samþættingu mennta-, velferðar- og heilbrigðisviðs en áherslan þyrfti að vera meiri á menntakerfið, segir Arnór. Í Reykjavík er til að mynda talað um Breiðholtsmódelið og á Aust­ur­lands­líkanið sem er þverfag­legt sam­starf fé­lagsþjón­ustu, heilsu­gæslu og skóla á Aust­ur­landi. 

Enn einu sinni varað við veikleikum í menntakerfinu

„Við hjá Menntamálastofnun gerum ákveðnar kröfur um nám og kennslu því ef það er í lagi er margt annað í lagi. Við finnum það varðandi læsisverkefnið að það er ákveðin þörf fyrir sérfræðiþjónustu. Að bregðast við og fylgja eftir ólíkum þörfum nemenda út frá mælingunum. Ég sé fyrir mér samstarf Menntamálastofnunar við aðila úti á landi sem hafa það verkefni að styðja við skóla,“ segir Arnór og bætir við að í stafrænum heimi þarf ekki endilega að horfa þröngt á svæði heldur samstarf fagfólks í skólum og fleira með dreifðri stjórnun þar sem ólíkar þarfir nemenda eru í forgrunni og foreldrar, kennarar, skólastjórnendur, sveitarfélög og aðrir þeir sem að menntun koma geti haft áhrif. 

Að sögn Arnórs má þetta ekki vera tilviljanakennt því það er réttur barna að fá ákveðna þjónustu og ekki hægt að virða þann rétt ef ekki er búið að koma stýringu á. „Þetta er stórt viðfangsefni sem ekki hefur fengið mikla athygli. Við sjáum það bæði í árangri hér í samræmdum prófum og læsismælingum,“ segir Arnór. 

Enn einu sinni hafa Íslendingar fengið ábendingar frá erlendum aðilum þar sem varað er við veikleikum í menntakerfinu. Það er kominn tími til að skapa réttar forsendur til að snúa þróuninni við og  skýra hlutverk og ábyrgð lykilaðila í þeirri vegferð, segir Arnór. „Ábyrgðin liggur ekki bara hjá sveitarfélögunum og ríkinu heldur er þetta sameiginleg ábyrgð okkar allra,“ segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar. 

mbl.is