Nota fjögur tungumál daglega

Skóli fyrir alla? | 18. október 2020

Nota fjögur tungumál daglega

Skólasókn innflytjenda í leikskóla, framhaldsskóla og háskóla er að jafnaði lægri en skólasókn innlendra á Íslandi. Mestur er munurinn í framhaldsskóla og háskólum. 13,7% allra leikskólabarna og 11,5% allra grunnskólabarna eru með annað móðurmál en íslensku samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Mikill fjöldi tungumála er talaður meðal nemenda í íslenska menntakerfinu.

Nota fjögur tungumál daglega

Skóli fyrir alla? | 18. október 2020

Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Skólasókn innflytjenda í leikskóla, framhaldsskóla og háskóla er að jafnaði lægri en skólasókn innlendra á Íslandi. Mestur er munurinn í framhaldsskóla og háskólum. 13,7% allra leikskólabarna og 11,5% allra grunnskólabarna eru með annað móðurmál en íslensku samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Mikill fjöldi tungumála er talaður meðal nemenda í íslenska menntakerfinu.

Skólasókn innflytjenda í leikskóla, framhaldsskóla og háskóla er að jafnaði lægri en skólasókn innlendra á Íslandi. Mestur er munurinn í framhaldsskóla og háskólum. 13,7% allra leikskólabarna og 11,5% allra grunnskólabarna eru með annað móðurmál en íslensku samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Mikill fjöldi tungumála er talaður meðal nemenda í íslenska menntakerfinu.

Hingað til hefur tungumálastefna fjölbreyttra fjölskyldna innflytjenda og áhrif hennar á menntun verið lítið rannsökuð hér á landi en Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands, vinnur nú að slíkri rannsókn. Að hennar sögn er rannsóknin til þriggja ára og hófst hún fyrr á þessu ári. Þrátt fyrir að vera nýlega hafin hefur hún leitt ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Hanna hefur rannsakað stöðu barna og fullorðinna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og skólum ásamt ýmsum þáttum fjölmenningarlegs skólastarfs undanfarna áratugi.

Rannsóknin sem Hanna vinnur nú að er fjöltilvika-rannsókn, þar sem gagna er aflað með viðtölum við foreldra í fjölskyldum innflytjenda sem nota tvö eða fleiri tungumál í daglegu lífi, svo og í viðtölum við kennara og skólastjóra barna þeirra í leik- og grunnskólum og vettvangsathugunum í skólunum. Gagnaöflun hófst í sumar.  

Í erindi sem Hanna flutti á Menntakviku menntavísindasviðs Háskóla Íslands nýverið kynnti hún fyrstu niðurstöður úr viðtölum við þrjár fjölskyldur sem taka þátt í rannsókninni, skólastjóra og kennara í leikskóla barnanna.

Leggja mikla áherslu á tungumálakunnáttu

Á heimilum fjölskyldnanna þriggja eru töluð 1-3 tungumál, þau hafa búið mislengi á Íslandi eða frá tveimur upp í tólf ár. Fjölskyldurnar eiga allar sammerkt að hafa skýra og vel afmarkaða tungumálastefnu og leggja mikla áherslu á tungumálakunnáttu. Samt á ólíkan hátt að sögn Hönnu.

Í samtali við mbl.is segir Hanna að rannsókninni sé meðal annars ætlað að skoða áhrif tungumálastefnu fjölskyldnanna á menntun barnanna.

„Ég er nýlega byrjuð á rannsókninni og þegar hefur komið ýmislegt áhugavert fram. Það er mjög gagnlegt fyrir skóla og starfsfólk þeirra að vera í samstarfi við foreldra og skilja hvað þeir eru að hugsa og hvernig þeir vinna með tungumál. Enn í dag eru þetta dálítið aðskildir heimar – heimili og skólar – og það þarf að reyna að brúa þetta bil. Það er hinsvegar meira en að segja það að breyta þessu,“ segir Hanna.

Hanna styðst meðal annars við rannsóknir Jim Cummins og Roma Chumak-Horbatsch en þau telja að til þess að hægt sé að þróa námsrými jafnaðar fyrir fjöltyngda nemendahópa þurfi skólar að leggja áherslu á aðferðir sem byggja á reynslu og þekkingu nemenda, meðal annars í tungumálum. Áhersla á eitt tungumál hafi neikvæðar afleiðingar fyrir fjöltyngda nemendahópa og leiði til þöggunar fjöltyngdra nemenda. Því þurfi að vinna markvisst á grunni þeirra tungumála sem þau þekkja og kunna.

„Tungumála- og menningarmiðaðir kennsluhættir eru misvel þróaðir í skólum á Íslandi en áhugi er hjá leikskólakennurunum í rannsókninni á að fá betri þjálfun í slíkum kennsluháttum og auka samstarf við foreldrana í því skyni að styðja betur við fjöltyngi barnanna

Að sögn Hönnu er fræðileg nálgun um tungumálastefnu fjölskyldna frekar nýtt rannsóknarsvið en þar er skoðað hvaða tungumál eru töluð á heimilinu, hvernig þau eru notuð og hvernig er ákveðið hvaða tungumál eru notuð og við hvaða tilefni. Stundum séu börnin með í að ákveða hvernig og hvort tungumál er notað í samskiptum inni á heimilinu.

„Hjá einni fjölskyldu sem ég ræddi við eru fjögur tungumál í daglegri notkun. Foreldrarnir eru af sitt hvorum uppruna og síðan nota þau þriðja tungumálið sín á milli í samskiptum. Fjórða tungumálið er að lokum samskiptatungumál fjölskyldunnar við nærsamfélagið, þ.e. íslenska. Börnin eru í raun með öll þessi tungumál í kringum sig dagsdaglega.

Þær fjölskyldur sem ég hef rætt við eru mjög ákveðnar í því hvernig hvert tungumál er notað og í hvaða samhengi. Þær eru með kennslutæki og gögn á hverju tungumáli á heimilinu og hafa sumar ákveðinn tíma fyrir hvert tungumál. Þetta er mjög áhugavert en samt sem áður hafa foreldrarnir aldrei verið spurðir út í þetta áður,“ segir Hanna.

„Á sama tíma er vitað að það er vaxandi fjöldi fjölskyldna á Íslandi með fleiri en eitt tungumál í notkun á heimilinu. Það er ekki bara þeirra heimamál og íslenska þar sem fjölskyldurnar geta verið blandaðar,“ segir Hanna. 

Eru með hlutverkin vel skilgreind

Leikskólinn sem er hluti af rannsókn Hönnu hefur verið að …
Leikskólinn sem er hluti af rannsókn Hönnu hefur verið að þróa mjög skýra læsisstefnu varðandi tvítyngi og fjöltyngi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fyrirlestrinum á Menntakviku vísaði Hanna í ummæli móður sem tekur þátt í rannsókninni um fjöltyngi dóttur hennar: „Ég held að hún muni seinna í lífinu virkilega njóta góðs af því almennt, hvert sem hún fer, skiptir ekki máli hvar hún mun búa. Og ég held að það hjálpi líka við þroska hennar og heilastarfsemi. Ekki bara varðandi tungumál, heldur líka við rökræna hugsun og stærðfræði. Ég held að það muni hjálpa henni mikið.“

Rannsóknin sýnir að foreldrar skipuleggja hlutverk sitt og leikskólans. Þeir segi að það sé hlutverk leikskólans að kenna íslensku svo börnin geti átt samskipti við önnur börn og kennara á leikskólanum en það sé hlutverk þeirra, foreldranna, að kenna barninu ensku og móðurmál foreldranna.  

„Þetta hlutverk er vel skilgreint hjá foreldrum sem ég ræddi við. Þau segja að ein af ástæðunum fyrir því að þau vilji ekki kenna börnum sínum íslensku sé sú að þau óttist að kenna þeim einhverja vitleysu þar sem kunnátta þeirra, það er foreldranna, er kannski takmörkuð. Foreldrarnir gæta þess aftur á móti að eiga bækur á íslensku á heimilinu fyrir börnin,“ segir Hanna.

Hafa áhuga á menningarmiðaðri kennslu

Leikskólinn sem er hluti af rannsókn Hönnu hefur verið að þróa mjög skýra læsisstefnu varðandi tvítyngi og fjöltyngi. Starfsmenn hafa áhuga á að þróa virkt fjöltyngi barna og mikill áhugi er á að þróa menningarmiða kennslu og að kennarar fái viðeigandi þjálfun til þess. Kennararnir og skólastjórnendur vilja auka samstarf við foreldra til að styðja við þetta.

Stefnan er í mótun og ekki er búið að innleiða stefnuna að fullu heldur aðeins að hluta. Til þess að stíga skrefið til fulls þarf markviss þjálfun til lengri tíma litið að koma til þannig að kennarar væru meðvitaðir og þjálfaðir í að vinna með nemendum með fjölbreytta tungumálakunnáttu. 

„Samstarf er enn af skornum skammti við foreldra og heimili en vilji að gera betur hvað varðar fjöltyngi. Það þyrfti að auka samtalið og eins mætti nýta betur þekkingu foreldra og nýta hana í leikskólastarfinu. Skólar geta lært heilmikið af því sem foreldrar gera og öfugt,“ segir Hanna.

„Mér finnst mjög áhugavert að sjá þetta. Það hefur ýmislegt breyst á undanförnum árum og varla hægt að finna þann skóla þar sem ekki eru nemendur af erlendum uppruna enda fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Það þarf að gera ráð fyrir þessum breytingum þegar kemur að menntun kennaranema og í vinnu með nemendum af erlendum uppruna. Ekki bara horfa á það sem börnin kunna ekki heldur á það sem þau kunna. Því þrátt fyrir að kunna kannski ekki alla hluti á íslensku þá kunna þau heilmikið annað. Það þarf hugarfarsbreytingu, að hætta að einblína á það sem börn af erlendum uppruna kunna ekki heldur það sem þau geta og lyfta þeirri kunnáttu upp,“ segir Hanna.

Kennsluhættir henti fjölbreyttari hópum

Skóli án aðgreiningar er verkfæri til þess að lagfæra fyrirbæri …
Skóli án aðgreiningar er verkfæri til þess að lagfæra fyrirbæri sem er til staðar – skólann. mbl.is/Hari

Fyrri rannsóknir Hönnu sýna að þörf er á breyttum kennsluháttum á fleiri skólastigum. Að kennsluhættir henti fjölbreyttum hópum. Eitthvað sem kennarar mættu vera meira meðvitaðir um.

Rannsóknir sýna að brottfall er meira meðal ungmenna með erlendan bakgrunn en íslenskra nemenda í framhaldsskólum landsins. „Tölurnar segja okkur að það vantar átak í þessum málum. Fáir nemendur af erlendum uppruna eru í háskólum landsins þar sem þau komast mörg ekki í gegnum framhaldsskólann. Þetta er ábyrgðarhlutur því við á Íslandi erum með menntastefnu sem segir að skóli eigi að vera án aðgreiningar og fyrir alla, við höfum lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og við erum með lög og reglur sem segja að við eigum að sinna öllum börnum og styðja þau til náms. 

Við erum að mörgu leyti á eftir hinum Norðurlöndunum og við ættum að geta lært af þeim. Heilmikil þekking og rannsóknir eru til hér á landi sem mætti nýta til að gera betur. Hér vantar meiri samstöðu og átak yfir öll skólastig í að styðja alla nemendur til náms,“ segir Hanna.

mbl.is